10.12.1985
Sameinað þing: 28. fundur, 108. löggjafarþing.
Sjá dálk 1258 í B-deild Alþingistíðinda. (993)

Viðskipti Hafskips og Útvegsbankans

Jón Baldvin Hannibalsson:

Herra forseti. Vegna ummæla hæstv. forsrh. áðan vil ég byrja á því að beina til hans spurningu. Tók ég virkilega rétt eftir að hæstv. forsrh. hefði sagt að í fréttatilkynningu ríkisstj. væri kveðið á um að allri bankaleynd skuli aflétt? (Forsrh.: Eftir fréttatilkynningunni . . . ) - Ég endurtek spurninguna: Hefur ríkisstjórn Íslands, hæstv. forsrh., lýst vilja sínum til þess að allri bankaleynd verði aflétt? Það er þýðingarmikið að þetta fari ekki á milli mála. (Forsrh.: Ef ég má svara úr sæti mínu: Ég lýsti þeirri skoðun minni að bankaleynd í þessu máli . . . )-. . . að því er varðar Útvegsbankann og viðskipti hans og Hafskips? Það er m.ö.o. vilji ríkisstj. að bankaleynd verði aflétt í því máli vegna rannsóknarinnar? (Forsrh.: Að sjálfsögðu.) Þá fer það ekki á milli mála.

Önnur athugasemd varðar það þegar hæstv. viðskrh. fór nokkrum orðum um fréttaflutning af þessu máli og hversu háskalegur hann gæti verið. Hann nefndi til einnig dæmið um Arnarflug þar sem frétt í sjónvarpi, sem var nú reyndar með sérstökum endemum og um hefur verið rætt, á að hafa valdið því að umrætt flugfélag náði ekki sömu kjörum og það áður hafði notið varðandi tryggingar. Auðvitað er þetta alltaf matsatriði. En ég kemst ekki hjá því að biðja menn að hugleiða a.m.k. tvær hliðar þessa máls.

Við erum hér að ræða stærsta gjaldþrotamál lýðveldisins. Það er kunnugt að fyrstu afskipti fjölmiðla af þessu máli hófust snemma í júnímánuði á þessu sumri fyrir frumkvæði Helgarpóstsins og það blað hefur síðan birt margar ítarlegar greinar um þetta mál. Þá er spurningin þessi: Hversu hættulegt er að birta fréttir ef þær reynast rangar? Upplognar sakargiftir, fréttaflutningur sem ekki er á rökum reistur, eru auðvitað hættulegar út frá því sjónarmiði, sem allir taka undir, að enginn er sekur fyrr en sekt hans er sönnuð. Enginn er sekur fyrir fram.

En hæstv. viðskrh.: Er ekki stórvarasamt að taka ekki mark á fréttaflutningi og láta líða vikur og mánuði án þess að þeir aðilar sem eru að lögum skyldir til eftirlits í þessum málum ekki bara taki ekki mark á fréttunum, láti þær fram hjá sér fara, bregðist ekki við, heldur það sem verra er, stingi höfðinu í sandinn og bíti höfuðið af skömminni með því að standa upp eða gefa opinberar yfirlýsingar, sem núna liggur fyrir að voru alrangar, yfirlýsingar bankastjórnar um stöðu mála, rangar, yfirlýsingar hæstv. fyrrv. viðskrh. í þessu máli hér á hinu háa Alþingi, rangar. M.ö.o., við tökum undir það að auðvitað ber að varast ýkjukenndan og rangan fréttaflutning. En það þýðir ekki að varpa sök á fjölmiðla í opnu lýðræðisþjóðfélagi ef fréttir eru fluttar af mjög þýðingarmiklum málum sem varða almannahagsmuni og viðbrögð stjórnvalda eru þau að lýsa þessar fréttir rangar en síðan kemur á daginn sinám saman að sá sem hafði rétt fyrir sér var fjölmiðillinn en ekki yfirvöldin, stjórnvöldin.

Herra forseti. Við höfum rætt bráðum í þrjá tíma þetta stærsta gjaldþrotamál lýðveldissögunnar og það hefur verið rætt ítarlega, flestallir þættir málsins verið nefndir til sögu, og af þeim ástæðum er kannske ekki ástæða til á þessu stigi málsins að hafa þetta mál svo langt. Ég vek að vísu athygli á því að við erum ekki að ljúka þessari umræðu. Þessi umræða er enn á byrjunarstigi vegna þess að því fer fjarri að öll kurl séu komin til grafar. Þau verða ekki öll leidd fram í dagsljósið úr þessum ræðustóli. Það skiptir hins vegar miklu máli hvernig menn bregðast við, hvaða afstöðu menn taka til þess, ekki aðeins með viljayfirlýsingum um að þetta mál verði upplýst heldur hvaða afstöðu menn taka til þeirra tillagna sem liggja fyrir um með hvaða hætti og hvernig það skuli gert.

