10.12.1985
Sameinað þing: 28. fundur, 108. löggjafarþing.
Sjá dálk 1291 í B-deild Alþingistíðinda. (997)

Viðskipti Hafskips og Útvegsbankans

Kristín S. Kvaran:

Hæstv. forseti. Það er auðvitað ekki réttnefni að kalla þetta mál sem hér er til umræðu utan dagskrár Hafskipsmál. Réttnefni yfir það er auðvitað Útvegsbankamálið. Og hjá því er ekki hægt að komast að taka það til að þar hefur Alberts þáttur Guðmundssonar, núv. hæstv. iðnrh., verið mjög stór og hann hefur oftlega komið við sögu þar í hinum ýmsu tilefnum. Ég vil þá í því tilefni, með leyfi hæstv. forseta, lesa hér upp úr bók, sem Gunnar Gunnarsson skrifaði um Albert Guðmundsson og heitir sú bók einfaldlega Albert. Þar skýrir Albert m.a. vegna hvers hann snerist gegn ríkisstjórn Gunnars Thoroddsens. Þar segir Albert:

„Það er oft erfitt að vera sjálfstæður. Ég hef ekki verið í stuðningsmannaliði ríkisstjórnarinnar og hef nú snúist gegn henni. Það atriði sem skiptir mestu máli fyrir mig varðandi breytta afstöðu til ríkisstjórnarinnar er það að ég varð formaður bankaráðs Útvegsbankans að beiðni ríkisstjórnarinnar og með samþykki Sjálfstfl. Og það er alveg sama hvaða ráð eða ábendingar ég hef gefið varðandi peningamál, sem eru stór liður í efnahagsmálum þjóðarinnar: ríkisstjórnin hefur aldrei tekið tillit til þess. Peningamálin eru í ólestri og það liggur á að taka þar til hendinni. Það er hreinlega eins og ráðvilltir menn séu að fálma eftir ráðstöfunum sem þeir viti ekki hverjar eigi að vera. Mennirnir sem standa fyrir þessum ráðstöfunum eru komnir á leiðarenda, þeir eru strand og vita ekki hvað til bragðs á að taka.

Ég næ ekki að gegna því hlutverki sem mér var ætlað sem bankaráðsformaður við þjóðbanka. Ríkisstjórnin hefur ekki sýnt mér það traust sem henni bar, ekki tekið það tillit til mín sem hún átti að gera. Þess vegna snerist ég gegn ríkisstjórninni.“

Hér hefur hæstv. núv. iðnrh. látið þess getið að hann hafi ekki fengið það olnbogarými sem hann vildi og hafði talið nauðsynlegt. Hvað vildi hann? Hvað vildi ráðherrann? Menn geta auðvitað í sjálfu sér rannsakað lagalega hlið þessa máls sem nú er komið upp en hæstv. ráðh. lendir örugglega á löppunum niður úr því. Hann kemur niður standandi rétt eins og hann er vanur að gera. Það þarf engan speking til þess að geta sér til um það að auðvitað hafa allir aðilar gætt þess að halda sig innan ramma laganna.

Það sem hins vegar skiptir mestu máli er siðferðið í þessu máli öllu saman. Vegna þess að þegar umrætt tímabil stóð yfir, þ.e. þegar hæstv. iðnrh. átti sæti sem formaður bankaráðs Útvegsbankans og var jafnframt stjórnarformaður Hafskips, þá gerist það að Útvegsbankinn stóreykur viðskipti sín við Hafskip. Gerði einhver af bankaráðsmönnunum athugasemdir við það að Útvegsbankinn stóreykur viðskipti sín við Hafskip? Gerði einhver af bankaráðsmönnunum athugasemdir við það? Eða gekk einhver af bankaráðsmönnunum úr skugga um það hvort til væru nægilegar tryggingar fyrir þessum stórauknu viðskiptum? Á þessum tíma stóreykur Útvegsbankinn, sem er ríkisbanki, viðskipti sín við fyrirtæki sem er að hluta til eign formanns bankaráðsins. Auðvitað geta viðskipti Útvegsbankans og Hafskips eða annarra slíkra fyrirtækja mjög vel farið saman, en það gera þau ekki alltaf, eins og glögglega hefur komið í ljós nú að undanförnu. Hæstv. iðnrh. Albert Guðmundsson gat auðvitað ekki gætt hagsmuna Útvegsbankans gagnvart Hafskip sem formaður bankaráðs og samtímis gætt hagsmuna Hafskips gagnvart Útvegsbankanum. Það fer bara ekki saman, það sér hver heilvita maður. Einn og sami maðurinn getur ekki samtímis verið hagsmunagæsluaðili fyrirtækisins og bankans, hvor aðilinn gagnvart hinum. Svo vaknar spurningin: Hafi bankaráðsformaðurinn ekki skipt sér af útlánunum gerði hann þá athugasemdir? Hvað gerði bankaráðsformaðurinn yfirleitt í bankaráðinu? Er bankaráðið ekki hæstiréttur bankans? Á það ekki að hafa eftirlit með því að allt sé í lagi og gera tillögur um að úrbætur verði gerðar hafi eitthvað farið úrskeiðis? Hvað höfðu bankaráðsmenn við þetta að athuga? Hvað höfðu þeir að athuga við þessi stórauknu viðskipti við fyrirtæki bankaráðsformannsins?

