10.12.1985
Sameinað þing: 28. fundur, 108. löggjafarþing.
Sjá dálk 1272 í B-deild Alþingistíðinda. (995)

Viðskipti Hafskips og Útvegsbankans

Guðmundur Einarsson:

Herra forseti. Það er búið að fara býsna víða um völl og draga fram mörg atriði þessa máls. Þó virðist mér tvö atriði þarfnast vissrar skoðunar og mun ég víkja að þeim. Það fyrra er: Af hverju minntist hv. þm. Ólafur Ragnar Grímsson aldrei á bankaráð? Annað atriði sem er orðið lykilatriði í þessu máli er þýðing lýsingarorðanna „nægur“ og „fullur“ í sambandinu nægar tryggingar eða næg veð eða fullar tryggingar eða full veð.

Eins og fram hefur komið í máli hæstv. fyrrv. viðskrh. er spurning hvort talað var um að Útvegsbankinn hefði full veð eða fullar tryggingar eða hefði einungis veð eða hefði einungis tryggingar. Að þessu ætla ég að koma.

Það bar við á síðasta þingi þann 21. maí að ég talaði fyrir svohljóðandi fsp. til þáv. hæstv. viðskrh.:

„Telur ráðherra ástæðu til að fram fari opinber rannsókn á útlánum opinberra lánasjóða og ríkisbanka til að ganga úr skugga um að allar lánveitingar séu með fullnægjandi tryggingum?"

Í framsögu minni með þessari fsp. benti ég ráðherra á að ég hefði ekki nein sérstök dæmi um þessi mál, en ég vildi fá skoðanir viðskrh. á því hvort hann teldi að það væri nægilega vel fylgst með þessum málum. Eins og síðar kemur fram komu nánari dæmi fram síðar. Í máli ráðherrans í svari við þessari fsp. kom fram eins og segir, með leyfi forseta:

„Athugasemdir um útlán ríkisbankanna, sem gætu hafa verið tilefni slíkra fsp., hafa ekki borist ráðuneytinu. Athugasemdir eftir öðrum leiðum hafa heldur ekki komið til ráðuneytis.“

Síðan sagði hæstv. ráðh. í alvarlegum ásökunartón til þm.:

„Þá er rétt að vekja athygli á að krafa um opinbera rannsókn á hendur ríkisbönkum vegna útlána þeirra er alvarlegs eðlis, ekki síst vegna þess að um slíka kröfugerð er rætt hér á Alþingi. Slíka kröfu væri ekki hægt að mínum dómi að setja fram nema grunur leiki á um refsiverða háttsemi eða eitthvað sem viðkomandi teldi að úrskeiðis hefði farið, en af ræðu hv. fyrirspyrjanda mátti ráða að ekki væri um neitt slíkt tilfelli að ræða sem væri orsök fyrirspurnar, heldur aðeins að hann óskaði eftir svari sem nánast væri um prinsipákvörðun.“

Þarna kemur bankaleyndin góða við sögu eins og víðar. Það er stundum erfitt að finna orðum stað. Nánari dæmi og nánari málsatvik komu einum þremur vikum síðar. Það var nánar tiltekið 11. júní sem ég afhenti hæstv. ráðh. á minnisblaði spurningar varðandi samskipti Hafskips og Útvegsbankans. Ég vísaði til upplýsinga sem komu fram í ársskýrslu fyrirtækisins og benti á sem dæmi að ef bornir væru saman varanlegir rekstrarfjármunir og erlendar langtímaskuldir kæmi í ljós að þar væri neikvæður mismunur upp á 156 millj. kr. Ég benti einnig á að munur á veltufjármunum og skammtímaskuldum væri neikvæður upp á einar 20 milljónir sem gæfi til kynna að fjármagnsstaða fyrirtækisins væri mjög erfið. Ég benti einnig á athugasemd sem endurskoðandi fyrirtækisins setti inn í ársskýrslu þar sem næstum er tekinn vari á að fyrirtækið gæti hugsanlega verið á leiðinni í gjaldþrot. Þar er sagt að ef til skyndilegs uppgjörs skuldanna kæmi yrðu menn að vera viðbúnir því að verðgildi eignanna minnkaði verulega.

Á grundvelli þessara upplýsinga spurði ég hæstv. ráðh. viku síðar, þann 18. júní eins og hér hefur komið fram, í tengslum við umræður um frv. um viðskiptabanka. Ég sagði, með leyfi forseta:

„Hér vakna því spurningar, ekki síst með hliðsjón af erfiðum rekstri fyrirtækisins í heild. Hér vakna því spurningar um aðild ríkisbanka, tryggingar fyrir lánum og áhættu ríkissjóðs og skattborgara. Með tilliti til þess er ráðherra spurður hvort hann sjái ástæðu til aðgerða opinberra aðila, svo sem bankaeftirlits, af þessu tilefni og hvort hann muni beita sér fyrir því.“

Ráðherra hefur lýst svari sínu. Ég ætla til fróðleiks að lýsa ýmsu fleiru sem kom fram. Hv. þm. Stefán Valgeirsson sagði m.a., með leyfi forseta:

„Um þá ræðu sem hv. 4. landsk. þm. flutti áðan verð ég að segja að mér virtist hún bera það með sér að öll þessi mál væru í mikilli þoku fyrir honum. Hann talaði um að Alþingi ætti ekki að hafa neina menn í bankaráðum, en samt sem áður ætti Alþingi að vera eftirlitsaðili með bönkunum. Hvernig á það eftirlit þá að vera ef alþm. hafa ekki aðstöðu til að fylgjast með málum þar og krefja t.d. bankastjóra sagna, upplýsinga um hin ýmsu atriði? Mín reynsla er sú að bankaráðið sé í sjálfu sér fyrst og fremst eftirlitsaðili í bönkunum. Ég held að ýmislegt sem bæði fjölmiðlar hafa birt og ýmsir þm. hafa látið orð falla um hér á Alþingi varðandi bankana sé byggt á misskilningi vegna ókunnugleika á þessum efnum.“ Þetta var fróðleg yfirlýsing hv. formanns bankaráðs Búnaðarbankans um eftirlitsskyldu og hið virka eftirlit bankaráða í bönkum.