Afleiðingar þessa máls eru auðvitað ískyggilegar. Alvarlegust er kannske sú að traust almennings í þessu þjóðfélagi á bankakerfið, á fjármálastofnanir, hefur beðið alvarlegan hnekki. Hjá því gat ekki farið. Og það á ekki bara við um þennan eina banka sem við ræðum, Útvegsbankann, heldur jafnvel fleiri.

Í annan stað getur það mál sem er til umræðu haft í för með sér hinar alvarlegustu afleiðingar fyrir lánstraust Íslendinga á erlendum vettvangi, eins og þegar hefur verið nefnt. Það hefur líka alvarlegar afleiðingar.

Í þriðja lagi er að nefna það tjón sem skattgreiðendur hafa orðið fyrir. Ég held að ekki sé ástæða til að slá því föstu að sú tala, 350-400 millj., sé endilega rétt. Ég held að veigamikil rök megi færa fyrir því að það tjón verði meira þegar upp er staðið.

Í fjórða lagi verða að teljast mjög alvarlegar þær afleiðingar í þessu máli sem varða atvinnu og atvinnuöryggi fjölda fólks og hafa kannske minna en verðugt væri verið dregnar fram í dagsljósið í þessum umræðum og þá vafalaust fyrst og fremst vegna þess að menn eru ekki reiðubúnir að lýsa tillögum sínum á þessu stigi um hvað sé þar til úrbóta, en að því kem ég svolítið síðar.

Það mætti kannske nefna til í fimmta lagi spurninguna um tjón hluthafa. Hv. málshefjandi, 7. þm. Reykv., fór mjög á kostum í ræðu sinni þegar hann lýsti því sem haft hefur verið eftir - í blaði sem hingað til hefur reynst fara rétt með staðreyndir í þessu máli - fyrrverandi starfsmönnum Hafskips um viðskiptahætti í því fyrirtæki. Ég ætla ekki að endurtaka það. Ég vil aðeins vekja athygli á því að í þessari frásögn þar sem er vitnað í fyrrverandi starfsmenn Hafskips hf. að því er varðar þetta hlutafjárútboð - fyrir utan allar hinar sögurnar um skúffufyrirtæki og lúxuslifnað eða ólifnað - er haft eftir starfsmanni að ef hlutafjárútboðið hefði farið fram í New York-borg geti þeir, með leyfi forseta, „fullyrt að forráðamenn Hafskips sem forráðamenn amerísks fyrirtækis myndu hafa verið dæmdir fyrir það sem heitir á ensku „stock fraud“,- ranga framsetningu á stöðu fyrirtækisins - og þannig að selja hlutabréf á fölskum forsendum.“

Fyrir utan þær upplýsingar sem fram koma í viðtölum - þetta eru ekki orð höfð eftir blaðinu, þetta er haft eftir einum af fyrrv. starfsmönnum Hafskips - um það t.d. að hið fræga endurskoðunarfyrirtæki Coopers & Lybrand hafi komist að þeirri niðurstöðu að bókhald Hafskips væri með þeim hætti að þeir vildu ekki koma nálægt endurskoðun á því, þá er haft eftir starfsmönnum jafnframt að þetta hlutafjárútboð hafi verið með þessum hætti. Ég nefni þetta vegna þess að ég er að spyrja um tjón hluthafanna. Það verður kannske misjafnlega mikið. Það fer eftir því hvað rannsóknin leiðir í ljós um það hvort verulegir fjármunir hafi verið teknir út úr þessu fyrirtæki og þeim komið fyrir á óhultum stað á ónefndum reit á því matadorsspili sem hv. málshefjandi lýsti hér áðan. En eitt er ljóst að starfsmenn fyrirtækisins, sem ekki höfðu upplýsingar í höndum um stöðu fyrirtækisins, sannanlega ekki, en lögðu þó fram af launum sínum verulegt fé, gætu kannske haft í huga það sem þarna sagði um það hvernig á slíku hefði verið tekið ef það hefði verið í New York-borg.

Herra forseti. Afleiðingar þessa máls eru þess vegna geigvænlegar og snerta hagsmuni og afkomu mikils fjölda fólks. En það er einn þáttur þessa máls sérstaklega sem hingað til hefur ekki komið nægilega vel fram í umræðunum og hann varðar samninga Eimskipafélagsins hf. við Útvegsbankann eða skiptaráðanda um yfirtöku eigna Hafskips hf. og hvað af því hlýst.

