10.12.1985
Sameinað þing: 28. fundur, 108. löggjafarþing.
Sjá dálk 1256 í B-deild Alþingistíðinda. (992)

Viðskipti Hafskips og Útvegsbankans

Forsrh. (Steingrímur Hermannsson):

Herra forseti. Hæstv. viðskrh. hefur reyndar svarað, hygg ég, þeim spurningum sem hv. fyrirspyrjandi lagði fram og get ég því mjög stytt mál mitt. Ég tek fram strax í upphafi að ég mun ekki taka þátt í því að varpa sök á einn eða annan í þessu stóra og alvarlega máli. Ég fylgi þeirri reglu að enginn er sekur fyrr en sektin er sönnuð, og ég tek heils hugar undir það sem hæstv. viðskrh. sagði um fyrri mál þar sem þessari reglu hefur ekki verið fylgt og saklausir menn sekir fundnir og jafnvel þótt þeir væru sýknaðir síðar hafa ekki beðið þess bætur.

Ég stend fyrst og fremst upp til að svara þeirri spurningu hjá hv. fyrirspyrjanda sem hann orðaði einhvern veginn svo: Mun Sjálfstfl. beygja Framsfl. undir vilja sinn í þessu máli?

Ég lít svo á að krafa almennings, ekki bara þm. heldur alls almennings, um að fá allt upplýst í þessu máli sé réttmæt. Hér er um mál að ræða sem varðar alla íbúa þessa lands. Ég taldi þess vegna rétt að leggja til á fundi ríkisstj. fimmtudaginn 5. þ.m. að ríkisstj. gæfi þá yfirlýsingu, svo skýra að ekki yrði um villst, að ríkisstj. mun beita sér fyrir því að öllum þeim spurningum sem varpað er fram í þessu máli verði svarað, að ríkisstj. beiti sér fyrir því að bankaleynd varðandi viðskipti Hafskips og Útvegsbankans verði aflétt og ríkisstj. beiti sér fyrir því að þetta verði gert með því að skipa af sinni hálfu á einn máta eða annan, sem ekki var ákveðinn þá, þrjá menn til þess að fylgjast með meðferð þessa máls og halda því áfram ef ekki væri óskum um upplýsingar að fullu mætt. Undir þetta var tekið í ríkisstj. og þessu var samsinnt. Þetta var samþykkt s.l. fimmtudag og í samræmi við þessa samþykkt hefur viðskrh. á ríkisstjórnarfundi í morgun lagt fram tillögu um hvernig þetta verði framkvæmt.

Ég vísa því því algerlega á bug að með nokkru móti sé verið að beygja Framsfl. undir vilja eins eða annars í þessu máli. Framsfl., og ég fyrir hans hönd alveg sérstaklega, hefur látið það koma skýrt fram að það verður allt gert til að upplýsa alla þætti þessa máls. Ég vil einnig láta það koma fram að ég hef ekki orðið var við neina andstöðu í ríkisstj. við slíka málsmeðferð. Þvert á móti hefur ríkt þar fullkomin samstaða eins og kemur fram í samþykkt ríkisstj. í morgun.

Þetta mál hefur nú snúist þannig, sem reyndar mátti ætíð gera ráð fyrir, að skiptaráðandi hefur fengið málið til meðferðar og þess vegna allt bú Hafskips og reyndar skv. lögum allt málið í heild sinni. Ég hef átt ítarlegar viðræður við skiptaráðanda og ég hef kynnt mér þetta mál eins og ég hef frekast getað með viðtölum við lögfróða menn og með því að skoða lög. Það er enginn vafi á því að skv. lögum ber skiptaráðanda að kanna allar þær hliðar málsins sem nokkur áhrif geta haft á uppgjör þrotabúsins. Það kemur greinilega fram í lögum um gjaldþrotaskipti, og skiptaráðandi hefur fullvissað mig um að allri rannsókn þessa máls muni verða mjög hraðað. Eftir samstarfsmanni skiptaráðanda voru höfð ummæli í blöðum sem mátti túlka þannig að þetta tæki mjög langan tíma. Skiptaráðandi hefur upplýst mig um það að þetta sé á misskilningi byggt. Allt sem með einhverju móti getur tengst saknæmu athæfi í þessu máli mun verða rannsakað og rannsókninni hraðað.

Ég vil einnig vekja athygli á því að meðferð skiptaráðanda á þessu máli er mjög viðkvæm, og skiptaráðandi þarf að geta haft frið til þess að skoða alla þætti án þess að um slíkt sé fjallað daglega í fjölmiðlum. Ég er þess vegna mótfallinn því, sem kom fram hjá hv. fyrirspyrjanda, að málið ætti að rannsaka eins og hann orðaði það fyrir opnum tjöldum. Ég hygg að það gæti orðið stórkostlegt slys. Mín skoðun er sú að slíkur háttur gæti stórlega spillt fyrir þeirri rannsókn sem skiptaráðanda ber að láta fara fram á allri meðferð málsins. Og ég vísa aftur til þess sem ég sagði áðan, og tók þá undir með viðskrh., um meðferð á slíku máli sem þessu. Ég tel þess vegna ekki rétt að Alþingi kjósi á þessu stigi rannsóknarnefnd til að fjalla um þetta mál fyrir opnum tjöldum eins og skilja mátti á hv. fyrirspyrjanda. Það er allt annað mál hvort Alþingi sér ástæðu til þess þegar skiptaráðandi hefur lokið sínum störfum að hefja á ný rannsókn á einhverjum þáttum þessa máls.