Það létu fleiri hv. þm. málið til sín taka. Hv. þm. og bankaráðsmaður Garðar Sigurðsson sagði, með leyfi forseta:

„Herra forseti. Ég lét mig hafa það að biðja um orðið undir ræðu hv. 4. landsk. þm. Ég hef ekki hugsað mér að ræða hér málefni Hafskips og hef enga heimild til þess, enda kannske óþarfi að öðru leyti en því að mér fannst alger óþarfi að draga óþverramálflutning Helgarpóstsins inn í umræður á hinu háa Alþingi. Það sem mest var áberandi í þeirri grein fyrir utan illkvittni og sóðaskap var að birt var stór mynd af sökkvandi skipi með nafni og númeri. Það lýsir innræti viðkomandi ritstjóra betur en nokkur orð.“

Þetta var vitnisburður úr bankaráði Útvegsbankans. Við getum heyrt fleiri vitnisburði, Í hv. Ed. sagði hv. þm. Eiður Guðnason þegar hv. þm. Stefán Benediktsson hafði vakið máls á þessu við umræðu viðskiptabankamálsins þar, með leyfi forseta:

„Ég kom inn hérna áðan þegar hv. 8. þm. Reykv. var að flytja sína ræðu. Hann var að tala hér um ákveðið fyrirtæki, Hafskip, og gerðist þar býsna stórorður. Ég heyrði ekki betur en að hann væri að éta upp úr vikublaði sem hér er gefið út og heitir Helgarpósturinn og hefur verið að skrifa um þessi mál með býsna einkennilegum hætti. Það hefur lítið verið staðfest af hæpnum fullyrðingum. Ég skil satt að segja ekki hvað slíkar fullyrðingar og umræður eiga að þýða þegar Alþingi Íslendinga er að ræða um viðskiptabanka. Mér þótti þetta næsta undarlegt og næsta undarleg ræða.

Það kom annar vitnisburður í hv. Ed. og í þetta skipti úr bankaráði. Hv. þm. Valdimar Indriðason, formaður bakaráðs Útvegsbankans, sagði, með leyfi forseta:

„Eins og hv. 5. landsk. þm. gat um hér áðan hleypur hv. 8. þm. Reykv. upp með mál sem hefur verið í blöðum undanfarið um viðskipti Hafskips og Útvegsbankans. Það ætla ég ekki að ræða úr þessum ræðustól en aðeins að segja honum að hann ætti ekki að flíka þeim málum á þann veg sem hann hefur gert hér því að það er ekki fótur fyrir þeim skrifum.“

Þetta eru nú móttökur Alþingis og hv. alþm. á þessu máli í Alþingi dagana 18., 19. og 20. júní s.l. Og í ljósi heilagrar vanþóknunar manna úr öllum flokkum þessa dagana þá er þetta dálítið fróðlegt, ekki síst með hliðsjón af þeim pillum sem hæstv. ráðh. Matthías Bjarnason sendi til frekrar pressu og fjölmiðla og blaðamanna hérna rétt áðan.

Ég ætla ekki að gera þetta að meiri umræðu. Ég ætla að snúa mér aftur að þeim spurningum sem ég vísaði til hæstv. viðskrh. um þetta Hafskipsmál. Í svari ráðherra kom þetta fram:

Hv. þm. vék að reikningum þessa ákveðna fyrirtækis og las út úr reikningunum ákveðna niðurstöðu sem ég skal ekki dæma um. En þar verðum við að gera greinarmun á útkomu fyrirtækisins annars vegar, svo og þeim tryggingum sem bankinn hefur hins vegar. Nú hafa bankastjórar þessa banka opinberlega gert grein fyrir því að bankinn hafi tryggingu fyrir þeim lánum sem hann hefur veitt í eignum fyrirtækisins og eignum hluthafanna þannig að reikningar fyrirtækisins þurfa ekki að sýna og sýna ekki samkvæmt þessu þær tryggingar sem bankinn hefur fyrir þeim skuldum sem fyrirtækið er í.

Varðandi fsp. sem er framhald af fsp. frá því fyrr í vetur þá hafa, að því er ég best veit, þeir aðilar, sem fara með eftirlit undir þessum kringumstæðum, ekki talið ástæðu til að gera sérstaka athugun á því tilviki sem hér var að vikið. Eins og hæstv. ráðh. sagði hér áðan þá er hvorki talað um það í yfirlýsingu bankastjóranna, sem hann vísar til, né í hans ræðu að tryggingar hafi verið nægar eða veð hafi verið full.

Nú getur maður náttúrlega velt því fyrir sér hvers vegna bankastjórarnir sendu þessa tilkynningu án þess að tala um full veð eða fullar tryggingar. Gættu þeir þess kannske sérstaklega að orðið fullur og nægur kæmi hvergi fyrir í textanum? Eða m.ö.o.: Er verið að afvegaleiða hæstv. ráðh. og hv. Alþingi? Án þess að fara meira út í orðskýringar þá tel ég að þetta sé út af fyrir sig nokkuð merkilegt mál. Stjórnmálamönnum er það bæði tamt og lagið og stundum kannske leyfilegt að hafa svona rúma hólkvídd um það sem þeir eru að segja, en ég held að í því tilfelli þar sem bankastjórarnir svara, senda frá sér tilkynningu sem síðan er notuð sem uppistaða í svar hæstv. ráðh. til Alþingis megi menn ekki hafa þessa hólkvídd svo rúma. Maður getur spurt sig: Ætluðu bankastjórarnir að blekkja ráðherrann með því að hafa orðalagið á vísvitandi hátt þannig að það gæti misskilist? Ég held eftir á að hyggja að ráðherra hljóti að hafa skilið þetta sem svo að það væru nægar tryggingar því að annars hefði hann hlotið að svara því til að hann teldi að það væri þörf á að athuga málið, vegna þess að um það spurði ég.

Ég vek á þessu athygli og það er í ljósi þessara hluta sem ég hafði síðan frekari afskipti af þessu máli, þar sem ég í nóvember, núna nýlega, sendi bréf til hæstv. viðskrh. einmitt um þetta mál. Það bréf sendi ég 21. nóvember til hæstv. núv. viðskrh. Matthíasar Bjarnasonar og vakti athygli á þessum skoðanaskiptum sem þarna fóru fram og segi í þessu bréfi, með leyfi hæstv. forseta:

„Skv, orðum ráðherrans á hv. Alþingi var yfirlýsing þessi án fyrirvara eða nokkurra efasemda um að hagsmuna bankans væri vandlega gætt. Því verður vart trúað að bankastjórar Útvegsbankans hafi vísvitandi farið með rangt mál í yfirlýsingu sinni. Í ljósi þess hins vegar að einungis fimm mánuðum síðar er augljóst samkvæmt fregnum að fyrirtækið á alls ekki fyrir skuldum, krefst ég tafarlausrar opinberrar rannsóknar á rökstuðningi og sannleiksgildi yfirlýsingar bankastjóranna frá því í júní.“

Ég held að séð í þessu samhengi hljóti menn að sjá að það er full ástæða til þess að spyrja sig hvers vegna menn senda frá sér svona ónákvæm plögg. Ég held að við þessar kringumstæður eigi bankastjórar, umsjónarmenn banka sem eru í eigu allrar þjóðarinnar, hvorki að reyna að afvegaleiða þjóðina né ráðherra sinn og ríkisstj. Þannig að ef einhver bankastjóri ætlar að halda því fram að þeir hafi aðeins ætlað að koma því að að þeir væru með veð í fleiri hlutum en eigum fyrirtækisins þá væri hægt að taka það fram á miklu, miklu greinilegri hátt.