Hvað á ég við? Ég á við það að einn mjög þýðingarmikill þáttur þessa máls varðar siglingar til og frá landinu, varðar auðvitað hvaða ástand við tekur. Er hætta á því að hér skapist einokunarástand? Er hætta á því að þeir fjármunir sem Eimskipafélagið kann að greiða fyrir eignir Hafskips, vegna einokunaraðstöðu í siglingum til og frá landinu, komi fram með öðrum hætti - þá verði það ekki aðeins svo að Eimskipafélagið kaupi þær eignir á gjafverði eins og sumir halda fram heldur einnig að tilkostnaður þess muni á tiltölulega mjög skömmum tíma velta út í fragtina, út í verðlag - sem skattheimta á almenning. Þá mundi dýr Hafliði allur um það er lýkur. Það væri ekki aðeins að almenningur hér á landi, eigendur Útvegsbankans hf., yrði að taka á sig verulegt tjón. Það yrði kannske líka til þess að það kæmi aukaskattur í formi hærri farmgjalda og hærra verðlags.

Vel má vera að þetta séu getgátur einar, en þetta er samt sem áður það þýðingarmikið mál, og það hefur ekki verið dregið inn í umræðurnar hingað til, að mig langar til þess að beina af því tilefni sérstökum spurningum til hæstv. viðskrh. sérstaklega.

Ég vil byrja á því með leyfi forseta, að vekja athygli á forsíðufrétt í Dagblaðinu í dag. Þar er haft eftir Stefáni Árnasyni forstjóra í Svíþjóð í fyrirsögn: „Vil gera tilboð í eigur Hafskips.“ Í þessu viðtali segir, með leyfi forseta:

„Mér virðist svona í fljótu bragði að það sé verið að færa Eimskip þetta á silfurfati. Og mér sýnist að það sé verið að selja skipin á brotajárnsverði.“ Því næst er í þessu viðtali gerð nánari grein fyrir því að maðurinn, Íslendingur búsettur í Svíþjóð, lýsir áhuga sínum á því að verða gefinn kostur á því að gera tilboð í þetta. Hvaða máli skiptir þetta? Jú, það skiptir því máli að ef það er svo að tilboð Eimskipafélagsins teljist vera óeðlilega lágt er hin hliðin á því máli að skaði eigenda Útvegsbankans verður sem því svarar meiri. Þeim mun betra tilboð sem berst í eigur Hafskips, hvort heldur það gerist á vegum skiptaráðanda eða ekki, þeim mun minni verður skaði almennings í landinu.

Ákveðnar upplýsingar hafa verið settar fram um í hverju tilboð Eimskipafélagsins er fólgið. Tilboðið er metið á um 390 millj. kr., en eins og segir í blaðafrásögn af því: Raunverð mun vera mun lægra vegna greiðslukjara. 55% verðsins eiga að greiðast í erlendri mynt en eftirstöðvarnar í íslenskum krónum, hvort sem hér er um að ræða að það greiðist í erlendri mynt að hluta vegna þess að um sé að ræða yfirtöku á erlendum skuldbindingum Hafskips eða ekki. Síðan er það athyglisverða, sem hér segir reyndar í Dagblaðinu, með leyfi forseta, þann 7. des.:

„Hinn hluti kaupverðsins (um 45%), eða um 174,6 millj. króna, á að greiðast í íslenskum krónum. Af þessu láni á heldur ekkert að greiðast fyrr en í febrúar 1989“ - það á reyndar við um báða hlutana - „og á það að greiðast með jafnháum ársafborgunum til ársins 2001. Þessi hluti lánsins verður vaxtalaus en verðtryggður miðað við lánskjaravísitölu.“ - Þessi hluti lánsins verður vaxtalaus en miðaður við lánskjaravísitölu. Ég spyr af þessu tilefni: Eru þetta eðlileg kjör? Mundu ekki aðrir aðilar í þjóðfélaginu gjarnan vilja þiggja það að njóta slíkra kjara? Í þessari frásögn segir enn fremur, með leyfi forseta:

„Talið er víst að eitthvað eigi eftir að dragast frá kaupverðinu til Útvegsbankans eða bú Hafskips hf. þurfi að greiða Eimskip einhvern hluta kaupverðsins til baka því að miðað er við að eignirnar afhendist Eimskip kvaða- og veðbandalausar að öðru leyti en því sem nemur greiðslu kaupverðsins til Útvegsbankans. Þetta leiðir m.a. af sér að bankinn eða búið þurfi að létta sjóveðskröfum“ - sem hafa forgangsrétt - „af hinum seldu skipum, sem munu vera einhverjar, og enn fremur veðskuldum af fasteignum sem eru við aðra aðila en Útvegsbankann. Einnig getur komið til lækkunar kaupverðsins vegna ástands skipa og annarra eigna.“

Málshefjandi vék reyndar að þessu áðan, en þetta þýðir á mæltu máli að tilboðsverðið er í raun og veru rangt. Greiðslukjörin eru slík vegna vaxtaleysis og vegna þeirra annarra þátta sem kann að þurfa að greiða til baka að vel má vera að sú fullyrðing sem ég vitnaði í áðan, hins íslenska manns í Svíþjóð, sé rétt, að hér sé verið að bjóða eignir Hafskips fyrir slikk. En þeim mun lægra sem það verð er, þeim mun meiri verður væntanlega skaði eigenda Útvegsbankans, þeim mun hærra það tjón. Hv. málshefjandi færði að því rök að það gæti numið reyndar allt að einum milljarði kr.