Það kann að vera rétt að á þessu og s.l. ári hafi ekki verið hægt að gera neitt. Bankinn var búinn að leggja allt sitt á eitt fyrirtæki og var að sjálfsögðu nauðbeygður til þess að ganga úr skugga um það hvort það rétti ekki úr kútnum. Auðvitað hlaut stjórn bankans að vega og meta hvort réttara væri, eins og málum var komið, að halda úti þessum viðskiptum og hve miklu bankinn tapaði væru viðskiptin stoppuð af og Hafskip látið fara á hausinn. Stjórnin hlýtur auðvitað að meta það hverju sinni. Það er engin ástæða til þess fyrir okkur að gera mönnum upp sakir fyrr en slíkt sannast. Þess vegna er auðvelt fyrir hæstv. iðnrh. að segja sem svo: Ég hef ekki haft neitt með þetta að gera. Það eru tvö ár síðan ég fór og allt var í besta gengi þegar ég skildi við. En reyndin er hins vegar sú að þá var bankinn þegar orðinn gjörsamlega háður afkomu þessa fyrirtækis.

Að mínu mati er engan veginn réttlætanlegt að saka hæstv. iðnrh. um lögbrot af neinu tagi, og ég verð að segja að ég yrði mjög undrandi ef það, sem sagt lögbrot, reyndist verða útkoman úr þessari rannsókn sem hann hefur beðið um. En verið er að minna á og draga fram í dagsljósið ákveðna siðblindu sem hann er ekki einn sekur um heldur og allur Sjálfstfl., þ.e. þeir sjálfstæðismenn sem samkvæmt því sem fram kemur í bókinni, sem ég vitnaði í áðan, studdu hann í þetta embætti vitandi ósköp og skelfing vel að staða hans þar gat auðvitað aldrei samræmst stöðu hans sem bankaformanns, staða hans annars í þjóðfélaginu.

Ég vitnaði fyrr, eins og kom fram áðan í máli mínu, í bókina þar sem Albert segir: „Það er alveg sama hvaða ráð og ábendingar ég hef gefið varðandi peningamál, það var ekki tekið tillit til þess.“ Hvaða ráð var hann að gefa varðandi peningamál sem ekki var tekið tillit til? Hvaða hlutverki náði hann ekki að gegna sem bankaráðsmaður sem hann vildi gegna? Hvað var það sem hann fékk ekki að gera en vildi samt gera? Þetta þyrfti að koma fram hér. Hvar brast traust ríkisstjórnarinnar, á hvaða sviði og af hvaða tilefni? Af hverju treysti ríkisstj. honum ekki? Hér er fólk inni sem að sjálfsögðu er mjög vel fært um að svara þessari spurningu sem hreinlega hrópar á svar. Það er fólkið sem þá var á Alþingi og við stjórn. Þess vegna er það að þetta mál er Útvegsbankamál en ekki Hafskipsmál, fyrst og fremst. Það er sá þáttur málsins sem okkur varðar beint sem þjóðkjörna alþm. vegna þess að það skiptir ekki meginmáli í þessu samhengi og er ekki innan okkar verksviðs hvort menn stofna fyrirtæki og setja það síðan á hausinn, bara svo lengi sem gjaldþrot þess er ekki farið að skipta verulegu máli fyrir buddu almennings.

Það sem skiptir meginmáli er hver ber skaðann og ekki skiptir minna máli hver var þess í raun og veru valdandi að hinn frægi litli maður í þjóðfélaginu á yfir höfði sér sérstakan skatt vegna þess skaða sem þessi tiltekni ríkisbanki hefur orðið fyrir vegna fyrst og fremst slælegs eftirlits og svo slævðrar dómgreindar þeirra sem að því leyti til bera sök á því hvernig komið er.

Það er auðvitað bráðnauðsynlegt að draga þá til ábyrgðar í þessu máli sem ábyrgðina bera þó ekki sé nema siðferðilega og pólitískt. Það ber bráða nauðsyn til að skipa rannsóknarnefnd og yfirheyra alla aðila tengda málinu og ná fram öllum þáttum málsins. Rannsóknarnefndin verður m.a. að athuga hvernig málin hafa þróast í þennan farveg. Þetta er þess vegna fyrst og síðast pólitísk spurning. Hún er pólitísk og hún er siðferðileg en hún er ekki lagaleg.