Ég taldi sem sagt skynsamlegt að skrifa til ráðherra og óska þessara hluta við hann, þar sem ráðherra þessi fer með stjórn bankamála og ber þannig endanlega ábyrgð á þessum málum, og að mínu mati er það líka spurning hvort fyrrv. ráðherra þess ráðuneytis, hæstv. fyrrv. viðskrh., var vísvitandi blekktur með þessum upplýsingum í júní. s.l. föstudag barst mér síðan svar hæstv. núv. viðskrh. þar sem segir, með leyfi forseta:

„Bréf yðar var sent bankastjórum Útvegsbanka Íslands til umsagnar. Enn fremur var óskað umsagnar ríkislögmanns um málið, en hann hefur verið tilnefndur af hálfu ráðuneytisins til að fylgjast með samningaviðræðum Útvegsbankans og Hafskips hf. um fjárhagsvanda skipafélagsins. Þessar umsagnir hafa nú borist og fylgja hjálagðar í ljósriti.

Með vísan til þess sem fram kemur í nefndum umsögnum skal tekið fram að bréf yðar gefur að svo stöddu ekki tilefni til sérstakra aðgerða af hálfu ráðuneytisins. Hins vegar hljóta viðskipti Hafskips hf. og Útvegsbanka Íslands að verða tekin til ítarlegrar rannsóknar þar sem Hafskip hf. hefur í dag verið tekið til gjaldþrotaskipta og öll þessi mál eru nú í höndum skiptaráðanda.“ Þetta er dagsett föstudaginn 6. desember.

Meðfylgjandi þessu bréfi frá hæstv. ráðh. er bréf frá bankastjórn Útvegsbanka Íslands par sem segir til skýringar á þessari yfirlýsingu. - Ég ætla nú að lesa þessa margumtöluðu fréttatilkynningu bankastjórnarinnar upp aftur, með leyfi forseta, til þess að menn rifji upp hvernig hún er orðuð. Hún var birt í Morgunblaðinu 16. júní og í henni stóð:

„Bankastjórn Útvegsbanka Íslands vill taka fram að fullyrðingar, sem fram koma í blaði yðar hinn 12. þ.m. í grein Halldórs Halldórssonar ritstjóra Helgarpóstsins um tryggingar bankans vegna skuldbindinga Hafskips hf., eru úr lausu lofti gripnar. Tryggingar bankans eru í eignum fyrirtækisins og hluthafa.“

Til skýringar síðan í þessu bréfi segir nánar:

Hér er átt við að tryggingar séu í eignum fyrirtækisins - bæði í svonefndum varanlegum rekstrarfjármunum samkvæmt reikningunum og síðan kemur - og ýmsu lausafé, þar með talið handveð í viðskiptavíxlum og skuldabréfum hluthafa og að tryggingar bankans verði ekki ráðnar af reikningunum einum. - Þannig að þá taka menn inn í þetta veðdæmi allt aðra hluti en varanlega rekstrarfjármuni. Þá tína menn til viðskiptabréf, víxla og þess háttar sem er allt annar hlutur. Ef við förum að stilla dæminu upp þannig þá eigum við líka að taka inn í aðrar skuldir, lausaskuldir, skammtímaskuldir. Og við skulum vera minnug þess að fyrirtækið stóð ekki björgulega á þeim kantinum heldur þar sem það var í mínus í þeim samanburði einnig. Síðan segir:

Hjálagt fylgir yfirlit yfir veð vegna skuldbindinga Hafskips hf. hjá Útvegsbanka Íslands hinn 3. júní 1985. - Það er afar, eigum við að segja lítið ítarlegt plagg. Þar stendur: „Yfirlit yfir veð vegna skuldbindinga Hafskips hf. hjá Útvegsbanka Íslands hinn 3. júní 1985.

Og þar stendur: „1. Veð í skipum 275 millj.“- Þetta er 3. júní. Þetta er fróðlegt, þar sem um áramót var skipaeignin metin á 245 millj. og þótti að margra mati þá mjög ofmetin. Eignin þótti ofmetin í 245 millj. um áramótin. 3. júní er hins vegar veð í skipum orðið 275 millj. Nú kann að vera að fyrirtækið hafi bætt við einhverjum skipum. Ég þekki ekki á það. En af því sem seinna er komið fram um afkomu fyrirtækisins þá getur ekki verið að sú viðbót í skipum hafi verið öðruvísi en með fullkominni skuld, þannig að ef einhverju hefur verið bætt við í skipum þá hefur það fullkomlega bæst við skuldamegin líka.

Í 2. lið stendur: „Veð í tækjum og fasteignum 195 millj. 3. júní.“ Í ársskýrslunni er sagt að veð í tækjum og fasteignum um áramótin hafi verið 125 millj. Þá höfum við það að aukning véla- og tækjaveðs hjá fyrirtæki, sem var að rúlla, var á hausnum, aukning þessa verðgildis var um 70 millj. á 6 mánuðum.

Síðan er tilgreint veð í víxlum og skuldabréfum 109 millj. Samtals er þá sagt að veð nemi 579 millj. þennan örlagaríka dag, 3. júní 1985.

Um þetta bréf og þessar upplýsingar verð ég að segja að mér finnst það í fyrsta lagi áframhald af þeim óljósu upplýsingum sem bankastjórnin gaf um málið í vor, þann 18. júní, þegar almenningi, ráðherra og þingi eru veittar upplýsingar sem eru vægast sagt mjög ófullkomnar og manni liggur við að túlka þannig að til þess sé ætlast að þær séu misskildar. Þegar útskýringar berast síðan núna frá bankastjórn bankans frammi fyrir beiðni um opinbera rannsókn þá eru þær útskýringar ekki gleggri en raun ber vitni hér. Þessum framgangi kann ég vægast sagt mjög illa.

Með bréfi frá hæstv. viðskrh. fylgdu þessi fskj. málsins og ég þakka það, það var heiðarlega að staðið. Eitt fylgiskjalið er minnisblað frá ríkislögmanni, dags. 28. nóvember og þar segir, með leyfi forseta, - þetta er sem sagt um bréf Guðmundar Einarssonar alþm. til viðskrh. dags. 21. nóvember:

„Um þær skýringar bankastjórnar sem þarna koma fram á yfirlýsingu sinni frá í júní s.l. hef ég auðvitað ekkert að segja. Þær liggja fyrir og þar með hvað bankastjórnin hefur að segja til fyllingar og skýringar á margnefndri yfirlýsingu sinni frá s.l. sumri.