Þetta er ekki lítið mál og ég segi: Á þetta hefur kannske ekki verið lögð nægileg áhersla í umræðunum hingað til. Af því tilefni vil ég sérstaklega vekja athygli á því að í till. sem liggur fyrir hinu háa Alþingi, till. til þál. um kosningu rannsóknarnefndar skv. 39. gr. stjórnarskrárinnar af hálfu Alþfl.-manna, er lögð sérstök áhersla á það, sbr. það sem segir í 4. atriði, með leyfi forseta:

Það er spurt „hvort yfirtaka Eimskipafélags Íslands hf. á eignum Hafskips og Íslenska skipafélagsins sé ótvírætt hagkvæmasti kosturinn til að tryggja a. hagsmuni Útvegsbanka Íslands og ríkissjóðs, b. samkeppni í flutningum til og frá landinu, c. atvinnuöryggi þeirra sem starfa við flutninga skipafélaga.“ Þetta er þáttur í málinu sem er ekki einasta mikilsverður heldur þolir enga bið, að menn svari hvað menn vilji gera í því máli. Af hverju segi ég að það þoli enga bið? Það er vegna þess að því hefur verið lýst yfir að annaðhvort í dag eða á morgun verði þessum samningum lokið, samningum um yfirtöku Eimskips á þessum eignum og á hvaða kjörum það er, og um leið þá teknar ákvarðanir sem munu skipta sköpum um vonir fyrrv. starfsmanna Hafskips um það að geta fengið atvinnu í þeirri atvinnugrein þar sem þeir búa yfir reynslu og þekkingu. Þá á ég sérstaklega við einn hlut: Ef í þessum kaupum Eimskips á eigum Hafskips felst það að Eimskipafélagið eignist eða fái umráðarétt yfir þeirri aðstöðu sem Hafskip t.d. nýtur eða hefur notið í Reykjavíkurhöfn og komi þannig í veg fyrir að nýir aðilar með reynslu í rekstri skipafélaga vildu, t.d. á þeim tímum þegar verðfall skipa er ein meginstaðreynd á markaðinum, stofna til skipafélags til samkeppni við Eimskip, njótandi þeirra kjara að geta komist yfir skip á tiltölulega góðum kjörum. Ef það yrði hins vegar útilokað vegna þess að Eimskip væri búið að leggja undir sig alla aðstöðu á vegum Reykjavíkurhafnar væri það mjög slæmt mál og getur varðað miklu fyrir í fyrsta lagi atvinnuhorfur fólks og í öðru lagi líkurnar á því að haldið verði uppi samkeppni í skipaflutningum til og frá landinu, en samkeppni er eina leiðin til þess að halda niðri vöruverði - það er líka hagsmunamál almennings - og til þess að koma í veg fyrir það að aukinn kostnaður Eimskips við yfirtöku þessara eigna velti vegna skorts á samkeppni út í vöruverð. Þetta er sá þáttur málsins sem mér finnst að hafi ekki verið nægilega dreginn fram í dagsljósið í þessari umræðu. Þess vegna leyfi ég mér hér með að beina til hæstv. viðskrh.:

Hver er afstaða hæstv. ráðherra og ríkisstjórnar til þessa þáttar málsins? Er hæstv. viðskrh. reiðubúinn til þess að beita sér með einhverjum hætti fyrir því að endanlegum samningum Eimskips um yfirtöku á aðstöðu og eignum Hafskips verði frestað?

Í öðru lagi: Er hæstv. viðskrh. reiðubúinn að beita sér fyrir því að aðrir aðilar, sem nú hafa lýst áhuga sínum á því að fá að bjóða á samkeppnisgrundvelli í þessar eignir, fái að gera það þannig að úr því fáist skorið hvort hér er um að ræða sölu á gjafvirði, sölu fyrir slikk eða hvort hér er raunverulega um að ræða aðstöðu sem byggist á einokun eða hvort hægt er að tryggja hagsmuni eigenda og Útvegsbankans með öðrum hætti betur ef öðrum aðilum gefst ráðrúm til þess að bjóða í þessar eignir? Þetta er sá þáttur málsins sem ekki þolir bið. Þess vegna er mjög brýnt í þessum umræðum að hæstv. viðskrh. og ríkisstj. kveði upp úr um það hvort hún telji sig hafa aðstöðu til að beita sér í þessu máli. Það varðar mjög hagsmuni skattgreiðenda, eigenda Útvegsbankans, hagsmuni almennings í landinu gagnvart vöruverði og atvinnuhagsmuni þess fólks sem hjá Hafskipum hefur starfað.

