10.12.1985
Sameinað þing: 28. fundur, 108. löggjafarþing.
Sjá dálk 1240 í B-deild Alþingistíðinda. (991)

Viðskipti Hafskips og Útvegsbankans

Samgrh. (Matthías Bjarnason):

Herra forseti. Ég vil byrja á að þakka hæstv. síðasta ræðumanni fyrir mjög ítarlega og stórmerkilega ræðu að mörgu leyti. Sérstaklega finnst mér hann hafa verið athafnasamur í rannsókn þessa viðamikla máls því hann sagði frá mörgu í þessari ræðu sem ég hef aldrei heyrt fyrr um. Ég ætla ekki að draga í efa sannleiksgildi hans frásagnar, en það hvarflaði að mér hvort nokkur þörf væri á skiptaráðanda eða þingnefnd, hvort ekki væri nóg að fela einum manni þessi mál öll sömul. Viðkomandi ætlar líka að vera mjög fljótur þó að hér sé um að ræða viðskipti víða um heim. Hann kom víða við sögu og mun ég koma inn á það síðar í þessari ræðu.

Ég vil byrja á að skýra frá fréttatilkynningu sem ríkisstj. sendi frá sér í dag, en á fundi sínum fyrir hádegi samþykkti ríkisstj. eftirfarandi:

„Föstudaginn 6. desember s.l. var Hafskip hf. tekið til gjaldþrotaskipta skv. gjaldþrotalögum nr. 6/1978. Fer skiptaráðandinn í Reykjavík nú með forræði gjaldþrotabúsins jafnframt því hlutverki sínu að rannsaka hvort einhver lögbrot tengist gjaldþroti fyrirtækisins og ástæðum þess. Með hliðsjón af þessu er ljóst að rannsókn á hugsanlegu refsiverðu athæfi í tengslum við þetta gjaldþrot er nú þegar í þeim farvegi sem lög gera ráð fyrir.

Þá hefur það enn fremur gerst að iðnrh. hefur farið þess á leit við ríkissaksóknara að hann láti framkvæma sérstaka rannsókn á þeim ásökunum sem beinst hafa að iðnrh. nýverið í þá veru að hann hafi misnotað aðstöðu sína sem formaður bankaráðs Útvegsbankans til að greiða fyrir viðskiptum Hafskips hf.

Til viðbótar þessu telur ríkisstj. þörf á að könnuð verði sérstaklega þau atriði er lúta að viðskiptalegum þáttum málsins sem ekki eru til athugunar sem refsiverð háttsemi af hálfu ofangreindra rannsóknaraðila. Í því skyni ákveður ríkisstj. að setja á fót nefnd þriggja sérfróðra manna sem að höfðu samráði við skiptaráðanda hafi það hlutverk að kanna hvort um óeðlilega viðskiptahætti hefur verið að ræða í samskiptum Útvegsbankans og Hafskips hf. á undanförnum árum. Bankaeftirlit Seðlabankans verður nefndinni til aðstoðar um upplýsingaöflun sem þörf er á.

Ríkisstjórnin mun leita lagaheimildar til að fela Hæstarétti að tilnefna þessa nefnd. Nefndin skal hraða störfum sínum og skila skýrslu til viðskrh. að starfi loknu.“

Jafnframt var bókað í ríkisstj. í morgun eftirfarandi: „Jafnframt skýrði viðskrh. frá því að hann hefði þegar falið bankaeftirliti Seðlabankans að gera athugun á því hvernig skuldastöðu stærstu viðskiptafyrirtækja í ríkisviðskiptabönkum sé háttað og fjárhagsstöðu viðskiptabankanna. Ríkisstj. ályktaði eftirfarandi: Ríkisstj. leggur áherslu á að þessari könnun verði hraðað.“

Ég skal taka fram að því sem hér er bókað óskaði ég eftir fyrir tæpum mánuði.

Mér þykir rétt að fara nokkrum orðum um atburðarás síðustu vikna í þessu Hafskipsmáli, en þar hefur hver stóratburðurinn rekið annan, nánast frá degi til dags, með þeim endalokum sem öllum eru kunnug, þ.e. gjaldþroti fyrirtækisins. Það skal tekið fram að heimildarmenn mínir fyrir þessu eru að sjálfsögðu bankastjórnin svo og ríkislögmaður sem frá 19. nóvember hefur fylgst með þessu máli sérstaklega tilnefndur af mér sem viðskrh.

Ég vil þá fyrst víkja að hinum fyrri viðræðum við Eimskip um hugsanlega samvinnu eða kaup Eimskips á eignum Hafskips.

Þegar í ljós kom á miðju s.l. sumri hversu slæm afkoma Hafskips hafði verið fyrstu fjóra mánuði ársins hófust þreifingar af hálfu forráðamanna félagsins um samvinnu við Eimskipafélagið. Útvegsbankinn kom ekki inn í það mál fyrr en um eða eftir miðjan október, en þá var haldinn fundur bankastjórnar og fulltrúa stjórnar Eimskips um þetta mál. Eimskipafélagið lagði þá fram minnisblað, en á því minnisblaði kemur fram að þeir hafi talið sennilegt kaupverð eignanna vera samtals um 13,5 millj. dollara eða u.þ.b. 520 millj. kr. Þetta skyldi greitt með kjörum sem gerðu að verkum að núvirði kaupverðsins varð talsvert lægra eða 11,2 millj. dollara, rétt tæpar 550 millj. kr. Þar að auki skyldi greiðsla, 2,2 millj. dollarar, vera háð því að a.m.k. 70% viðskipta Hafskips færðust yfir til Eimskips.

Síðar í október gengu viðræður aðila út á þá hugmynd að kaupverð skyldi vera allt að 15 millj. dollara. Hins vegar skyldu kjör vera með þeim hætti að ekki var um neina raunhækkun á verði að ræða frá því sem áður var rætt um og greiðsla fyrir viðskiptavild var alltaf háð því sama skilyrði að a.m.k. 70% viðskipta Hafskips skiluðu sér til Eimskips.

Bæði þá og síðar var ágreiningur með aðilum um þetta fyrirkomulag greiðslu fyrir viðskiptavild og var bankinn mjög ósáttur við þetta fyrirkomulag. Að mati bankastjórnarinnar strönduðu viðræður einmitt á þessu atriði.

Þessum viðræðum var haldið áfram fram í miðjan nóvember, en þá lagði Eimskipafélagið fram nýtt minnisblað. Verðhugmyndir Eimskipsmanna höfðu þá lækkað mjög verulega frá því sem áður hafði verið rætt um. Nú var gert ráð fyrir 9,5 millj. dollara verði fyrir áþreifanlegar eignir, u.þ.b. 380 millj. kr. Frá því skyldu þá dragast 850 þús. dollarar vegna þess sem kallað var „ofmat á skipum“. Þessu til viðbótar skyldu greiðast 2,7 millj. dollara eða tæpar 110 millj. kr. fyrir viðskiptavild, en sú greiðsla var háð sama skilyrði og áður. Þá var bætt við skilyrði í þá veru að bankinn ábyrgðist að Hafskip yrði ekki gjaldþrota. Reyndar var fallið frá þessu tveimur nýju skilyrðum í óformlegum viðræðum alveg í lokin.

Með þessu lauk í raun hinum fyrri viðræðum um kaup Eimskipafélagsins á eignum Hafskips.

Eftir að þetta síðasta tilboð var lagt fram af hálfu Eimskips hinn 14. nóvember var haldinn fundur með bankastjórum Útvegsbankans og Hafskipsmönnum.

Nýjustu verðhugmyndum Eimskips var þar lýst fyrir Hafskipsmönnum og þeim skilyrðum sem þeim fylgdu. Þá kom skýrt fram af hálfu Hafskipsmanna að þeir teldu þessar verðhugmyndir óviðunandi með öllu og þeir ítrekuðu þá jafnframt afstöðu sína, sem áður hafði margoft komið fram, að þeir teldu skilyrði Eimskips um greiðslu fyrir viðskiptavildina óaðgengileg. Niðurstaða þessa fundar varð sú að Hafskipsmenn tilkynntu bankanum að þeir mundu hefja viðræður við SÍS um samvinnu þessara aðila um skiparekstur. Með þessu urðu kaflaskipti í þessu máli.