Um málið að öðru leyti er það að segja að í bréfi sínu krefst þm. tafarlausrar opinberrar rannsóknar á rökstuðningi og sannleiksgildi yfirlýsingar bankastjóranna frá í júní s.l. Þessa kröfu gat þm. sett fram beint við réttan aðila, þ.e. ríkissaksóknara. Ekki þarf milligöngu viðskrh. til að beina slíkri kröfu til rétts aðila. Hver sem er getur haft uppi kröfu um opinbera rannsókn við þar til bæran aðila ef hann telur refsivert athæfi hafa átt sér stað. Sú leið stendur þm. enn opin.“

Ég hef ráðfært mig - eins og þeir segja í Ameríku - við lögfræðinga mína um þetta mál og ég hef það sem sagt til athugunar hvort grundvöllur sé fyrir því að vísa þessu máli til saksóknara á þeim forsendum að þar sé vísvitandi verið að reyna að afvegaleiða upplýsingaöflun í þessu efni.

Herra forseti. Það er komið að vissum kaflaskilum í ræðu minni en ég á talsvert mikið eftir og mig langaði að spyrja hvort forseti hygðist gera hlé. (Forseti: Það var ætlunin að vera allt fram undir hálfátta ef þyrfti til þess að ljúka ræðunni.) Henni mun ekki ljúka, því miður. (Forseti: Þá er skynsamlegt að fresta henni núna við kaflaskipti. Ræðunni verður frestað.) - [Fundarhlé.]

Herra forseti. Nú læt ég ræðu minni fram haldið. Rétt til þess að rifja upp kannske helstu atriði í því sem ég talaði um í ræðu minni fyrir hlé, þá gerði ég grein fyrir bréfaskiptum mínum og samskiptum við hæstv. viðskrh., fyrrv. og núv. Ég lýsti því hve vöntun orðsins nægur eða fullur í sambandi við veð eða tryggingar fyrir lánum Hafskips skipti höfuðmáli um hvernig túlka bæri þær yfirlýsingar sem gefnar voru í stóli hér í sumar.

Ef ég rétt tek saman niðurstöðurnar sýnist mér að þegar ég spyr í júní s.l. um þessi mál, þá gefi bankastjórar beinlínis villandi svar - að vísu þannig að þeir birta fréttatilkynningu sem birt er í Morgunblaðinu og er síðan notuð sem uppistaða í svar sem hæstv. ráðh. veitir hér. Í öðru lagi þegar þeir eru síðan beðnir um skýringar hér í haust, þá gefa þeir óljósar, ófullnægjandi upplýsingar, alls ófullnægjandi að mínu mati, til þess að hafna opinberri rannsókn. Hérna hef ég sem sagt rakið þennan ákveðna þátt sem við getum sagt að sé þátturinn um viðbrögð bankastjóra og bankastjórnar við kröfum um upplýsingar í þessu efni.

Herra forseti. Þetta er einungis eitt lítið dæmi að mínu mati um það hvernig svo margt annað í sambandi við þetta mál hefur orðið, þar sem er þessi upplýsingatregða. Í fyrsta lagi vilja menn ekki gefa upplýsingar. Ef upplýsingar eru gefnar þá eru þær villandi eða ófullnægjandi. Þess vegna hef ég tekið þetta hérna sem dæmi um ákveðinn þátt þessa máls.

En þetta mál á sér náttúrlega langa sögu, miklu lengri sögu heldur en til júní s.l. Þetta á sér 10-15 ára sögu og á þessu eru býsna margir angar. Einn anginn sem menn verða að horfa á í þessu sambandi er náttúrlega tengsl stjórnmálaflokka við þessi mál. Stjórnmálaflokkar á Alþingi skipta bróðurlega með sér bankaráðum og þeir gera það þannig að allir verða að fá a.m.k. sinn mann, helst sína menn. Þetta lýsir sér t.d. þannig að ef skyndilega kemur upp flokkur sem ekki hefur kjörfylgi til þess að koma að manni, eins og Alþfl. við síðustu bankaráðskosningar, þá gengur maður undir manns hönd við að koma inn manni, koma manni fyrir Alþfl. inn í bankaráð. Síðast var það Sjálfstfl. sem hjálpaði Alþfl. við að koma manni inn í bankaráð. Þá getur maður spurt sig: Hvers vegna er svona mikið atriði fyrir Alþfl. að koma manni inn í bankaráð? Nú, hann verður náttúrlega að hafa sinn fulltrúa, kannske til þess að sinna því „eftirliti“ sem bankaráðsmenn hafa lagt svo mikla áherslu á að þeir þurfi að gegna í bankaráðum, en menn verða nú að vísu að líta á nú orðið a.m.k, með gæsalöppum. Ég held að miklu, miklu sterkari sé sú þörf hinna flokkanna fyrir að það standi enginn fyrir utan. Það er kannske meginatriðið. Líklega hefði flokkunum þremur, Sjálfstfl., Framsfl. og Alþb., þótt mjög vont að vera án Alþfl. í bankaráði. Það er aldrei að vita upp á hverju sá flokkur tekur sem ekki á mann í bankaráði. Hann gæti kannske tekið upp á því að fara að herja á um eftirlit, þannig að það er miklu betra að fá hann með. Þetta hafa menn stundum kallað samtryggingu stjórnmálaflokkanna. Þetta er einn angi þessa máls.

Annar angi þessa máls eru náttúrlega hin opinberu eftirlitskerfi sem eiga að koma í veg fyrir að svona hlutir gerist. Við höfum t.d. skattakerfið sem á að ganga eftir því að fólk, fénaður og fyrirtæki skili til samneyslunnar því sem menn telja sanngjarnt. Það vita nú reyndar allir hvernig það eftirlitskerfi er orðið hér, enda hefur það greinilega sýnt sig að skila ekki sínum árangri í sambandi við þetta Hafskipsmál. Við höfum annað eftirlitskerfi sem er bankaeftirlit. Það hefur komið í ljós að bankaeftirlitið er búið að gera athugasemdir við þetta tiltekna fyrirtæki og þennan tiltekna banka í mörg ár. En það gerist ekki neitt. Nú eru menn að tala um að það þurfi að breyta lögum um bankaeftirlit og setja upp sjálfstæðara bankaeftirlit og öflugra bankaeftirlit, kannske grimmara bankaeftirlit. En skiptir það nokkru máli ef þetta sama bankaeftirlit er eftir sem áður undir pólitískri stjórn? Eru ekki hin pólitísku afskipti þau sem á endanum ráða, hvort athugasemdir eru teknar til greina eða ekki? Það þýðir ekkert að hafa fleira fólk eða hækka laun eða á annan hátt styrkja þessa starfsemi ef eftirlitið nær ekki áhrifum sínum vegna þess að það eru pólitísk öfl sem ekki vilja að athugasemdir þess komist til skila. Þess vegna er tómt þvaður að tala um það að ráðin sé á þessu endanleg bót með því að styrkja bankaeftirlitið eitt út af fyrir sig. Þá erum við enn þá að glíma við afleiðingar án þess að hafa hugað að orsökunum. Þetta var um opinbera eftirlitskerfið. Ég kem kannske að því síðar.