Herra forseti. Það er auðvitað hægt að halda þessari ræðu lengi áfram og gera margar athugasemdir við það sem hefur fram komið í umræðunum hingað til, en ég ætla að reyna að geyma mér það frekar til þeirrar útvarpsumræðu sem þegar hefur verið ákveðin um þær þáltill. sem hér liggja fyrir um rannsókn málsins. Það eru þó nokkur atriði sem vert er að svara nú þegar.

Það er í fyrsta lagi spurningin: Með hvaða hætti vilja hv. Alþingi og hæstv. ríkisstj. standa að fullnaðarrannsókn þessa máls? Við höfum heyrt viðbrögð hæstv. ráðherra. Þeir segja: Rannsókn skiptaráðanda á þrotabúi Hafskips er út af fyrir sig svo viðamikil að hún ein er því sem næst fullnægjandi, þó ekki alveg.

Hæstv. iðnrh. hefur ritað saksóknara ríkisins sérstakt bréf og beðið um að hann rannsaki fram komnar ákærur um sinn hlut í því máli. Af því sem fram hefur komið hér á hinu háa Alþingi eru þær athugasemdir fyrst og fremst um eitt. Þær eru um hagsmunaárekstur, um hugsanlegan, ósannaðan hagsmunaárekstur þar sem hann gegndi hvoru tveggja starfinu að vera formaður bankaráðs Útvegsbankans og stjórnarformaður Hafskips. Hér á Alþingi hefur ekki svo ég viti til komið fram nein ásökun um lagabrot eða refsivert athæfi að lögum, heldur um þennan hagsmunaárekstur. Hann er ekki brot á lögum. Hann er spurning um pólitískt siðgæði. Vel má vera að í umfjöllum fjölmiðla hafi einhverjar alvarlegri ásakanir komið fram um refsivert athæfi eða brot á lögum og þá eru viðbrögð iðnrh. að sjálfsögðu mjög skiljanleg.

Í þriðja lagi hefur hæstv. ríkisstj. ákveðið að setja á laggirnar þriggja manna nefnd sérfróðra manna sem á að vinna í samráði við skiptaráðanda og bankaeftirlit. Hennar hlutverk á að vera að rannsaka óeðlilega viðskiptahætti, væntanlega þá þætti málsins sem ekki heyra undir rannsókn skiptaráðanda.

Jafnframt hefur hæstv. ríkisstj. í fjórða lagi falið bankaeftirlitinu að skyggnast um bak við byrgðar dyr bankakerfisins að öðru leyti, þrátt fyrir ákvæði bankaleyndar, þ.e. hvort ástæða sé til að ætla að svipað ástand sé að skapast í öðrum bönkum að því er varðar skuldastöðu stórfyrirtækja og jafnvel ákvæði þeirra bankalaga sem koma í gildi eftir áramót, hvort ástæða sé til að ætla að fleiri bankar en Útvegsbankinn standist ekki þau ströngu ákvæði t.d. um eigin fé eða hlutfall eigin fjár af heildarútlánum eða þak á heildarútlán til stærstu skuldunauta.

Spurningin er: Er þetta fullnægjandi? Getur Alþingi Íslendinga sætt sig við að hér með hafi verið kveðinn upp Salómonsdómur, þau orð hæstv. forsrh. sem hann lét hér falla áðan um að þar með hafi ríkisstj. gert hreint fyrir sínum dyrum og það sé alveg afdráttarlaust að þetta mál verði nú rannsakað ofan í kjölinn og með þeim hætti sem nú er lýst? Mitt svar við því er að því miður séu þessar aðgerðir ekki fullnægjandi. Ég er t.d. alveg sannfærður um að þau orð sem hæstv. forsrh. lét falla um hlutverk skiptaráðanda í slíkum rannsóknum standast ekki dóm reynslunnar. Við vitum ósköp vel hvert það hlutverk er. Hans hlutverk er að rannsaka tæknilega gjaldþrotamál og þrotabú Hafskips, rannsaka kröfur annarra í það þrotabú og útistandandi kröfur þess þrotabús á hendur öðrum. Hann hefur líka annað hlutverk. Ef þessi rannsókn leiðir í ljós misferli sem er sakhæft að lögum er honum í lófa lagið að vísa slíkum málum áfram sína réttu boðleið til rannsóknarlögreglu eða sakadóms. Við skulum t.d. vænta þess að þær fullyrðingar sem fram komu í viðtali Helgarpóstsins seinast við tvo af fyrrverandi starfsmönnum Hafskips um hvers kyns misferli, bókhaldsbrot, ósannar upplýsingar og annað fjármálamisferli komi í ljós í slíkri könnun þó við getum engan veginn verið neitt fullviss um það fyrir fram. En komi þær í ljós og séu þær skjallega staðfestar í bókhaldi og öðrum gögnum fyrirtækisins væri það í verkahring skiptaráðanda að láta slík mál fara rétta boðleið. Ég er hins vegar ekki viss um hvort það kæmi í hlut skiptaráðanda að ganga úr skugga um að upplýsingar þessara fyrrv. starfsmanna um blekkingar af ásettu ráði að því er varðar hlutafjárútboð yrðu rannsakaðar frekar. Ég er ekki viss um það.