Ég vil taka það fram áður en lengra er haldið að mér fannst að þessar umræður væru búnar að standa alllengi og var farinn að knýja á um úrslit. Það hvarflaði ekki að mér þegar þetta nýja viðhorf kom upp að neita um þær viðræður, enda var sunnudaginn 17. nóvember haft samband við bankastjórn Útvegsbankans og óskað eftir fundi. Þeir sem óskuðu þessa fundar kynntu sig sem fulltrúa væntanlegs nýs hlutafélags, en það skyldi samanstanda af skipadeild SÍS og einstökum hluthöfum í Hafskipi hf. Erindi þeirra sem fundarins óskuðu var í fyrsta lagi að kynna væntanlega stofnun nýs félags um skiparekstur, en hlutafé þess félags skyldi vera 350-500 millj. kr. að þeirra sögn. Tekið var fram að forráðamönnum Sambandsins væri full alvara með þessum áformum og að formlegt umboð yrði sótt til stjórnar Sambandsins eftir tvo daga, en eftir það ætti nánast ekkert að geta hindrað stofnun þessa nýja félags.

Þegar til kom drógust af ýmsum ástæðum þær ákvarðanir sem boðað hafði verið á þessum fundi að yrðu teknar. Niðurstaða lá ekki fyrir fyrr en laugardaginn 23. nóvember, en þá felldi stjórn Sambandsins tillögu þess efnis að stofnað yrði nýtt skipafélag með þátttöku Sambandsins. Á þessum tíma voru engir frekari fundir haldnir með fulltrúum Útvegsbankans annars vegar og fulltrúum Hafskips og Sambandsins hins vegar en sá eini sem áður er getið og haldinn var 17. nóvember.

Enn einn þátturinn og vendipunkturinn í málinu gerðist hinn 18. nóvember með því að Íslenska skipafélagið hf. var stofnað. Eftir áðurgreindan fund með bankastjórn Útvegsbankans og SÍS og Hafskips þann 17. nóvember skýrðu Hafskipsmenn frá því að næsta morgun, mánudaginn 18. nóvember, yrði farið fram á greiðslustöðvun hjá Hafskip. Þeir skýrðu þetta svo að vegna fjölmiðlaumfjöllunar um slæma stöðu fyrirtækisins óttuðust þeir að lánardrottnar hér heima og erlendis mundu ganga harðar að fyrirtækinu en ella hefði orðið. Það kom einnig fram að tvö skip væru þá á leið til Evrópu og þeir Hafskipsmenn óttuðust að reynt yrði að kyrrsetja skipin í erlendum höfnum. Hugmynd þeirra var sú að mæta þessum vanda annars vegar með greiðslustöðvun hér heima og hins vegar stofnun nýs skipafélags sem yfirtæki skip Hafskips hf., en með þessum hætti mætti forða því að skipin yrðu kyrrsett erlendis vegna skulda Hafskips hf.

Það má að vísu geta þess einnig að áður lýstu þeir þeirri hugmynd að samhliða greiðslustöðvun skyldi bankinn yfirtaka eignir Hafskips og taka til við skiparekstur, en þeirri hugmynd var snarlega vísað á bug af hálfu bankans.

Um þetta er að öðru leyti það að segja að bankastjórnin hafði í rauninni ekki annað svigrúm til að meta þessar hugmyndir en þetta sama kvöld, en fundinum með Hafskipsmönnum lauk um kvöldmatarleytið. Bankastjórnin hefur upplýst að hún hafi síðar fallist á að þessi leið væri sú skásta af öllum vondum sem virtust vera fyrir hendi í stöðunni. Miðað við það mat var m.a. haft í huga að samkvæmt upplýsingum SÍS og Hafskipsmanna fyrr um daginn átti nýtt skipafélag að vera komið á laggirnar eftir þrjá til fjóra daga og geta yfirtekið rekstur Hafskips þá þegar.

Þetta millibilsástand þurfti því ekki að standa yfir nema þessa örfáu daga, en með því ynnist hins vegar miklu meira, þ.e. að unnt yrði að selja eignirnar í fullum rekstri með þeim hætti sem ég hef áður lýst. Með þeim hætti fengist augljóslega mun meira fyrir þær en ef þær yrðu seldar eftir svo og svo langa rekstrarstöðvun.

Bankinn féllst einnig á að hann skyldi gera félaginu kleift að starfa með því að útvega því rekstrarfé gegn því að fá tekjur af starfsemi þess á móti.

Á þessu stigi var það ekki í huga manna að halli yrði á rekstri félagsins þá þrjá til fjóra daga sem því var ætlað að starfa og reyndar er ekki enn þá séð hvernig það dæmi kemur út. Þegar upp var staðið var reyndin hins vegar sú að Íslenska skipafélagið starfaði miklum mun lengur en menn höfðu upphaflega áætlað eða allt þar til 5. des. s.l. Ástæða þess að skipafélagið var til þetta lengi var fyrst og fremst sú að áætlanir SÍS og Hafskipsmanna fóru út um þúfur, eins og áður er fram komið, og hinn 5. des. var kaupsamningur milli Hafskips og Íslenska skipafélagsins látinn ganga til baka á grundvelli heimildarákvæðis í samningnum sjálfum.

Riftun samningsins hafði verið í farvatninu allt frá því sunnudaginn 1. des., en þá þótti sýnt eftir langan fund milli fulltrúa Útvegsbankans og Eimskipafélagsins að samningar ættu að geta náðst um kaup Eimskipafélagsins á eignum Íslenska skipafélagsins. Af tæknilegum ástæðum gat riftun samningsins hins vegar ekki farið fram fyrr en 6. des. Ástæða þess var sú að eitt skipa Íslenska skipafélagsins, Hofsá, var enn í höfn í Evrópu. Riftun samningsins á því stigi hefði getað valdið kyrrsetningu skipsins erlendis með því að Hafskip væri þá orðið eigandi skipsins aftur og kröfuhafar hefðu þar með átt beinan aðgang að þessari eign félagsins. Þá áhættu voru menn sammála um að ekki væri verjandi að taka.

Ég tel rétt að fram komi að hinn 26. nóvember undirrituðu stjórn Íslenska skipafélagsins og bankastjórn Útvegsbankans sameiginlegt minnisblað um uppgjör vegna reksturs félagsins og það minnisblað var áréttað með samkomulagi sem dagsett var 4. þessa mánaðar. Meginatriði þess er að rekstrartekjur Íslenska skipafélagsins skuli renna til bankans og að bankinn greiði öll nauðsynleg rekstrarútgjöld Íslenska skipafélagsins á þeim tíma sem það starfaði.

Ástæða þess að bankinn gerði þetta samkomulag við Hafskipsmenn eða öllu heldur Íslenska skipafélagið var tvíþætt. Í fyrsta lagi var það gert í ljósi þess sem rætt var um í upphafi, jafnvel þótt forsendan um einungis þriggja til fjögurra daga rekstur félagsins hafi brugðist svo illa sem áður er nefnt. Í öðru lagi lögðu Eimskipafélagsmenn höfuðáherslu á að yfirtaka þeirra á eignum Hafskips gæti gerst í þolanlegum friði við Hafskipsmenn.

Með hliðsjón af öllu þessu þótti bankastjórninni ekki annað fært en að gera þetta samkomulag og stuðla með þeim hætti að því að lausn fengist fram í því þrátefli sem málið var í rauninni komið í. Með því væri væntanlega litlu fórnað í samanburði við það sem gæti unnist.