Síðan er annað mikilvægt atriði og það er náttúrlega hið innra eftirlit bankans eða eigum við að segja hin bankalega fagmennska sem ríkir. I þessu sambandi þá verða menn, held ég, að komast að þeirri niðurstöðu að annaðhvort er hið innra starf og innra eftirlit bankans ónýtt eða að forráðamenn bankans hafa hylmað yfir, þ.e. ef einhverjir í bankanum voru búnir að sjá að fyrirtækið væri á hausnum og ætti sér ekki viðreisnar von, þá hafa einhverjir forráðamenn komið í veg fyrir að sá skilningur kæmist til skila. En það er alveg hreint og klárt að það hlýtur einhver að hafa lokað augum. Það hlýtur einhver að hafa lokað augum fyrst ekki voru gerðar viðeigandi ráðstafanir í vetur og í vor. Og það er algerlega rangt að mínu mati að halda því fram að menn hafi ekki vitað um neitt af þessum hlutum fyrr en einhvern tímann í júní eða júlí. Ef menn hafa ekki vitað um þessa hluti fyrr en í júní eða júlí þá hafa þeir annaðhvort gengið um í myrkri með lokuð augu eða einhver hefur bundið fyrir augun á þeim. Kannske voru sumir blindaðir af bjartsýni.

Mig langar að biðja menn um að kíkja aðeins inn á aðalfund fyrirtækisins Hafskips sem var haldinn í júní s.l. Þar segir forstjórinn í ræðu á aðalfundi að Trans-Atlantic siglingarnar sýni góða arðsemi og hafi sýnt allt frá upphafi. Nú er reyndar komið í ljós að það eru þessar Trans-Atlantic siglingar sem virðast hafa rekið endahnútinn á þetta stóra ævintýri, íslenska siglingamennsku. En á þessum aðalfundi í júní s.l. segir forstjórinn: „Trans-Atlantic siglingar virðast hafa sýnt góða arðsemi allt frá upphafi“ og síðan segir hann: „Nettóhagnaður Trans-Atlantic siglinga eru 30-35 millj. á tímabilinu janúar til apríl.“ 30-35 millj. Þetta er sagt í júní. Allir sem voru með opin augu vissu engu að síður að öll félög, öll lítil skipafélög, sem sigldu á þessari leið, voru annaðhvort dauð eða voru að drepast.

Ég get vísað til ýmissa upplýsinga. Ég get vísað til rits sem heitir Journal of Commerce eða viðskiptatímaritið. Þar er grein 30. jan. 1985, þar sem haft er eftir kunnáttumanni um þessi mál, sérfræðingi í siglingamálum, að það verði gífurlegur samdráttur í siglingum á þessari leið. Þetta er sagt 30. janúar. 20. maí er líka grein í sama blaði, miklu ítarlegri grein, um siglingar á Norður-Atlantshafi. Þar er lýsing á hinum algengustu örlögum skipafélaga á Norður-Atlantshafi. Þetta er 20. maí. Þar segir að skipafélögin, þessi litlu skipafélög á Norður-Atlantshafi fari gegnum þrjú stig:

Fyrsta stigið. Þú kaupir tæki; þú auglýsir gífurlega; þú nærð þér í svolítinn pening; þú nærð þér í lánstraust og þú ert ekki aðeins að skapa flutninga, þú ert að skapa ímynd velgengninnar.

Annað stigið. Það syrtir í álinn; það kemur ýmis kostnaður í ljós; þú gengur á sjóði sem þú átt eftir og það þrengir að þér.

Þriðja stigið. Stóru keppinautarnir reyna að drepa þig og fyrr en seinna getur þú ekki greitt reikningana þína og - eins og segir í greininni - þú siglir upp að viðlegukanti gjaldþrotsins.

Þetta er skrifað 20. maí 1985 í virtu tímariti sem bankafagmenn, sem á annað borð höfðu einhverjar áhyggjur af því hvernig stóri viðskiptavinurinn Hafskip stæði, hlytu að hafa lesið. En hvað er að gerast á Íslandi á sama tíma? - Já, reyndar get ég vitnað í einn enn. Það er amerískur forstjóri sem sagði á þessum tíma: Það er blóðbað á Norður-Atlantshafi. Það er blóðbað á Norður-Atlantshafi. Litlu félögin eru öll að drepast. - Á sama tíma getum við aftur horfið til þessa ágæta aðalfundar heima á Íslandi en þar ríkir þessi geggjaða bjartsýni. Þar segir formaður stjórnarinnar: Í starfi okkar hvar sem við kunnum að vera niðurkomnir í þjóðfélaginu þurfum við að leitast við að lyfta okkur upp úr hversdagsleika daglegra starfa og spyrja okkur: Hvað getum við gert betur? Hvað getum við gert að auki sem skilað getur okkur fram á við þegar til viðurkenndra þjóðfélagslegra hagsmuna er litið? Hvað með okkar eigin grein, kaupskipaútgerðina?"

Síðar segir: „Þó að við séum sagðir vinnusamir og aðlögunargjarnir fáum við fremur lélega einkunn sem þjóðarheild þegar litið er til almennrar skynsemi, úrvinnslu þess sem á milli handa er og stjórnunar eigin mála. Sést það m.a. í þjóðfélagslegri yfirbyggingu og offjárfestingu sem ekki fær staðist þegar litið er til fámennis okkar og þjóðartekna. En það eru teikn á lofti, merki vaxandi skilnings á grundvallarlögmálum efnahagslífsins og hugmyndir um nýjar nálganir verða algengari með hverjum deginum. En hér má engum tíma tapa.“

Hér er ræða sem er flutt á aðalfundi fyrirtækis sem er „fallit“ - það er „fallit“, allir sem vilja vita það ættu að geta vitað það - og það standa upp einhverjir menn í geggjaðri bjartsýni sem síðan kemur í ljós, fimm, sex mánuðum seinna, að kostar þjóðina fleiri hundruð milljónir. Ég gæti haldið áfram með þessa ágætu skýrslu. Síðan segir - þetta er ræða:

„Nýverið var framkvæmd skoðanakönnun á viðhorfum Íslendinga til starfa erlendis og brottflutnings af landinu.“ - Ætli þeir séu ekki farnir að fletta þessum upplýsingum um brottflutning af landinu upp aftur núna, einhverjir? Síðan er því lýst að Íslendingar hafi það helst í huga að flytjast brott af landinu og þá segir hinn bjartsýni stjórnarformaður:

„Á slíkar niðurstöður verður ekki horft sem þurra tölfræði. Þær endurspegla tilfinningar og hræringar sem geta umbreyst í óstöðvandi atgervisflótta ef við Íslendingar berum ekki gæfu til að snúa með hraði vörn í sókn í okkar sameiginlegu lífskjarabaráttu. Minnumst íslensku landsbyggðarröskunarinnar frá því á fyrri hluta aldarinnar og gerum okkur fulla grein fyrir því að það dæmi getur endurtekið sig en nú sem landflótti.