En það er annað. Enda þótt skiptaráðandi sé að rannsaka þrotabú Hafskips út frá tæknilegu og lagalegu sjónarmiði skulum við staldra við það að samkvæmt reynslu hlýtur það að taka mjög mikinn tíma. Á það hefur verið minnst að mál, frægt í dómsögunni, svokallað Jörgensensmál, sem ég reyndar veit ekki hvort er lokið enn þá eða ekki, tók a.m.k. hálfan annan áratug. Lögfróðir menn tjá mér að í hverju einstöku tilviki er upp komi ágreiningur um rannsókn, við skulum segja að skiptaráðandi vísi einhverju máli til rannsóknarlögreglu eða sakadóms og aðrir menn sem þarna eru bornir sökum taki til varna, verði af þessu slík keðjuverkandi málaferli að það sé alveg bókfest og gefið að slík rannsókn muni taka ár eftir ár eftir ár, einfaldlega vegna þess að við erum hér að tala um mjög flókið bókhaldsdæmi og það er alkunna og þekkt að íslenska dómskerfið hefur ekki í sinni þjónustu reynda og þjálfaða endurskoðendur til að ráða við slíkt verk. Það er auðvitað ein meginskýring sjálfs kerfisins á því hversu lengi slík mál hafa dregist.

Við skulum engu slá föstu um að þessi rannsókn taki stuttan tíma. En það er annað. Á hvaða forsendum ætti skiptaráðandi að rannsaka aðra þætti þessa máls sem fyrst og fremst varðar þá annaðhvort Alþingi, löggjafarvaldið sem fulltrúa almannahagsmuna, eigenda bankans og skattgreiðenda, eða framkvæmdavaldið? Ég fæ ekki séð að skiptaráðandi geti t.d. beitt sér í rannsókn á því sem við köllum hagsmunaárekstur. Ég fæ ekki séð það. Og ef markmið rannsóknarinnar á að vera fyrst og fremst eitt, að við lærum af þessum mistökum og reynum að komast að einhverri niðurstöðu um hvað gera þurfi, breytingar á stjórnsýslu, breytingar á lögum, til að koma í veg fyrir að þetta endurtaki sig í öðrum ríkisbönkum, í öðrum stofnunum, er það ekki verkefni skiptaráðanda. Þá er það auðvitað fyrst og fremst verkefni Alþingis af þeirri einföldu ástæðu að það getur ekki verið hlutverk framkvæmdavaldsins að rannsaka sjálft sig.

Framkvæmdavaldið getur ekki svarað því og því er ekki treystandi til þess að rannsaka sjálft sig þegar spurningar eru komnar upp eins og þessar: Hvenær brást Seðlabanki Íslands og bankaeftirlit hans fyrst við í þessu máli? Hvers vegna brást það ekki fyrr við? Hvers vegna ekki t.d. þegar fyrir lágu upplýsingar allt frá árinu 1981 um kreppuástand í alþjóðlegum siglingum og hrikalegt verðfall skipa á erlendum mörkuðum? Hvers vegna í ósköpunum, miðað við þær almennu hagtæknilegu upplýsingar sem fyrir liggja á borðum slíkra aðila, brugðust þau ekki við fyrr? Hvernig í ósköpunum stóð á því að bankastjórar Útvegsbankans, þrátt fyrir að þeir hafi að sjálfsögðu verið með á nótunum, eins og það er orðað á bankamáli, um slíkar upplýsingar, brugðust ekki við fyrr? Er t.d. rétt að það sé regla í þessum bransa, þ.e. í bankaheiminum, gagnvart skipum að það sé undir engum kringumstæðum fallist á veðhæfni skipa hærri en 60% af matsverði? Hér erum við hins vegar að tala um að veðhæfni hafi rýrnað langt undir bókfært verð þó að því sé hins vegar haldið fram að bókfært verð hafi verið ofmetið alla tíð af hálfu skipafélagsins.

Ein spurning enn: Halda menn að skiptaráðandi rannsaki það fyrir hönd Alþingis eða ríkisstjórnar hver hlutur bankaráðsins sem slíks var í þessu máli, með hvaða hætti það gegndi eftirlitsskyldu sinni, hvenær það skarst fyrst í leikinn, hvenær það krafði bankastjórnina fyrst um að leggja á sitt borð upplýsingar um þetta ástand? Auðvitað ekki. Því hefur nú verið yfir lýst af hálfu Seðlabankans, sem hefur yfirtekið raunverulega stjórn Útvegsbankans þó það sé kannske ekki að öllu leyti með formlegum hætti, að staða Útvegsbankans nú sé slík að hann mundi ekki standast ströngustu ákvæði nýrra laga um viðskiptabanka, hvorki að því er varðar eigin fé né veðhæfi útistandandi lána og marga aðra þætti.