Um stofnun Íslenska skipafélagsins og kaupsamning milli Hafskips og þess félags hefur margt verið rætt og ritað og því verið haldið fram af sumum að stofnun þessa félags og kaup þess á eigum Hafskips hafi verið ólögleg. Ég fól ríkislögmanni að skrifa lögfræðilega álitsgerð um þetta atriði og þá álitsgerð afhenti ég ráðherrum á ríkisstjórnarfundi litlu síðar. Meginniðurstaðan er sú að stofnun félagsins hafi í sjálfu sér verið lögmæt og kaup Íslenska skipafélagsins á eigum Hafskips sömuleiðis. Hins vegar sé jafn ljóst að kæmi til þess að Hafskip yrði gjaldþrota mætti búast við því að kröfur frá öðrum kröfuhöfum í þrotabú Hafskips um að kaupverðið eða hluti þess skyldi renna inn í þrotabúið en ekki til bankans mundu ná fram að ganga. Samningurinn væri þannig ekki ólöglegur í sjálfu sér, en riftanlegur að hluta kæmi til þess að Hafskip yrði gjaldþrota. Samningurinn hefur síðan verið látinn ganga til baka þannig að riftunarkröfur vegna hans eiga ekki að koma til.

Ég tel rétt og nauðsynlegt að fjalla um það nokkrum orðum hvað gert hefur verið í þrotabúi Hafskips frá því að gjaldþrotaúrskurður var kveðinn upp s.l. föstudag, 6. des. Skipaðir hafa verið þrír bústjórar, þeir Gestur Jónsson, Jóhann Níelsson og Viðar Már Matthíasson, sem allir eru starfandi lögmenn hér í borg. Skiptaráðendur eru Markús Sigurbjörnsson og Ragnar Hall. Störf þessara manna hingað til hafa falist í því m.a. að þeir hafa tekið við kauptilboði frá Eimskipafélaginu í flestar áþreifanlegar eignir Hafskips. Það kaupverð sem Eimskipafélagið hefur boðið í eignirnar er tæpar 9,4 milljónir dollara eða tæpar 400 millj. kr. Í tilboði sínu gerir Eimskipafélagið ráð fyrir að kaupverð greiðist með yfirtöku á hluta af skuldum Hafskips við Útvegsbankann. Kaupverð miðist að hálfu við gengi erlendrar myntar og að hálfu leyti við íslenskar krónur með verðtryggingu. Af erlenda hlutanum greiðist markaðsvextir, en íslenski hlutinn verði vaxtalaus. Lánstími verði að hluta 10 ár, en að hluta 15 ár.

Síðan skiptaráðendur tóku við tilboðinu hafa þeir unnið að því að koma á samningi við Eimskipafélagið á grundvelli þessa tilboðs. Ýmis atriði hafa þó þarfnast nánari skilgreiningar. Væntanlega verður samningur undirritaður mjög fljótlega, en það hefur tafist fram yfir það sem menn gerðu sér vonir um.

Samhliða hafa skiptaráðendur unnið að gerð samnings við Útvegsbankann vegna sölu á eignum Hafskips til Eimskipafélagsins. Sá samningur er ítarlegur, en megininnihald hans felst í því að tryggja hagsmuni annarra kröfuhafa en Útvegsbankans í þrotabúi Hafskips. Þetta felur það í sér nánar tilgreint að sá hluti kaupverðsins sem telst vera fyrir þær eignir sem Útvegsbankinn á ekki veð í skal renna í þrotabúið en ekki beint til Útvegsbankans, en sá hluti sem Útvegsbankinn á veð í rennur eðlilega til bankans.

Þá hefur mikill tími skiptaráðenda og bústjóra farið í að taka ákvarðanir um framhald rekstrarins og alls kyns aðkallandi mál sem ekki hafa þolað bið.

Ég sé ekki tilefni til að greina allt sem skiptaráðendur og bústjórar hafa mátt gera og taka ákvörðun um þessa fáu daga, en ég vil þó nefna eitt atriði sérstaklega. Það er ms. Skaftá sem hefur verið kyrrsett í Belgíu um allnokkurn tíma. Lausn þess máls er afar erfið, en unnið er að því af fullum krafti að finna lausnir sem kröfuhafar og þá ekki síst Útvegsbankinn geti sætt sig við.

Það er svo að samkvæmt gjaldþrotalögum á skiptaráðandi að rannsaka hvort einhver lögbrot tengist gjaldþroti og ástæðum þess. Þetta hlutverk er honum veitt sem dómara. Ef skiptaráðandi telur að eitthvert lögbrot hafi átt sér stað sem tengist gjaldþrotum með einum eða öðrum hætti ber honum skylda til samkvæmt 84. gr. gjaldþrotalaga að tilkynna ríkissaksóknara sem kveður á um nánari rannsókn málsins telji hann ástæðu til þess.

Það er alveg ljóst að skiptaráðandi verður að geta stjórnað því hvernig rannsókn er hagað og í hvaða röð könnunarefni eru tekin fyrir. Ef hins vegar annar aðili á að fara að kanna þá sömu hluti og skiptaráðandi hefur til rannsóknar samkvæmt lögum er augljóst að nefndin er háð sömu gögnum í sinni rannsókn og skiptaráðandi.

Gjaldþrotaúrskurðurinn var kveðinn upp fyrir aðeins örfáum dögum og að sjálfsögðu hefur ekkert svigrúm gefist enn til að kanna hugsanleg brot. En hér hlýtur að verða að virða sem endranær þá grundvallarmannréttindareglu að menn teljist saklausir þar til sekt þeirra er sönnuð. Þessu meginatriði skyldi enginn gleyma í þessari umfjöllun.

En til þess að gera rétt skiptaráðanda sem sterkastan hefur hæstv. dómsmrh. ákveðið að leggja fram frv. um breytingu á gjaldþrotalögum. Það frv. er flutt að fram kominni ábendingu þeirra sem fara með skipti þrotabúa fyrir borgarfógetaembættið í Reykjavík þar sem litið hefur verið svo á að gjaldþrotalög nr. 6/1978 taki ekki nægilegt tillit til aðstæðna við meðferð umfangsmikilla mála á þessu sviði. Er breytingum þessum ætlað að ráða bót á brýnustu atriðum að þessu leyti.

Það er bjargföst skoðun mín að hvert það atriði, sem upp kann að koma og gefur minnsta tilefni til að ætla að um refsivert athæfi sé að ræða, verði að rannsaka nánar. Við stefnum öll að því að taka hart á öllu því sem saknæmt getur talist í viðskiptum og samstarfi á milli banka og fyrirtækis. Rangar upplýsingar verða vafalaust teknar til umfjöllunar og rannsóknar. Hér á ekkert að fela og engu að leyna.

Ég óskaði eftir því við bankastjórn Útvegsbankans að hún gæfi mér stutt yfirlit frá sínum bæjardyrum séð yfir viðskipti Útvegsbankans og Hafskips síðari hluta árs 1984 og fram á þetta ár. Þær upplýsingar eru þessar:

Hafskip hf. hefur starfað í tæp 30 ár og haft bankaviðskipti við Útvegsbankann. Rekstur þess hefur gengið erfiðlega og eiginfjárstaða lengst af verið slæm og lánsfjárþörf mikil. Miklir og vaxandi rekstrarerfiðleikar tóku að gera vart við sig á árinu 1984. Áætlun hafði upphaflega gert ráð fyrir 20-30 millj. kr. hagnaði. Í desember var rekstrartap á því ári um 50-60 millj. kr.

Á hinn bóginn var gert ráð fyrir að svonefndar Atlantshafssiglingar félagsins skiluðu miklum hagnaði. Þessar siglingar hófust á s.l. hausti, m.a. til að koma í stað varnarliðsflutninga sem stöðvuðust að mestu 1984.

Forráðamenn Hafskips fóru þess á leit haustið 1984 að Útvegsbankinn veitti þeim mjög aukna fyrirgreiðslu. Þeirri málaleitun var hafnað. Um þetta leyti munu hafa hafist viðræður milli stjórnenda Hafskips og Eimskips um hugsanlega samvinnu eða kaup hinna síðarnefndu á félaginu. Þeim viðræðum lauk án niðurstöðu.

Í byrjun janúar ákvað stjórn Hafskips hf. að beita sér fyrir verulegri hlutafjáraukningu. Fyrir lá að Útvegsbankinn mundi að öðrum kosti ekki fallast á lánbeiðni félagsins. Hluthafafundur var haldinn 8. febrúar á þessu ári. Áður höfðu þá verið lagðar fram áætlanir um mikinn bata í rekstri félagsins. Að mati stjórnenda fyrirtækisins átti þessi bati að byggjast á hagræðingu í Íslandssiglingum og mjög góðri afkomu vegna Atlantshafssiglinga. Hluthafafundur samþykkti 80 millj. kr. aukningu hlutafjár og næstu mánuði voru lögð fram skuldabréf vegna hlutafjáraukningar sem námu tæplega 80 millj. kr. Skuldabréfin voru veðsett bankanum og þessi skuldabréf eru verðtryggð.