Það er gjarnan haft á orði að þegar mikið liggi við geti Íslendingar komið fram sem ein þjóð, sem einn maður. Spyrja má: Jafnast ekki hættan á landflótta á við náttúruhamfarir og landhelgisstríð? Er stóri sáttmáli þjóðfélagshópanna ekki löngu orðinn tímabær? Atvinnustarfsemi, verkalýðsbarátta, stjórnmál og lífskjör eru samofnir, óaðskiljanlegir þættir. Í þeim efnum er engin atvinnugrein, enginn einstaklingur undanskilinn í því sameiginlega átaki, sem fyrir höndum er, að tryggja Íslandi 21. aldarinnar annan og veigameiri sess en Hornstrandir og aðrir sambærilegir afskekktir sumarheimsóknarstaðir hafa í dag.“

Fyrir þá sem eru nýkomnir, þá er þetta ekki 17. júní ræða. Þetta er ræða á aðalfundi fyrirtækisins Hafskip. (Gripið fram í: Hver flytur ræðuna?) Stjórnarformaður. Það er ekki furða þó að bankastjórarnir eða peningamennirnir í sjónvarpinu um daginn hafi talað um að ákveðin bjartsýni hafi orðið þess valdandi að þeir ákváðu að sjá til. Mér sýnist þetta viss spásögn þegar stjórnarformaðurinn segir: „Er stóri sáttmáli þjóðfélagshópanna ekki löngu orðinn tímabær?" Hann hefur kannske talað við Þröst.

Svo segir hann: „Atvinnustarfsemi, verkalýðsbarátta, stjórnmál og lífskjör eru samofnir, óaðskiljanlegir þættir.“ M.ö.o. hagsmunir og skuldir Hafskips, Útvegsbankinn og þjóðin, þetta er allt eitt. Hann var búinn að sjá niðurstöðuna. Amen. Svona gengur þetta nú.

Við erum að tala um aðalfund í fyrirtæki sem er að fara á hausinn með hundraða milljóna tap. En á þessum sama fundi liggja á borðum ársskýrslur þar sem er að finna athugasemd frá endurskoðanda fyrirtækisins þar sem er óbeint varað við því að fyrirtækið sé að fara á hausinn. Þar stendur, með leyfi forseta:

„Framsetning skulda miðast við að afborganir fari fram á umsömdum gjalddögum. Komi til vanskila á umsömdum skuldum getur það leitt til gjaldfellingar þeirra og jafnframt haft veruleg áhrif á söluverð eigna félagsins.“ Og síðar segir: „Endurskoðandi gerir þessi atriði að fyrirvara um að reikningar gefi glögga mynd af efnahag fyrirtækisins.“

Hvað er verið að segja? Það er verið að segja: Passið ykkur nú, það er ekki allt sem sýnist. Þetta fyrirtæki er nefnilega hugsanlega að fara á hausinn og þá er þessi reikningur alls ekki réttur. Á sama tíma stendur stjórnarformaður og flytur 17. júní ræðu og talar um „hinn stóra sáttmála þjóðfélagshópanna“.

Þetta gefur aðra ofurlitla innsýn inn í þetta mál og er dæmi um það hvernig að mínu mati fara saman blekkingar og það að menn loka augum og jafnvel örlítill og kannske allt of stór skammtur af sinnuleysi. Allir, sem höfðu augun opin á annað borð, vissu að siglingar yfir Norður-Atlantshaf voru vonlausar. Menn vissu það ef þeir vissu það ekki voru þeir asnar. Þeir áttu að vita að fyrirtækið var ónýtt. Menn hafa annaðhvort sofið, lokað augum eða bara slökkt ljósið. Það er ekki hægt að afsaka svona niðurstöðu.

Hér hafa ýmsir þættir þessa máls verið teknir upp og raktir býsna vel í dag og ég ætla ekki að fara neitt út í það nánar. Upplýsingarnar um þetta mál fylla orðið margar möppur og eru ekki að þakka ströngu og góðu eftirliti bankaráðsmanna eða alþm., þær eru mestan part afrakstur örfárra duglegra ritstjóra sem hafa opnað augun og horft yfir pollinn.

Menn hafa gert sér einna mestan mat úr því hér í dag að horfa á afleiðingarnar af þessu. En svo getur maður spurt sig: Hverjar eru orsakirnar? Er það kannske rétt sem hv. þm. Ólafur Ragnar Grímsson setur fram, að orsakirnar séu í raun og veru bara einn spilltur flokkur, Sjálfstfl., eða kannske bara einn spilltur maður? Eða er stærra samhengi? Um þetta verðum við að spyrja okkur ef við ætlum okkur að koma í veg fyrir að svona mál komi fyrir aftur. Menn verða að spyrja sig: Er þetta kannske bara eðli þess valdakerfis og þeirrar samtryggingar sem hér ríkir, þessa kerfis sem byrjar t.d. á því að menn kjósa hver og einn mann í bankaráð og passa að enginn verði útundan?

Hæstv. iðnrh. Albert Guðmundsson hefur orðið mjög að umtalsefni í þessum málum. Eins og lýst hefur verið er mjög eðlilegt að menn hugsi sem svo: Hvað gerist þegar sami maðurinn situr í þremur stólum í kringum sama borðið og gætir þrenns konar mismunandi hagsmuna? En þá geta menn náttúrlega velt fyrir sér, eins og hæstv. ráðh. Matthías Bjarnason gerði hér í dag: Hver kom Albert Guðmundssyni hæstv. iðnrh. í bankaráð? Hann kom inn í bankaráð Útvegsbankans í ársbyrjun 1981. Hver var þá í ríkisstjórn? Það var hv. þm. Ólafur Ragnar Grímsson og hans fólk. Hver var guðfaðir og ljósmóðir þessarar stjórnar? Var það ekki hv. þm. Ólafur Ragnar Grímsson sem sló þessa hluti saman á endanum? Voru ekki hv. þm. og hæstv. ráðh. Eggert Haukdal og Albert Guðmundsson hluti af því tafli sem þurfti til að koma því saman á endanum? (Gripið fram í.) Það kemur í ljós. Var það ekki undir blessun þeirrar ríkisstjórnar, sem hv. þm. Ólafur Ragnar Grímsson kom að, sem Albert Guðmundsson hæstv. ráðh. fékk skrifstofu til að taka á móti mönnum uppi í Útvegsbanka?