Ef spurningin er sú: Hversu hár er Hafskipsskatturinn á skattgreiðendur í landinu? Þá er það ekki hlutverk skiptaráðanda að rannsaka það mál. Og ég segi: Ef krafa er gerð um það, og það þykir eðlileg krafa án þess að vera með fyrir fram ákæru eða fyrir fram ákveðna niðurstöðu um sekt manna, ef það þætti eðlilegt sjónarmið hér, eins og það mundi vafalaust vera í hvaða landi öðru sem væri vestan járntjalds, að hagsmunaárekstursvandinn væri tekinn svo alvarlega að ekki aðeins hæstv. iðnrh. teldi sér rétt og skylt að víkja meðan á slíkri rannsókn stæði, þá á það bara við fleiri aðila en hæstv. iðnrh. Ég lít svo á að sama máli ætti að gegna um þingkjörinn formann bankaráðs Útvegsbankans. Ég lít svo á að sama máli ætti að gegna um formann bankastjórnar Seðlabankans, af þeirri einni ástæðu að hann var áður, m.a. á þessu umrædda tímabili, einn af þremur bankastjórum Útvegsbankans og getur ekki samkvæmt venjulegum prinsippum rannsakað sjálfan sig. Ég held að þessi rök nægi til að sýna að viðbrögð hæstv. ríkisstj. eru ekki nægilega afdráttarlaus. Ég held að prinsippið sé ósköp einfaldlega þetta: Framkvæmdavaldið getur ekki rannsakað sjálft sig þannig að trúverðugt sé: Sá þáttur málsins sem þarf að rannsaka betur, ef menn vilja komast að einhverjum sameiginlegum niðurstöðum um hvað þurfi að gera í breytingarátt til að koma í veg fyrir að mistökin verði endurtekin, verður hvorki rannsakaður af skiptaráðanda né framkvæmdavaldinu heldur að því er mér sýnist samkvæmt fordæmum einungis af þingkjörinni nefnd.

Herra forseti. Það er mitt sjónarmið að það sé ekkert í ætt við að slá neinu föstu fyrir fram um sekt manna þótt því sjónarmiði sé fylgt hér á hinu háa Alþingi að vegna hagsmunaáreksturssjónarmiða sé það eðlileg ósk að menn, sem eru á báðum vígstöðvum beinir aðilar að þessu máli, víki meðan rannsókn fer fram. Ég tel hana í fyrsta lagi ákaflega eðlilega. En ef hæstv. ríkisstj. og stjórnarflokkar ætla að synja um að þessi þingnefnd rannsaki þennan þátt málsins, sem ég var að lýsa, og ef þeir ætla að fara sína leið hvað sem tautar og raular og halda rannsókninni í höndum framkvæmdavaldsins, þá tel ég að þeim mun frekar sé hægt að renna stoðum undir þá sjálfsögðu kröfu að handhafar framkvæmdavaldsins, sem liggja undir grun um hagsmunaárekstur, víki a.m.k. á meðan framkvæmdavaldið er að rannsaka sjálft sig.

Ég fyrir mína parta tek einnig undir það, sem fram kom í máli málshefjanda, að meðan þáttur hæstv. fyrrv. viðskrh. í þessu máli er órannsakaður, þ. e. spurningum um gerðir hans eða aðgerðarleysi á þessu tímabili, sem skiptir sköpum í viðskiptum Hafskips og Útvegsbankans, sé óeðlilegt að hann tæki við embætti utanríkisráðherra í núverandi ríkisstjórn eins og honum hefur verið úthlutað af sínum flokki samkvæmt frægri stólahringekju.

Ég nefndi, herra forseti, í fyrri umræðu um þetta mál tilvísunina til Alþýðubankamálsins sem gerðist árið 1975 og vakti þá athygli á því að það var munur þá hversu skjót viðbrögð Seðlabankans og bankaeftirlits voru í því máli. Málið var að því leyti hliðstætt að grunsemdir og blaðaskrif voru uppi um að þessi litla bankastofnun hefði lánað meira en veðhæfi eigna stæði undir. Því var einnig haldið fram að umrædd veð hefðu rýrnað. Þetta veikti auðvitað traust á þessari bankastofnun. Viðbrögð Seðlabankans voru þau að kalla bankastjórn og bankaráð fyrir sig og taka skyndiákvörðun um að setja bankastjórana af. Seðlabankinn hreinlega tók yfir rekstur bankans sem leiddi til þess um leið að skipt var um bankaráð. Þetta þóttu eðlileg viðbrögð þá og þau voru skjót. Og kannske eru þau til fyrirmyndar að því leyti að ef menn eru að kvarta undan slæmum áhrifum af fjölmiðlaumfjöllun geta menn ekki kvartað undan því ef fréttaflutningurinn reynist vera réttur. Þá verða menn hins vegar að líta í eigin barm og þá ber að kvarta undan því að viðbrögðin eru allt of sein. Of sein viðbrögð eru þá orsakavaldurinn fyrir því að þá sígur æ meir á ógæfuhlið.