Niðurstaða reikningsuppgjörs barst bankanum fyrir árið 1984 í lok maí s.l. Þá kom í ljós að tap ársins reyndist vera 95,7 millj. eða nærri tvöfalt það sem áætlað hafði verið. Jafnframt var þó staðfest að Atlantshafssiglingarnar hefðu skilað hagnaði á árinu og sá hagnaður héldi áfram fyrstu mánuðina á yfirstandandi ári.

Aðalfundur félagsins var haldinn í byrjun júní og þar voru reikningar og áætlanir félagsins samþykkt.

Fyrsta uppgjör vegna yfirstandandi árs barst bankastjórn Útvegsbankans síðari hluta júlímánaðar. Þá kom í ljós að um 100 millj. kr. tap var á rekstrinum fyrstu fjóra mánuði ársins, m.a. stórfellt tap vegna Atlantshafsflutninganna. Áætlun, sem lögð var fram samtímis, gerði þó enn ráð fyrir 100 millj. kr. hagnaði yfir árið á Atlantshafssiglingum.

Þegar þessar niðurstöður um stórfellt tap samkvæmt reikningum lágu fyrir var ákveðið á sameiginlegum fundi bankastjórnar Útvegsbankans og forráðamanna Hafskips að félagið gerði ráðstafanir til að selja eignir sínar og viðskiptasambönd sem fyrst bæði að því er varðar Íslandssiglingar og Atlantshafssiglingar.

Beinar viðræður bankastjórnar Útvegsbankans við Eimskip um sölu eigna Hafskips hófust 22. október. Þá lá fyrir að taka þyrfti ákvarðanir sem bankinn þyrfti að eiga aðild að.

Uppgjör fyrir janúar-ágúst á þessu ári lá fyrir í síðasta mánuði og þar kemur fram að svipað tap reyndist á síðara fjögurra mánaða tímabilinu og hinu fyrra.

Gjaldþrot Hafskips stafaði af framangreindum taprekstri í hefðbundnum siglingum og Atlantshafssiglingum. Þetta tap í fyrra og í ár nemur a.m.k. 250 millj. kr. Jafnframt hefur verðfall á skipum veikt raunverulega eiginfjárstöðu fyrirtækisins sem slæm var fyrir. Talið er að flutningaskip hafi lækkað í verði á alþjóðlegum markaði um 15-20% árlega síðustu þrjú árin. Enn þá meiri lækkun hefur orðið á skipum sem eru 12-15 ára en í þeim hópi eru skip Hafskips.

Þegar þessi mál komu hér til umræðu fyrir nokkru síðan sagði ég frá því að mat á tryggingum skipa Hafskips hefði lækkað frá 28. júní til 9. október á þessu ári yfir 20%. Skuldbindingar við Útvegsbankann námu 3. júní 638 millj. Tryggingar voru þá 593 millj. En 28. júní voru skuldbindingar 639 millj. en tryggingar voru þá metnar af bankaeftirlitinu 375-471 millj. Hinn 23. ágúst eru skuldbindingar 716 millj. og tryggingarnar komnar niður í 345-421 millj. að mati bankaeftirlitsins. 9. október eru skuldirnar komnar í 748 millj. en tryggingar eru metnar af bankaeftirlitinu 291-366 millj. kr. Þetta sýnir að mat eigna hefur hrunið meira á þessu ári en árin á undan hvað skipin snertir.

Á árinu 1981 lagði ríkissjóður fram 50 millj. kr. til styrktar eiginfjárstöðu Útvegsbankans. Þetta var gert þannig að ríkissjóður veitti sjálfskuldarábyrgð á skuld Útvegsbankans við Seðlabankann. Skuld þessi færðist á sérstakan reikning Útvegsbankans í Seðlabankanum. Eins og segir í lánsfjárlögum fyrir árið 1981 greiðir ríkissjóður vexti og afborganir af skuldinni með föstum árlegum greiðslum að fjárhæð 7,5 millj. kr. í tólf ár, í fyrsta sinn á árinu 1982. Þessar árlegu greiðslur úr ríkissjóði nema nú samtals 51,2 millj. kr. á verðlagi í desember í ár. Skattgreiðslur bankans í ríkissjóð á sama tíma nema á sama verðlagi 167,6 millj. kr. Þær sundurliðast þannig: Skattur af gjaldeyrisviðskiptum, sem bankinn borgar, eru 114,5 millj., landsútsvar 10 millj., skattur á verslunar- og skrifstofuhúsnæði 9,3 millj., skattur á innlánsstofnanir 13,5 millj. og tekju- og eignarskattur 20,3 millj.

Útvegsbankinn hefur greitt frá 1960 skatta í ríkissjóð á verðlagi í desember samkvæmt þessum útreikningi sem hér segir: Skattur af gjaldeyrisviðskiptum 651,8 millj., landsútsvar 20,6, skattur af verslunar- og skrifstofuhúsnæði 14,1, skattur á innlánsstofnanir 13,5, tekjuskattur frá 1982 12,5 og eignarskattur 7,8, eða samtals 720,3 millj. kr.

Útvegsbankinn og Landsbankinn hafa lengst af greitt skatt af gjaldeyrisviðskiptum einir þar sem aðrar stofnanir höfðu ekki heimild til gjaldeyrisviðskipta fram á s.l, ár. Það skal tekið fram að skattur banka af gjaldeyrisviðskiptum hefur ekki lagst á viðskiptamennina. Mismunur á kaupgengi og sölugengi er svipað, jafnvel lægra en víða erlendis og því er hér um beina skattlagningu að ræða á bankana.

Mér finnst rétt að það komi hér fram að útlán Útvegsbankans í heild námu 7838 millj. hinn 31. október s.l. Þar af nam erlent endurlánað lánsfé 3705 millj. kr. eða 47,27% af heildarútlánum. Útlánin skiptust þannig milli atvinnugreina í meginatriðum: Sjávarútvegur 3396 millj. eða 43,3%, iðnaður 628 millj. eða 8%, íbúðarbyggingar 355 millj. eða 4,5%, verslun 827 millj. eða 10,6%, olíufélög 545 millj. eða 9,9%, samgöngur 894 millj. eða 11,4% og annað 1760 millj. eða 12,3%. Þetta sýnir hversu gífurlega hátt hlutfall þessi banki hefur í útlánum til sjávarútvegs.

Útvegsbankinn hefur útibú utan Reykjavíkur á átta stöðum, Vestmannaeyjum, Keflavík, Ísafirði, Siglufirði, Akureyri, Kópavogi og Seltjarnarnesi. Mikilvægust fyrir viðskiptamenn í sjávarútvegi eru þessi útibú: Vestmannaeyjar með 1095 millj., Keflavík 414 millj. þetta er miðað við 30. nóvember s.l. - Ísafjörður 368 millj., Siglufjörður 212 millj., aðalbanki með 1297 millj. og aðrir afgreiðslustaðir eru með 3 millj. Fjöldi viðskiptavina í fiskvinnsluútgerð á þessum stöðum öllum eru hvorki meira né minna en 212. Þar af eru 70 í Vestmannaeyjum, 27 í Keflavík, 28 á Ísafirði, 20 á Siglufirði, 37 í aðalbanka og 30 í öðrum afgreiðslustöðum.

1. nóvember höfðu innlán í Útvegsbankanum aukist síðustu tólf mánuði um 1274 millj. kr. eða um rúm 58%. Til samanburðar jukust innlán í bankakerfinu í heild á þessum sama tíma um tæplega 43%. Þróun innlána hjá Útvegsbankanum var því mjög hagstæð á þessu tólf mánaða tímabili. En frá nóvemberbyrjun hefur þetta breyst í kjölfar umræðu um taphættu bankans vegna erfiðleika Hafskips hf., sem nú hefur leitt til gjaldþrots fyrirtækisins, og beinn samdráttur varð í innlánum Útvegsbankans í nóvember sem nam rúmlega 200 millj. kr. Þannig hefur opinber umræða haft þessi áhrif á trúnað viðskiptamanna við bankann og hans aukna vanda þrátt fyrir yfirlýsingu um að innlán og skuldbindingar bankans væru tryggðar og vísa ég í því sambandi til nýlegrar yfirlýsingar Seðlabanka Íslands.