Hér leiðir nefnilega haltur blindan. Menn bera ábyrgð hver á öðrum, menn kjósa hver annan í bankaráð og síðan sitja þeir í bakherbergjunum og útdeila góssinu. Þetta kom fram t.d. áðan þegar hæstv. ráðh. Matthías Bjarnason kom hér í stól og játaði á sig allar skammirnar, játaði á sig að allt væri komið í klúður. Hann sagði: „En þú, hv. þm. Ólafur Ragnar Grímsson, þú líka.“ Hann sagði: „Við erum saman í þessu.“

Sama datt út úr hv. þm. Páli Péturssyni um daginn þegar verið var að ræða þessi mál í öðru sambandi og hann af sínu alkunna glensi stóð hér í stól, glotti og sagði: „Annars er þetta mál nú ekki mál Framsóknarflokksins. Það þurfa aðrir flokkar að hafa meiri áhyggjur af því.“ En hvað er hv. þm. Páll Pétursson að segja? Hann er að segja nákvæmlega þetta sama: „Við erum allir í þessu saman, strákar. Ég vorkenni ykkur núna, sjálfstæðismenn, þið sitjið uppi með Hafskip. En ég kannast við þetta, ég veit hvernig þetta er, ég hef lent í þessu sjálfur. Við þekkjum þetta.“

Þetta er nefnilega málið. Þeir hafa gaman af þessu, strákarnir, og síðan borgar almenningur brúsann. Auðvitað endar það alltaf þannig. Menn geta spurt sig - menn eru reyndar búnir að spyrja og svara: Hver borgar brúsann núna í sambandi við Hafskip? En hvað verður skellurinn stór þegar raðsmíðaskipin koma upp á yfirborðið og hver átti raðsmíðaskipin? Var það Sjálfstfl.? Hver ætlar að taka ábyrgð á raðsmíðaskipunum? Gerum við það kannske saman, strákar? Mér er sagt að reikningurinn fyrir raðsmíðaskipin verði á bilinu 4-600 millj.

Hvað taldi hæstv. ráðh. Matthías Bjarnason upp mörg hundruð milljónir hérna áðan vegna togarakaupanna sem lenda á Fiskveiðasjóði? Hver á þennan Fiskveiðasjóð? Auðvitað eru það við, það er fólkið í landinu sem á þennan Fiskveiðasjóð. Eru þar ekki einar 4-500 millj.?

Hvað er búið að eyða mörg hundruð milljónum í að reikna og teikna einhverja virkjun á Austurlandi? Ég sá einhvers staðar reikning upp á 600 millj. um daginn. Mér er sagt að nú æfi hreindýraskyttur á Austurlandi sig að skjóta á þessa gulu hæla sem eru uppi um öll fjöll þar sem búið er að mæla út fyrir einhverri virkjun. 600 millj., býsna gott.

En hvað skyldi þetta blessaða fólk í landinu, sem allir eru að tala um, svo þurfa að blæða fyrir þetta? Við getum tekið saman hérna stuttan reikning. Ef við segjum að Hafskip sé upp á 400 millj., segjum að raðsmíðaskipin verði upp á 500 millj., giskum á að Fiskveiðasjóður verði upp á 400 millj., Austurlandsvirkjun 5-600 millj. erum við komin með u.þ.b. 1700-2000 millj. (Gripið fram í: Krafla, 200 millj.) Já. (Gripið fram í: Byggðasjóður, 75.) Já, fleira? Hver á virkilega svona sökótt við þetta vesalings fólk í landinu? Af hverju gera stjórnmálamenn fólkinu í landinu þetta? Svo eru menn eitthvað hissa á því að lífskjör í landinu séu naum. Fólk er alltaf að vinna fyrir svona afglöpum. Fólk er að vinna fyrir einhverjum Hafskipsmálum nútíðar og fortíðar. Fólk er að vinna fyrir einhverjum fjandans raðsmíðaverkefnum, Fiskveiðasjóðsskuldum eða einhverjum draumóravirkjunum hér og þar á landinu. Það er ekki að furða þó að fólk hafi ekki ofan í sig og á.

Hæstv. ráðh. Matthías Bjarnason tók af mér ómakið áðan, eins og ég sagði. Hann lýsti samsektinni og sagði bara: „Við erum sekir, það er rétt. En við erum bara allir jafnsekir, strákar mínir, svo verið ekkert að þessu þrasi.“ Út á þetta gengur þetta mál.

Eins og ég sagði í byrjum geta menn dundað sér við hugmyndir um að koma upp virku, fjölmennu og öflugu bankaeftirliti. Menn geta velt því fyrir sér að sameina banka, sameina t.d. Búnaðarbankann og Útvegsbankann. Hverju erum við nær með sameinuðum Búnaðarbanka og Útvegsbanka ef menn halda svona áfram? Menn eru kannske svekktir yfir því að þeir skyldu ekki geta lánað Hafskip svolítið meira, haft svolítið sterkari banka og stærri banka, eins og þeir segja og menn eru að segja hérna: „Það vantar stóran og sterkan banka sem getur uppfyllt þarfir fyrirtækjanna í landinu.“ Það er kannske eins gott að þeir séu litlir og máttlausir vegna þess að ég er ekki viss um að menn hafi hreinlega efni á því að hafa svona stóra banka, alla vega ef kerfið er svona. Niðurstaðan hlýtur að vera sú að það, sem fólkið í landinu hefur ekki efni á, er að gefa stjórnmálamönnum svona óútfyllta tékka, eins og það að ráða yfir banka. Þeir hafa sýnt að þeim er ekki treystandi til þess.

Rétt áður en ég vík frá þessum málum og lýk þessari ræðu minni ætla ég að ræða örlítið um hagsmunaárekstra. Menn hafa látið oftlega hingað til eins og umræður um þessa hagsmunaárekstra séu eins konar sérviska. Þó held ég að augu fólks og m.a.s. stjórnmálamanna séu að opnast fyrir þessum málum núna. Það er kannske vegna þessa stórkostlega dæmis sem við höfum þar sem hæstv. iðnrh. Albert Guðmundsson á sínum tíma var alþm., formaður bankaráðs og formaður stjórnar Hafskips. Nú er ég einungis að tala um tilteknar aðstæður, ég veit ekkert hvað hann gerði og hvort hann gerði eitthvað. En ég er að tala um aðstæður sem hvergi mundu þekkjast á byggðu bóli annars staðar í heiminum. (Gripið fram í: Í Afríku.) Kannske í Afríku en ég efast þó um það. Ég hugsa að menn fari í heimsmetabók Guinness fyrir slíkt og kannske á ráðherra eftir að komast í heimsmetabók Guinness sem meistari hagsmunaárekstranna.