Ég vil hins vegar í því sambandi taka það skýrt fram sem kemur fram í þeirri samþykkt sem ríkisstj. gerði í morgun að hún ætlast til þess að þeir þrír menn sem Hæstiréttur velur til þess að fylgjast með meðferð málsins haldi áfram athugun á þeim þáttum sem ætla má að skiptaráðandi hafi ekki athugað til hlítar. Það er vitanlega eðlilegt eftir það sem ég sagði áðan að þm. spyrji: Hvaða þættir kunna það að vera? Það kunna að vera þættir sem skiptaráðandi ályktar að ekki séu saknæmir og því honum ekki viðkomandi eða mundu ekki hafa áhrif á stöðu þrotabúsins. Það kunna hins vegar að vera einhverjir þættir sem við alþm. eða almenningur telur nauðsynlegt að upplýsa og þessum þremur mönnum er ætlað að kanna slík atriði.

Ég sagði áðan að ég ætlaði ekki að taka þátt í að sakfella einn eða neinn og hef aldrei tamið mér þau vinnubrögð án sönnunar. Ég taldi mér hins vegar skylt að kanna eins og ég gæti þær alvarlegu sakir sem á einn ráðherra í ríkisstj. minni voru bornar. Ég kvaddi þess vegna á fund minn þrjá fyrrv. bankastjóra sem allir störfuðu með Albert Guðmundssyni á meðan hann var formaður bankaráðs Útvegsbankans. Þessir menn eru Jónas Rafnar, Bjarni Guðbjörnsson og Ármann Jakobsson. Þeir sögðu allir og kváðu mig geta haft það eftir sér að þeir minnist þess aldrei að Albert Guðmundsson hafi gert minnstu tilraun til að hafa áhrif á ákvarðanir þeirra um afgreiðslu mála Hafskips. Og það kannske sakar ekki að taka það fram að Ármann Jakobsson sagði sérstaklega að það mætti minnast þess að hann hefði engin kynni haft af Albert Guðmundssyni áður en hann kom í bankann né væri hann honum fylgjandi í stjórnmálum ef það skiptir einhverju máli. Ég hef því ekki ástæðu til að ætla að þær sakir sem hafa verið bornar á Albert Guðmundsson séu sannar þótt vitanlega verði þær skoðaðar vandlega, m.a. að hans eigin ósk, og að sjálfsögðu af þeim þremur mönnum sem til þess verða tilnefndir að fylgja eftir málinu og ég hef áður rakið.

Jafnframt hefur hæstv. viðskrh. rakið allítarlega þær tillögur sem komnar eru fram frá nefnd sem skipuð var til þess að fjalla um endurskipulagningu bankakerfisins. Ég hef verið þeirrar skoðunar allt frá því að ég kynnti mér skýrslu svonefndrar bankamálanefndar sem kom út 1973 að ákaflega brýnt væri að sameina ríkisbanka og stuðla að sameiningu einkabanka. Ég hef verið þeirrar skoðunar að bankakerfi okkar sé allt of veikt til þess að takast á við þau mörgu verkefni sem þess hafa ætíð beðið og fara vaxandi. Það mál sem hér hefur verið rætt og önnur mál sem hafa verið nefnd hafa sannarlega staðfest þetta. Þegar þessi ríkisstj. var mynduð ákváðu því stjórnarflokkarnir að taka á þessu verkefni og um það er ákveðinn kafli í stjórnarsáttmála. Á því hefur verið tekið. Bankarnir hafa allir verið færðir undir einn ráðherra. Alþingi hefur samþykkt stjfrv. um viðskiptabanka og um sparisjóði og frekari útþensla bankanna með byggingu útibúa hefur verið stöðvuð. Jafnframt hefur nefnd starfað og nú skilað áliti sem vitanlega verður að taka afstöðu til og ég fagna þeirri ákvörðun viðskrh. að senda skýrslu þessa öllum hv. alþm.

Ég hef reyndar oft lýst þeirri skoðun minni að vel kæmi til greina að setja ríkisbankana alla undir eina stjórn og stuðla þannig að enn þá meiri hagræðingu. Mér er ljóst að ýmsir telja að með því yrðu ríkisbankarnir of öflug eining í íslensku þjóðfélagi, en vitanlega má vinna gegn því með því að flytja verkefni yfir til einkabankanna. En aðalatriðið er að hagræðing í íslensku bankakerfi getur alls ekki beðið. Á því máli verður að taka á næstu vikum.

Ég sé, herra forseti, ekki ástæðu til að fjalla um þetta meira núna. Eins og ég sagði áðan hefur hæstv. viðskrh. svarað mjög ítarlega spurningum hv. fyrirspyrjanda. Ég vil þó að lokum biðja menn að halda ró sinni í þessu máli, og ég vona að við gerum enga þá hluti sem eftir á væri unnt að segja að hafi valdið vandræðum í rannsókn þess eða jafnvel sakfellt menn sem saklausir síðan finnast. Og ég vona að menn skoði þetta niður í kjölinn og láti ekki æsing ráða sínum málflutningi í þessu máli fremur en öðrum.