Víst eru þessi töp mikil og raunaleg í alla staði sem þarf að rannsaka til hlítar. En við skulum líka líta á að það hafa fleiri aðilar orðið að bíta í það súra epli að tapa miklu af sínum eiginfjármunum. Fiskveiðasjóður stendur frammi fyrir því að á fjórum skipum voru áhvílandi í sjóðnum 800 millj. kr. en vátryggingarverð þessara skipa var 568,9 millj. Fiskveiðasjóður hefur boðið þessi skip öll inn á svipaða upphæð og vátryggingarverðið er, eða 570 millj. Það má því ætla að augljóst sé að tap sjóðsins á þessum skipum verði ekki minna en 230 millj. en getur orðið mun meira þegar séð er hvað kostar að gera við og halda þessum skipum við og hvaða boð kemur til með að fást í þau.

Byggðasjóður hefur líka orðið fyrir verulegum áföllum. Af sex skipum hefur Byggðasjóður afskrifað lán upp á 74 millj. 756 þús. kr. Þetta er miðað við 30. september eins og þær skuldir þá stóðu með uppreiknuðum gengisviðauka og/eða verðbótum, vöxtum og dráttarvöxtum.

Nú er það fjarri mér að boða hér árás á stjórn eða framkvæmdastjórn Fiskveiðasjóðs eða Byggðasjóðs. Það er efnahagsástandið, gengisþróunin, sem hefur gert það að verkum að þessir sjóðir hafa tapað svona gífurlegu fjármagni, verðbólga undanfarinna ára og neikvæðir vextir. Við verðum einnig að taka þetta mál inn í dæmið, við verðum líka að líta á þetta sem þjóðfélagslegt vandamál. Einhver kynni að segja núna: En hvers vegna voru ekki þessi skip boðin fyrr upp? Þetta hefur ekki verið að hrynja núna á tveimur, þremur síðustu árum, þetta hefur átt sér lengri aðdraganda vegna efnahagsstefnu og vegna gengisstefnu. Hvað hefði verið hægt að gera? Það eru nokkur ár síðan ég, sem þáverandi stjórnarmaður í Byggðasjóði, lagði til að afskrifa þessar ákveðnu skuldir strax því að þær væru tapaðar fyrir fram. Það var mikið hlegið af slíkri tillögu. En ég held að við höfum greitt henni atkvæði þrír, m.a.s. greiddi sá ágæti maður, sem Alþb. setti þar í stjórnina, því atkvæði. Hann var það raunsær eins og ég. Það hefðu mátt vera fleiri.

Það hefur komið fram áður að bankastjórn Seðlabankans mun gera sérstakan samning við Útvegsbankann um fjárhagslega fyrirgreiðslu sem tryggi greiðslustöðu bankans gagnvart viðskiptaaðilum bæði innanlands og utan. Meðan slíkur samningur er í gildi mun Seðlabankinn fylgjast reglulega með rekstri bankans og fjárráðstöfunum hans.

Hér hefur verið allmikið rætt um bankaeftirlit Seðlabankans af Hafskipsmálinu og bankaeftirlit yfirleitt. Ég óskaði eftir því við bankastjórn Seðlabankans að fá yfirlit yfir starfsemi bankaeftirlitsins og mér þykir rétt að skýra frá því yfirliti hér frá orði til orðs:

„Afskipti Seðlabankans af skuldamálum Hafskips við Útvegsbankann eiga sér alllanga sögu. Hafa þau bæði komið upp sjálfstætt og í sambandi við almennar athuganir á fjárhagsstöðu Útvegsbankans en hún hefur verið erfið langtímum saman undanfarna áratugi. Ekki virðist ástæða til að rekja þessi mál lengra aftur en til ársins 1975 en þá var gerð heildarkönnun á Útvegsbankanum þar sem m.a. kom fram mjög erfið staða Hafskips gagnvart bankanum svo að ekki var talið að tryggingar hrykkju að fullu fyrir útistandandi kröfum bankans.

Skýrsla þessi var rækilega rædd við bankastjórn Útvegsbankans og hún hvött til að leita lausnar í málinu er tryggði hagsmuni bankans. Ekki tókst þó að bæta afkomu eða stöðu Hafskips að neinu marki næstu árin og á árinu 1977 var leitað eftir erlendri lántöku til að bæta fjárhagsstöðu Hafskips og var sú beiðni tilefni til þess að lánadeild Seðlabankans og bankaeftirlitið tóku viðskipti Hafskips við Útvegsbankann enn til rækilegrar athugunar. Leiddi hún til þeirrar niðurstöðu að staða bankans í málinu væri enn veik og nauðsynlegt væri að gera víðtækar ráðstafanir til betri stjórnunar á fyrirtækinu, harðara eftirlits af bankans hálfu og aukinna trygginga til að forða bankanum frá tjóni.

Um þessar mundir var lausafjárstaða Útvegsbankans mjög erfið og setti Seðlabankinn því það að skilyrði fyrir aukinni fyrirgreiðslu til bankans að sérstakur eftirlitsmaður fylgdist með útlánastarfsemi bankans og gæfi bankastjórn Seðlabankans reglulegar skýrslur um það efni. Helst þessi skipan fram til ársins 1979.

Á þessum tíma var mjög að því unnið að auka eftirlit Útvegsbankans með málefnum Hafskips og styrkja stöðu bankans almennt í viðskiptum við fyrirtæki. Veik stjórnun og léleg eiginfjárstaða olli því hins vegar að þessi viðleitni bar ekki þann árangur sem skyldi. Var því af hálfu bankastjórnar Útvegsbankans lögð megináhersla á að gerð yrði rækileg endurskipulagning bæði á fjárhag og stjórn fyrirtækisins. Ekki urðu þó neinar skjótar endurbætur í þessu efni, eins og kom fram í skýrslu bankaeftirlitsins frá því í nóvember 1978 er það taldi stöðu Útvegsbankans í þessum málum enn mjög veika.

Það er ekki fyrr en á árinu 1979 sem gripið er til raunhæfra aðgerða til að bæta rekstrarstöðu Hafskips. Í maí það ár var lokið verulegri hlutafjáraukningu og bættust þá í hóp hluthafa margir sterkir aðilar sem talið var að mundu mjög styrkja rekstur félagsins með viðskiptum sínum. Eftir þessa breytingu urðu veruleg umskipti til hins betra í rekstrarstöðu fyrirtækisins, eins og fram kom í skýrslum sem gerðar voru af Seðlabankanum þá um haustið og samkvæmt uppgjöri Útvegsbankans um áramót.

Í mars 1980 fékk bankaeftirlitið skýrslu frá Útvegsbankanum um skuldastöðu Hafskips og náðu heildarskuldbindingar þess gagnvart Útvegsbankanum þá 2126 millj. gamalla kr. Gerði bankaeftirlitið þá ekki athugasemdir við þær tryggingar sem fyrir þessum skuldum voru.

Auk þessara skuldamála beindist athygli Seðlabankans um þetta leyti mjög að heildarstöðu Útvegsbankans en lausaskuldir hans við Seðlabankann voru þá mjög miklar. Leiddi þetta til þess að haustið 1980 var gengið frá rækilegri skýrslu er nefndist „Fjárhagsvandi Útvegsbankans og tiltækar aðgerðir til lausnar honum“. Niðurstaða þessarar grg. var sú að nauðsynleg væri gagnger skipulagsbreyting að því er varðar Útvegsbankann og reyndar ríkisbankakerfið í heild. Bent var á hugsanlega sameiningu Útvegsbankans við Búnaðarbankann eða Landsbankann en einnig skiptingu viðskipta Útvegsbankans milli hinna tveggja ríkisbankanna. Ekki var af ríkisstjórnarinnar hálfu fallist á þessa tillögu en í stað þess ákveðið að gera ráðstafanir til að bæta stöðu Útvegsbankans með nýju 50 millj. kr. eiginfjárframlagi úr ríkissjóði og flutningi viðskipta frá Útvegsbankanum til hinna viðskiptabankanna fyrir milligöngu Seðlabankans. Komu þessar aðgerðir til framkvæmda í árslok 1980 og á árinu 1981.