Sem alþm. á maður væntanlega að gæta hagsmuna þjóðar. Sem formaður bankaráðs á maður væntanlega að gæta hagsmuna bankans, sparifjáreigenda - ekki má maður láta féð týnast, eyðileggjast. Sem formaður stjórnar Hafskips á maður að hugsa um hagsmuni fyrirtækisins, maður á að reyna að auka höfuðstól þess, eignir, hagnað þess og annað. Svo getur hver og einn dundað sér við að setja sjálfan sig í þessar aðstæður, vera ekkert að hugsa um hvernig hæstv. iðnrh. Albert Guðmundssyni hefur gengið það, hugsa sér það bara sjálfur.

Þetta er svo gegnumsmogin aðstaða að í fyrsta lagi fara ekki saman hagsmunir alþm. og bankaráðsformanns. Kannske einkum og sér í lagi vegna þess að gætinn og heiðarlegur alþm. er við þessar aðstæður undir óþolandi þrýstingi ýmist frá einstaklingum, flokkum, fyrirtækjum eða samtökum vegna þess að þau vita að hann getur, ef hann vill, gert ákveðna hluti. Þess vegna á ekki að setja gætna og heiðarlega menn í þessa aðstöðu. Það á að halda þeim frá svona aðstöðu. Ég tala nú ekki um ef ógætinn og óheiðarlegur maður kæmist í svona aðstöðu og mundi hreinlega nota sér þessa aðstöðu til að kaupa atkvæði óprúttinna. Ég þori ekki að hugsa um hvað gæti gerst þá. Ég vona og trúi að slíkt hafi aldrei gerst hér.

Hvað fyndist mönnum t.d. ef bankaráðs- og alþingismaður sæti hérna niðri á kaffistofu og rekti garnirnar úr bágstaddri konu til að staðreyna neyð hennar, hvort hún væri nægilega illa stödd til þess að hann ætti að útvega henni víxil og fullkomna svo auðmýkt hennar með því að segja: „Þú ert greinilega nógu illa stödd til þess að ég ætti að láta þig hafa víxil.“? Á alþm. á Alþingi Íslendinga að vera í svona aðstöðu?

Sumir mundu náttúrlega segja: „Þetta er gott hjá honum, gott að bjarga konum, gott að bjarga fólki sem er illa statt.“ Alþm. eiga bara ekkert að bjarga fólki á þennan hátt. Alþm. eiga að nota aðstöðu sína, áhrif sín og atkvæði til að skapa þjóðfélag sem verndar sjálfsvirðingu alls fólks, ekki eins og eins með því að pikka hann inn á kaffistofu einhvers staðar og bjarga hans málum prívat og persónulega.

Hagsmunaárekstrarnir eru jafnalvarlegir milli bankaráðsformanns og stjórnarformanns stærsta viðskiptavinarins. Viðkomandi gæti legið undir gífurlegum þrýstingi eða freistingu til að hygla fyrirtæki sínu. Hann á í þessu fyrirtæki, það eru eðlileg viðbrögð hans að vilja veg þess sem mestan, eignir þess sem mestar, arðinn sem mestan. Auðvitað gengur þetta ekki upp.

Er þá einhvern tíma hægt að kanna hvort hagsmunaárekstrar hafa átt sér stað? Það er ekki hægt. Málið er nefnilega að það verður ekkert hægt. Ef ekki eru lög sem koma í veg fyrir það að menn lendi í hagsmunaárekstrum þá verða hagsmunaárekstrar. Það er aldrei hægt eftir á að sanna að hagsmunaárekstrar hafi orðið vegna þess að menn koma þessum hagsmunum til skila með samtölum, með símhringingum eða á einhvern hátt, jafnvel í gegnum einhverja fulltrúa.

Síðan gætu menn sest niður og reynt að fá einhverjar upplýsingar og sagt: „Á meðan hann var stjórnarformaður þessa fyrirtækis og var í þessu bankaráði jókst fyrirgreiðslan fyrir þetta fyrirtæki.“ Það er engin sönnun. Fyrirtækið var kannske í eðlilegum vexti og fyrirtækið átti þá náttúrlega rétt á því að fá eðlilega fyrirgreiðslu. Það verður aldrei neitt sannað í sambandi við þessa hluti, ekki nema einhver stígi á stokk og vitni um að hann hafi verið fyrirgreiðslureddari og það mun enginn gera það. Þessu hafa allar viti bornar vestrænar þjóðir löngu gert sér grein fyrir og hafa þess vegna sett lög, ekki um rannsókn hagsmunaárekstra, þeir hafa sett lög til að hamla gegn hagsmunaárekstrum, til að koma í veg fyrir að menn lendi í þessari vondu stöðu.

Við hyggjumst leggja fram fyrir jól frv. til laga gegn hagsmunaárekstrum. Það er að nokkru leyti sniðið eftir kanadískri fyrirmynd sem hefur þá höfuðreglu að aldrei megi leika grunur á hagsmunaárekstrum vegna þess að grunurinn einn sé nógu slæmur. Það verður hver og einn samkvæmt þessum lögum, hvort sem hann er þingmaður, ráðherra eða embættismaður, að búa þannig um sín mál að ekki geti leikið nokkur grunur á um árekstur hagsmuna. Einungis þannig geta menn valdið þessu svo að vel sé.

Að þessum orðum sögðum hljóta menn að sjá að ég tel að ekki komi neinar upplýsingar fram um það þó að menn fari að reyna að skoða hvort orðið hafi hagsmunaárekstrar. Hagsmunaárekstrar eiga sér í eðli sínu stað í bakherbergjum eða einhvers staðar úti á bílastæðum. Þeir eru ekki til á skjölum, eru eitthvað sem menn skammast sín fyrir og þeir fara ekkert að játa það. Það verður ekkert sannað. Eina leiðin er að koma í veg fyrir það.

Herra forseti. Ég læt þá lokið ræðu minni. Ég legg áherslu á þessi atriði: Ég legg í fyrsta lagi áherslu á að ég tel að þinginu og ráðherra hafi verið ósómi sýndur með gögnum sem bankastjórn Útvegsbankans lagði hér fram í vor. Ég tel að svar bankastjórnarinnar við fsp. núna nýlega sé ófullnægjandi og ég mun íhuga þann möguleika, sem bent er á í athugasemd ríkislögmanns, að skrifa beint til saksóknara vegna þessa máls.

Í öðru lagi legg ég áherslu á að settar verði reglur gegn hagsmunaárekstrum til að koma í veg fyrir grun um slíkt.

Í þriðja og síðasta lagi legg ég áherslu á að við getum eflt bankaeftirlit, skattaeftirlit og sett upp alls konar eftirlitskerfi, en það er einungis eitt sem losar okkur undan þessu, þ.e. að taka peningastjórn í landinu undan pólitíkusum. Það er það eina sem getur bjargað þessu. Þá segi ég eins og Kató gamli: Þess vegna eigum við að láta ríkisbankana í hendur almenningshlutafélaga.