Herra forseti. Megintilgangur þeirra okkar sem flutt höfum tillögu um rannsóknarnefnd á vegum Alþingis er fyrst og fremst einn. Hann er að komist verði til botns í þessu máli út frá þeim forsendum að Alþingi Íslendinga geti komist að niðurstöðu um hvað þurfi að gera í breytingum á stjórnkerfi, í breytingu á starfsháttum, í breytingu á lögum til þess að koma í veg fyrir að þetta endurtaki sig. Það er spurt t.d. í ljósi þessarar reynslu: Er það niðurstaða Alþingis að núgildandi ákvæði bankalaga um bankaleynd skuli vera óbreytt? Þarf ekki að vera ákvæði um að hægt sé að aflétta bankaleynd, jafnvel með hraði og án þess að þurfi dómsúrskurð til?

Önnur spurning: Er það sjálfsagður hlutur að skattgreiðendur á Íslandi í nafni ríkissjóðs haldi áfram að veita ríkisábyrgð fyrir öllum ríkisviðskiptabönkum? Ég er ekki viss um að sú niðurstaða sé rétt. Kæmi ekki alveg eins til álita að skylda þessa banka til að hafa sinn eigin tryggingasjóð, sem ákvæði eru reyndar um í nýjum lögum, og þyrfti þá ekki að ganga úr skugga um að hann yrði öflugri? En væri ekki ástæða til að aflétta ríkisábyrgð á þessum bönkum? Við erum að tala um traust og traust er lykilorð í allri umræðu um banka. Það traust hefur beðið mikinn hnekki. Á ekki almenningur í landinu kröfu á því að endurskoðað verði hvort það sé rétt að hvenær sem eftirlitskerfi ríkisins gagnvart ríkisbönkum bregst jafnhrikalega og gerst hefur í þessu máli sé það sjálfkrafa hlutskipti almennings á Íslandi að greiða skaðann?

Auðvitað verðum við um leið að komast að einhverri niðurstöðu út frá tillögum bankamálanefndar um sameiningu banka. Mér leist ekki á þær tillögur sem ég heyrði ávæning af áðan. Ég hef reyndar aldrei fyrr, hæstv. viðskrh., heyrt talað um stoðdeildir í banka. Ég hef heyrt um það í sjúkrahúsum. Er þá kannske í nýjum tillögum eitthvað talað um gjörgæsludeildir? Það er spurning.

Að lokum er auðvitað spurningin um meginniðurstöðuna. Er yfirleitt rétt að halda núverandi ríkisviðskiptabankakerfi gangandi? Væri ekki nær lagi að endurskoða þetta mál frá rótum? Er ekki niðurstaðan raunverulega sú að þetta kerfi hafi gengið sér til húðar: Er ekki reynsla okkar af því, getu til að stunda áreiðanleg viðskipti og ávaxta fé almennings þannig að með traustum hætti sé, sú að við ættum að komast að þeirri niðurstöðu að leggja þetta kerfi af? Eigum við ekki að hætta rekstri ríkisbanka en einbeita hins vegar kröftum stjórnvalda að því að ná heildarstjórn á peningamálum og efnahagsmálum eftir almennum reglum, lagasetningu og almennum hagstjórnaraðferðum?

Herra forseti. Ég skal ekki hafa þessi orð lengri að sinni. Ég vík aftur að þeim þætti málsins sem ég lagði á megináherslu. Hann varðar þá samninga sem vonandi eru ekki þegar gerðir milli Eimskips og Útvegsbanka eða skiptaráðanda fyrir hönd Hafskips og varðar þá þýðingarmiklu þætti sem ég nefndi áðan. Og ég ítreka þær spurningar sem ég bar upp þá: Treystir hæstv. viðskrh. sér til þess sem gæslumaður almannahagsmuna að beita sér fyrir frestun á þeim samningum til þess að öðrum gefist kostur á að bjóða í þessar eignir; sem yrði til þess að minnka þann skaða sem skattgreiðendur verða fyrir af Útvegsbankamálinu, gæti verið mjög þýðingarmikill þáttur í því að stuðla að möguleikum okkar til áframhaldandi samkeppni á skipaleiðum, gæti haft áhrif á fragtir og þar með verðlag og síðast en ekki síst gæti haft mjög mikil áhrif á möguleika þess fólks, sem lengi hefur þjálfast í störfum í rekstri skipafélaga og þjónustu hjá Hafskipum, til þess að eygja þá a.m.k. von um störf á þeim sama vettvangi í framtíðinni?