Alls höfðu þessar aðgerðir í för með sér nálægt 120 millj. kr. bata á lausafjárstöðu Útvegsbankans og verulega lækkun á hlutfalli sjávarútvegslána af heildarútlánum bankans. Árangur þessara aðgerða kom fram í mun betri stöðu Útvegsbankans allt árið 1981 og fram á næsta ár. Seinni hluta ársins 1982 og á árinu 1983 fór staða Útvegsbankans hins vegar ört versnandi og voru orsakirnar þá fyrst og fremst versnandi afkoma sjávarútvegsins.

Á þessu tímabili og allt fram til ársins 1984 komu hins vegar vandamál Hafskips lítið inn í myndina í þeim viðræðum sem þá fóru reglulega fram milli bankastjórnar Seðlabankans og Útvegsbankans um lausafjárstöðu hins síðarnefnda.

Það er ekki fyrr en haustið 1984 sem nýir greiðsluerfiðleikar Hafskips koma til umræðu vegna áhrifa þeirra á stöðu Útvegsbankans. Kom þá fram af hálfu bankastjórnar Útvegsbankans sú skoðun að nauðsynlegt væri að grípa til öflugra ráðstafana til þess að leysa þennan vanda og var Seðlabankanum kunnugt um tilraunir til þess að koma á samningum milli Hafskips og Eimskipafélags Íslands. Ekkert varð hins vegar úr þeim ráðagerðum að sinni og á fundi með Seðlabankanum í febrúar s.l. skýrði bankastjórn Útvegsbankans frá því að ákveðin hefði verið hlutafjáraukning og aukin umsvif í starfsemi Hafskips sem vonir stæðu til að bæta mundu rekstraraðstöðu fyrirtækisins á árinu 1985. Síðari hluta júnímánaðar voru þessi mál enn rædd við bankastjórn Útvegsbankans og fékk Seðlabankinn þá í hendur yfirlit um skulda- og tryggingastöðu Hafskips við Útvegsbankann sem benti til þess að vantryggðar skuldir næmu 21 millj. en heildarskuldbindingar Hafskips alls 638 millj. Þar sem augljóst var að hér var um mjög áhættusama stöðu að ræða óskaði bankastjórnin eftir því að bankaeftirlitið gerði könnun á skuldamálum Hafskips.

Fyrsta athugun bankaeftirlitsins, sem miðaði við stöðuna 28. júní, var tilbúin seint í júlí, og var hún send viðskrn. 30. júlí. Skv. henni virtist tryggingastaða Útvegsbankans mun veikari en skýrslan frá 3. júní gaf til kynna, og var ástæðan fyrst og fremst lægra mat á veðsettum eignum. Skv. þessu yfirliti var talið að vantrygging skuldbindinga Hafskips gæti verið á bilinu 168-264 millj. kr.

Upplýsingar þessar voru einnig afhentar Útvegsbankanum og ræddar við hann, en hann hafði þá í sama mánuði fengið nýjar mjög óhagstæðar tölur um rekstrarafkomu Hafskips á fyrstu fjórum mánuðum þessa árs. Einnig var haft samband við viðskrh. sem ræddi málið við Útvegsbankann, og var lögð áhersla á nauðsyn skjótra aðgerða til þess að ráða bót á þeirri áhættu sem bankinn var kominn í. Jafnframt hélt bankaeftirlitið áfram að kanna betur verðgildi þeirra veða sem Útvegsbankinn hafði í eigum Hafskips, en kunnugt var að verð á skipum hafði verið ört fallandi. Þetta leiddi til þess að gert var nýtt yfirlit um skulda- og tryggingastöðu Hafskips sem miðað var við 23. ágúst, en því var lokið snemma í september og sent viðskrh. með bréfi dags. 9. september. Skv. þessu yfirliti hefur bæði orðið hækkun á skuldbindingum Hafskips við Útvegsbankann og veruleg lækkun á verðmæti trygginga miðað við könnunina 28. júní. Var nú talið að vantryggðar skuldir gætu numið 352-428 millj. kr.

Niðurstöður þessar voru einnig afhentar bankastjórn Útvegsbankans, en málið hafði nokkrum sinnum verið rætt milli hennar og Seðlabankans undanfarnar vikur og hafði þar m.a. komið fram að hafnar væru viðræður milli Hafskips og Eimskipafélagsins um yfirtöku á Íslandssiglingum Hafskips. Hinn 13. september var síðan haldinn sameiginlegur fundur bankastjórna Útvegsbankans og Seðlabankans með viðskrh. þar sem staða Hafskipsmálsins var ítarlega rædd og lögð áhersla á nauðsyn þess að niðurstöður úr viðræðum Hafskips og Eimskips lægju sem fyrst fyrir. Var talið eðlilegt að bankastjórn Útvegsbankans reyndi að fylgjast sem best með þessum viðræðum og greiða fyrir þeim eftir mætti.

Um miðjan október lauk bankaeftirlitið við rækilega heildarskýrslu um skuldastöðu helstu viðskiptamanna Útvegsbankans og kom þar fram að tryggingastaða Útvegsbankans varðandi Hafskip hafði haldið áfram að versna. Var þessi skýrsla afhent viðskrh. 22. október en daginn eftir bankastjórn og bankaráðsformanni Útvegsbankans. Augljóst var að staða Útvegsbankans var þegar hér var komið sögu orðin mjög hættuleg í máli þessu og mikil áhersla á það lögð af öllum aðilum að reynt yrði að leita lausnar á vandanum sem fyrst þar sem augljóst var að staðan mundi halda áfram að versna, bæði vegna rýrnandi veða og hallareksturs Hafskips. Útvegsbankinn tók nú upp beinar viðræður við Eimskipafélagið sem þó leiddu ekki til niðurstöðu að því sinni. Í stað þess voru um tíma kannaðar aðrar leiðir svo sem stofnun nýs skipafélags með skipadeild Sambandsins eða rekstur nýs skipafélags, Íslenska skipafélagsins, sem tekið hafði við miklum hluta af eignum Hafskips.

Ástæðulaust er að rekja þessa sögu nánar þar sem mikill hluti hennar hefur þegar komið fram í fjölmiðlum, en eina færa leiðin reyndist að lokum sala verulegs hluta af eigum Hafskips til Eimskipafélagsins jafnframt því sem Hafskip hf. gaf sig upp til gjaldþrotaskipta.

Undanfarna mánuði, á meðan unnið hefur verið að lausn þessa máls, hafa bæði ráðuneytið og Seðlabankinn fylgst náið með framvindu þess, en forræði þess og framkvæmd hlaut að vera í höndum bankastjórnar og bankaráðs Útvegsbankans. Því miður reyndist meiri erfiðleikum bundið en menn höfðu vonað að ná samningum er tryggðu hagsmuni Útvegsbankans. Er enginn vafi á því að sá dráttur hefur verið dýr þar sem á meðan hafa bæði hlaðist upp skuldir vegna taprekstrar og veð bankans haldið áfram að rýrna í verði. Þannig hafa versnandi ytri aðstæður átt verulegan þátt í því mikla tjóni sem Útvegsbankinn hefur nú orðið fyrir.“ Þetta segir um afskipti bankaeftirlitsins og Seðlabankans af Hafskipsmálinu.

Hv. málshefjandi í þessum umræðum gerði mikið að því að kenna Sjálfstfl. um allt þetta mál, hann bæri eiginlega ábyrgð á því hvernig allt væri komið. Hann sagði að það hefði bara einn þm. Sjálfstfl. gefið sig fram að hafa ekki þegið neitt frá Hafskip og það var virðulegur varaþm. Guðmundur H. Garðarsson. Ég minnist þess ekki að ég hafi nokkurn tíma þegið molasopa hjá Hafskip, svoleiðis að það ætti ekki að vera svo illa komið fyrir flottheit við mig. En allt sem sagt var um fín og flott ferðalög er auðvitað fyllsta ástæða til þess að kanna. Við vitum að ferðalög eru dýr, en þau þurfa ekki endilega að vera að sama skapi óhófleg. Menn verða að gæta hófs í því þegar þeir eru að ferðast, hvort sem það er fyrir hið opinbera eða einkafyrirtæki.