Ég efast nefnilega ekki um það eitt einasta andartak að lagakrókar hafi verið notaðir til hins ýtrasta í þessu sambandi á þann veg að allir sitja sléttir og felldir eftir. Menn passa sig auðvitað á svo sáraeinföldu atriði. Þess vegna biður auðvitað hæstv. iðnrh. um opinbera rannsókn á þessu máli hjá ríkissaksóknara. Það gerir hann vegna þess að hann veit sem er að þar stenst allt eins og stafur á bók hvað varðar lögfræðilegu hlið þessa máls. Þar fer fram rannsókn á því hvort hann hafi brotið lög eða ekki og það er eins víst og að ég stend hér að þar er hann á heimavelli og ekki kemur til með að reynast neitt athugavert við hans mál hvað lagalegu hliðina varðar. Þá yrði ég fyrst verulega undrandi ef svo færi. Þetta er sem sagt spurning um pólitískt og siðferðilegt uppgjör. Lagaþrætur í þessu sambandi eiga alls ekki við.

En athyglisvert er að blöð erlendis sem fjallað hafa um þetta mál fjalla nær einungis um þann þátt sem snýr að bankanum og stjórn hans. Í Aftenposten, norsku blaði, segir t.d. 2. desember, með leyfi forseta, og þá í lauslegri þýðingu minni: „Nú spyrja menn sig, bæði á Alþingi og í hinum íslenska fjármálaheimi, hvernig hægt hafi verið að halda bankanum á bak við tjöldin allan þennan tíma.“ Þar er einnig tekið fram að ljóst sé að það verði auðvitað skattgreiðendur sem verða að standa undir hinu stórkostlega tapi. Bankinn verði ekki gerður gjaldþrota vegna þess að tapið verði greitt af ríkinu. Þá er í þessari frétt tekið til að mjög virtur lögfræðingur í Reykjavík haldi því fram að a.m.k. einn málsaðila ætti nú þegar að vera kominn í fangelsi ef þessi skandall eða hneyksli hefði átt sér stað á einhverju hinna Norðurlandanna.

Áfram segir í þessari sömu grein að hæstv. iðnrh. sé dæmi um aðalforsprakkann í hneykslinu en hann, eins og blaðið segir, var formaður bæði í stjórn bankans og Hafskips sem nú er gjaldþrota. Þetta er það fyrsta og eina sem erlendir blaðamenn sjá sem virkilega athugavert. Herra forseti, það er vegna þess að í þeirra löndum er það nánast óhugsandi að slíkt og þvílíkt eigi sér stað.

Þetta er einnig réttlætismál fyrir almenning í landinu vegna þess að það lítur úr fyrir að hann eigi að greiða þessa reikninga og þess vegna er nauðsynlegt að hinn almenni borgari og launamaður fái ítarlega vitneskju um það hvernig þetta hafi getað átt sér stað. Mér er spurn hvort hæstv. iðnrh. hafi engar athugasemdir við það hvers vegna Útvegsbankinn lagði allt sitt svona á eitt fyrirtæki á þeim tíma sem hann var bankaráðsformaður og heldur ekki aðrir bankaráðsmenn. Þó svo að bankaleynd ríki þá ríkir auðvitað engin bankaleynd lengur yfir þessu máli. Það hefur komið fram í máli hæstv. forsrh., en það er auðvitað heldur ekki réttlætanlegt að svo sé. Þetta er orðið opinbert mál og menn verða að gjöra svo vel að tjá sig um það hvernig í ósköpunum þetta gat átt sér stað.

Hafskipsmál, það er það sem hefur dunið hér yfir okkur í dag. Menn hér, hv. alþm., eru duglegir við að ítreka að þetta sé alfarið mál Hafskips, en það þýðir bara ekkert fyrir hv. pólitíkusa hér að vera að skemmta sér yfir því að draga fram t.d. að einhverjir fulltrúaráðsmenn í Sjálfstfl., sem oft eru teknir til, eigi sæti í stjórn Hafskips og séu hluthafar í Hafskip. Það getur vel verið að það komi fram við rannsókn þessa máls að þar hafi ekki allt verið sem skyldi, en með því að draga fram þessa þætti málsins eru þeir einungis að beina athyglinni að fyrirtækinu Hafskip og þar með frá eigin hlutdeild í málinu sem þeir eiga óneitanlega í gegnum bankaráðsfulltrúa flokka sinna. Þetta er fyrst og fremst spurning um siðferði og pólitíska siðblindu. Þess vegna verður að yfirheyra allt þetta fólk, alla þá aðila sem hlut eiga að máli, alla bankaráðsmennina, alla bankastjórana, ekki samt af ríkissaksóknara. Það þarf að gerast fyrir opnum tjöldum af rannsóknarnefnd Alþingis, og sú rannsókn þarf ekki fyrst og fremst að beinast að hinum lögfræðilega grunni, eins og ég hef komið að hér áður, heldur að hinum siðferðilega og pólitíska grunni sem er nauðsynlegur og þarf til þess að upplýsa málið.