Ég minni á það í fullri vinsemd að við stöndum frammi fyrir afar miklum vanda í fjármálum þessarar þjóðar. Á sínum tíma gekk mikið á út af Flugleiðum þegar þær lentu í sínu stóra, mikla áfalli, og þá var haft æði hátt bæði hér í sölum Alþingis og annars staðar. Þeir menn sem þá stóðu í eldlínu fyrir Flugleiðir þurftu að ganga í gegnum það að vera mjög ásakaðir á ýmsum sviðum.

Flugleiðir náðu sér upp úr þessu öldudal og hafa getað haldið uppi samgöngum bæði á milli Íslands og Bandaríkjanna og Íslands og Evrópu. Þeir hafa fjölgað sínum flugleiðum verulega og aftur standa Flugleiðir frammi fyrir vaxandi harðri samkeppni við dugmikið amerískt flugfélag svo að okkur Íslendingum veitir ekki af, hvaða skoðun sem við höfum á málum, að standa saman í þessum efnum og reyna að styðja við bakið á þeim fyrirtækjum sem eru að berjast fyrir sig og fyrir þjóðina í heild, því að ef þessi fyrirtæki fara á hausinn, sem kallað er, mun verða haldið uppi samgöngum að einhverju leyti af erlendum aðilum þegar þeir telja sér það henta. Við skulum því líka vara okkur á að fljúga ekki of hátt og fara ekki of geyst.

Þessi mál eru erfið og við þurfum að láta fyrst og fremst skynsemi og yfirvegun ráða ferðinni. Við skulum minnast aðeins á mál þar sem gekk mikið á, hið svokallaða Geirfinnsmál. Það var nú meiri darraðardansinn sem átti sér stað bæði hér innan þings og utan. Það væri að sumu leyti lærdómsríkt að ríkisfjölmiðill eins og sjónvarpið sýndi nú að nýju hvernig þá var umhorfs. Hvað vannst við öll þessi læti? Ekki neitt. Jú, það vannst það að saklausir menn urðu fyrir barðinu á þessum látum öllum. Ég vona að við höfum lært af því sem þar gerðist.

Hv. málshefjandi hefur gert töluvert að því að minnast á aðild hæstv. iðnrh. bæði að Útvegsbanka og Hafskipi. Hann hafi verið stjórnarformaður bæði bankaráðs og Hafskips. Þegar hæstv. núv. iðnrh. var gerður að formanni bankaráðs Útvegsbankans var hann stjórnarformaður í Hafskip. Það var auðvitað þáv. ríkisstj. sem gerði hann að formanni bankaráðs Útvegsbankans og Alþb. átti sæti í þeirri stjórn með þrjá vaska ráðherra, Framsfl. með fjóra ráðherra og hluti af Sjálfstfl. með þrjá ráðherra. Þeir skiptu, þessir flokkar, bankaráðsformennskunni á milli sín þannig að Framsfl. fékk formennsku í Seðlabankanum og formennsku í Búnaðarbanka. Alþb. fékk formennsku í Landsbanka og þessi hluti sjálfstæðismanna, sem átti sæti í ríkisstj., óskaði eftir því, og núv. hæstv. iðnrh. hefur sagt mér það margoft að hann hafi verið þrábeðinn um að taka að sér þessa formennsku, ekki af þessum mönnum einum heldur af ríkisstj. allri og m.a. hv. málshefjanda. Ef eitthvað var athugavert við að gera sama manninn að formanni bankaráðs og var formaður stjórnar fyrirtækis sem var í viðskiptum við bankann hefði þessi athugasemd átt að koma þá strax fram. Ef menn hefðu talið að þetta væri ósamrýmanlegt hefði aldrei átt að biðja Albert Guðmundsson að taka að sér formennsku í bankaráði. Svo vil ég í fullri vinsemd við málshefjanda segja honum það, sem hann kom ekki inn á, að það á enginn einn stjórnmálaflokkur meiri hluta í bankaráði og það á heldur enginn einn stjórnmálaflokkur meiri hluta í bankastjórn. Ég veit að málshefjandinn veit þetta mætavel. Sjálfstfl. á og hefur aldrei átt nema í mesta lagi einn af hverjum þremur, eða sjálfstæðismaður hefur verið einn af hverjum þremur bankastjórum í þessum ríkisbönkum. Það hefur verið samið með bankaráðin. Þar hefur Sjálfstfl. átt tvo af fimm. Alþb., Framsfl. og Alþfl. eiga fulltrúa í bankaráðum. (GHelg: Það verður nú ekki lengi af hálfu Alþb.) Ja, það veit ég ekkert um. Ég ætla að segja minni góðu vinkonu að það er nú svo stundum að hæpið er að beita menn mikilli hörku. Þá bregst fólk illa við því. Ég man eftir því að það var formaður í þingflokki Alþb. sem hringdi einu sinni á lögregluna og bað að finna einn þm. og koma með hann hérna inn í húsið. Og þm. brást bara hin versta við, blessunin, sem eðlilegt er. Hann var mikill stjórnandi, formaður þingflokks Alþb., en það má stundum fara of geyst, meira að segja af honum. (GHelg: Það vantaði fleiri atkvæði.)

Mér finnst líka í tilefni af þessum umræðum vera rétt að geta þess sem, raunar málshefjandi gat um, en það er sú slæma staða sem Arnarflug er nú í. Ég fékk í gærkvöldi bréf sem samgrh. frá framkvæmdastjóra Arnarflugs þar sem talið er að svo sé komið að reksturinn geti stöðvast innan örfárra daga. Í þessu bréfi segir framkvæmdastjórinn að sé litið á efnahagsreikning þá sé eigið fé neikvætt en á móti komi duldir varasjóðir sem ekki koma fram fyrr en við sölu eigna eða nýtingu kaupréttar þannig að eigið fé má telja réttu megin þegar upp er staðið. Veltufjárhlutfall var þann 30. september betra en um langan tíma. Hins vegar var stór hluti eigna útistandandi. Þó var talið um miðjan október s.l. að félagið kæmist í gegnum þennan vetur án teljandi erfiðleika að því gefnu að venjuleg fyrirgreiðsla fengist hjá banka félagsins yfir erfiðasta hluta rekstrarársins. Framkvæmdastjórinn segir síðan í þessu bréfi:

„Misnotkun ríkisfjölmiðils ásamt skipulegum söguburði hér heima og erlendis um stöðu Arnarflugs miðað við sex mánaða uppgjör hafa hins vegar gjörbreytt þessari mynd. Flestir lánardrottnar erlendis, seljendur vöru og þjónustu, hafa á örskömmum tíma algjörlega snúið við blaðinu og sett þá kosti sem félaginu er ógerlegt að mæta þvert ofan á áður gerða greiðslusamninga. Stjórnarformaður, fjármálastjóri og lögfræðingur hófu í morgun fundi með þeim stærstu þar sem málin eru útskýrð og reynt að endurvinna tiltrú þeirra á félaginu. Ómögulegt er að segja um árangur, en verði hann ekki einhver er ljóst að til rekstrarstöðvunar kemur“, o.s.frv.

Tryggingar á flugvélum og eigum félagsins renna út 15. desember og það vildi svo til að aðstoðarforstjóri umrædds tryggingafélags var hér til viðræðna við Flugleiðir hf. og Arnarflug. Þegar hann sá og lét þýða fyrir sig það sem kom í sjónvarpinu þetta kvöld hafði það þau áhrif að neitað var að framlengja tryggingar fram yfir þennan tíma nema með bankaábyrgð og gífurlegum greiðslum. Það er oft sagt að það sé alveg bráðnauðsynlegt að flytja fréttir af öllu, en stundum getur líka verið nauðsynlegt að segja ekki allt of mikið, það sé betra að reyna að komast af í erfiðum viðskiptum við menn með samningum en ekki að skipa því í fréttahasarstíl eins og því miður hefur hafið innreið sína hér í íslenska fréttamennsku.

Þetta mál hlýtur að valda okkur öllum gífurlegum áhyggjum. Það er mikið áfall ef þetta félag stöðvast, bæði fyrir þær leiðir sem það flýgur á milli landa og sömuleiðis fyrir staði innanlands sem félagið hefur haldið uppi þjónustu til. Og það er heldur ekkert hollt fyrir Flugleiðir að verða eiginlega eitt og drottnandi í flugrekstri því að ég held að samkeppni eins og þessi sé af því góða.

Ég vil taka fram að ég tel nauðsynlegt að setja ákvæði um hámarkslán til fyrirtækja og einstaklinga þar sem miðað er við ákveðið hlutfall af eigin fjármagni lánastofnunar og veltu. Þessir atburðir hafa sýnt okkur að það er nauðsynlegt að ganga þar til verks og það fljótlega.

Mig langar að koma inn á að nefnd sú sem fyrirrennari minn skipaði með bréfi dags. 24. ágúst 1984, um það að bæta skipulag og rekstur viðskiptabanka með fækkun þeirra og sameiningu ásamt færslu viðskipta og útibúa á milli banka, hefur nú skilað áliti, gerði það í gærmorgun. Þar kemur fram að sameining Útvegsbankans og annarra banka getur orðið að dómi nefndarinnar með tvennum hætti og bendir allt til að val þar á milli muni ráða úrslitum um framtíðarskipan bankakerfisins.

Ég tek fram í upphafi að ég er aðeins að skýra frá þessu nefndaráliti en ekki að segja á þessari stundu hver sé mín efnislega niðurstaða því að ég tel að Alþingi eigi rétt á því að fá að vita um þetta nefndarálit, en í þessari nefnd áttu sæti Gylfi Þ. Gíslason fyrrum ráðherra, Björn Líndal deildarstjóri í viðskrn. og Sigurgeir Jónsson aðstoðarbankastjóri í Seðlabankanum. Þar segir:

„Varðandi ríkisbankana kemur tvennt til greina: Annar möguleikinn er sá að sameina Búnaðarbankann og Útvegsbankann en gera ráð fyrir því að Landsbankinn starfi áfram með óbreyttum hætti. Þó væri í þessu tilviki rétt að nýi ríkisbankinn tæki við rekstri eins eða tveggja útibúa Landsbankans á Austfjörðum. Í stað þess tæki Landsbankinn við rekstri eins útibús annars hvors bankans í Reykjaneskjördæmi.

Hagræðing sú sem í þessari ráðstöfun fælist kæmi fyrst og fremst fram í því að unnt væri að sameina afgreiðslustaði bankanna, aðalbankann í Austurstræti, Reykjavík, Austurbæjarútibú Búnaðarbankans og Laugavegsútibú Útvegsbankans, svo og útibú á Akureyri og í Kópavogi. Afgreiðslustaðir hins nýja banka yrðu þá 42 en Landsbankans 39. Lausleg athugun virðist benda til þess að hægt yrði að fækka starfsfólki verulega. Jafnframt væri unnt að sameina stoðdeildir og jafna dreifingu útlána.

Ekki er unnt að leggja tölulegt mat á eiginfjárstöðu slíks nýs ríkisbanka vegna óvissu um stöðu Útvegsbankans, en þó má telja líklegt að hann fullnægi kröfum hinna nýju bankalaga um hlutfall eigin fjár af niðurstöðutölu efnahagsreikninga. Sé miðað við lánaflokkun í lok ágúst 1985 hefðu útlán hans til sjávarútvegs verið 26,6% heildarútlána og til verslunar 18,1, til landbúnaðar 11,2 og til iðnaðar 9,8. Til samanburðar má geta þess að útlán Landsbankans til sjávarútvegs voru þá 34,8% heildarútlánanna, til verslunar 17,8%, til iðnaðar 13,3 og til landbúnaðar 8,2% heildarútlána. Til þess að bæta lausafjárstöðu sína gæti bankinn eftir sameininguna selt hluta af eignum sínum, þ.e. þær eignir sem nú eru notaðar af afgreiðslustöðum sem lagðir yrðu niður.

Hinn möguleikinn varðandi ríkisbankana er sá að Útvegsbankinn tæki þátt í myndun nýs hlutafélagsbanka ásamt einkabönkum, sparisjóðum og fleiri aðilum eins og nánar er svo síðar vikið að, en jafnframt verði efnt til aukins samstarfs Landsbanka og Búnaðarbanka. Með þessum hætti ætti að vera hægt að koma við hagræðingu.

Mikil útþensla hefur átt sér stað í sérfræði- og stoðdeildum bankanna að undanförnu og horfur eru á að hún þurfi að halda áfram að öllu óbreyttu. Óhagkvæmt er að halda uppi tveimur fullkomnum kerfum á þessu sviði og mætti sameina þau í einu fullkomnu kerfi í húsnæði bankanna við Hafnarstræti í Reykjavík. Þá er þess að geta að Landsbankinn og Búnaðarbankinn hafa almennar afgreiðslur í Austurstræti, Reykjavík. Afgreiðsla Landsbankans gæti annast allar afgreiðslur beggja bankanna í miðborginni. Húsnæði Búnaðarbankans við Austurstræti mætti þá t.d. nota til afgreiðslu á gjaldeyrisviðskiptum beggja bankanna. Þannig ber að vekja athygli á þeim möguleikum sem samstarf Landsbankans og Búnaðarbankans veitir varðandi fækkun útibúa og umboðsskrifstofa væri útibúanetum þeirra steypt saman í eitt.“

Og síðan er fjallað nokkuð um þessi útibú sem of langt mál er að telja upp.

Hinn þáttur þessarar hugmyndar er að komið verði á fót nýjum öflugum hlutafélagabanka með sameiningu Iðnaðarbankans, Verslunarbankans og Útvegsbankans og aðild sparisjóða að slíkum nýjum einkabanka sem og aðild annarra smærri banka, stórra fyrirtækja og einstaklinga. Þannig mætti koma við hagræðingu miðað við það ástand sem nú ríkir. Og síðan er einnig fjallað um útibú slíks banka.

Ég hef ákveðið að láta ljósrita þessar tillögur og senda alþm. þær til umfjöllunar því að hér eru hugmyndir sem er nauðsynlegt að allir þm. og allir flokkar geti fjallað um því að hér er um mikið hagsmunamál að ræða. Að vísu hefur sameining banka verið á dagskrá öll árin sem ég hef setið á þingi en ekki orðið meira úr. En við sjáum að hér verða að verða breytingar á, en á þessari stundu ætla ég ekki að fullyrða um hverjar sé skynsamlegast að gera.

En ég sný mér að síðustu lítillega að Útvegsbankanum aftur. Ég tel að útilokað sé að leggja Útvegsbankann niður nema koma öllum viðskiptaaðilum hans í viðskipti við aðrar lánastofnanir. Eins og ég gat um fyrr í ræðu minni eru yfir 43% í sjávarútvegi og ef ég man rétt voru um 220 fyrirtæki og einstaklingar bara í sjávarútvegi í viðskiptum við Útvegsbankann. Það er ekki hægt að bjóða þessu fólki frekar en öðrum viðskiptavinum bankans upp á það að vera annars eða þriðja flokks viðskiptamenn annarra lánastofnana. Það verður að finna lausn á því hvernig eigi að koma þessum viðskiptum fyrir. Það eru engin vandræði að koma innlánsfénu fyrir því að allir bankar eru reiðubúnir að taka við því. Og það eru ýmsir aðrir annmarkar sem þarf að leiða til lykta áður en hægt er að setjast niður og ganga frá mikilsverðri ákvörðunartöku í sambandi við sameiningu eða samvinnu banka í landinu.

Ég held að við deilum ekki um það hvar sem við erum í flokki að margar okkar bankaeiningar eru of litlar. Við þurfum á breytingu að halda og ég held að þetta nefndarálit sé gott innlegg í þær umræður sem vonandi fara fram sem allra fyrst.