20.10.1986
Efri deild: 4. fundur, 109. löggjafarþing.
Sjá dálk 169 í B-deild Alþingistíðinda. (100)

24. mál, lánsfjárlög 1987

Helgi Seljan:

Virðulegi forseti. Já, það er rétt hjá hv. 9. þm. Reykv. að þessar umræður eru orðnar allsérkennilegar. Það er kominn kosningatitringur í þá framsóknarmenn og eftir sæta sambúð þessara ára lofar þetta góðu um veturinn, það gæti orðið líflegt og fjörugt og sambúðarerfiðleikar, a.m.k. á yfirborðinu, fluttir inn í þingsali öðru hvoru og ekki höfum við í stjórnarandstöðunni nema allt gott um það að segja að fá svolítið líf í það því að satt að segja hafa þeir svo samdauna verið á síðustu árum að við höfum alls ekki áttað okkur á því hvor var hvor.

Mér þótti það satt að segja dálítið undarlegt hjá hæstv. fjmrh. að tala um útvarpsfrelsið, það hefði til komið eingöngu vegna kapalstöðva úti á landsbyggðinni. Ég verð að segja að mér finnst illa vegið að landsbyggðarmönnum að kenna þeim um þetta vegna kapalstöðva sem auðvitað voru ólöglegar á þeim tíma og hefðu átt að meðhöndlast á þann hátt. En mér finnst enn þá verr vegið að postulum frjálshyggjunnar í Sjálfstfl. að leyfa þeim ekki að eiga einhvern heiður af útvarpsfrelsinu, að hafa þrýst þessu útvarpsfrelsi í gegnum Alþingi. Ég spyr: Hvers á einn af sigurvegurum prófkjörsins hjá Sjálfstfl. í Reykjavík, Guðmundur H. Garðarsson, að gjalda? Það var talin ein höfuðprýði hans í þessu prófkjöri að hann hefði komið frjálsu útvarpi í gegnum Alþingi. Svo segir hæstv. fjmrh. að það sé alls ekki honum að þakka eða öðrum, heldur kapalstöðvum úti á landsbyggðinni.

En þetta er kannske meira til að gera sér til gamans vegna þess að hæstv. fjmrh. er í greinilegri þröng í þessu máli vegna ákveðinna yfirlýsinga sem hann vill gjarnan draga í land með en treystir sér kannske ekki almennilega til, ekki síst þegar viðbrögð samstarfsflokksins eru orðin óvenjulega hörð miðað við hvað mjúk lending hefur ævinlega orðið þar ofan á síðustu árum.

Ég skal taka undir það með hæstv. fjmrh., svo ég snúi mér að málefnum fatlaðra, að uppbygging í þeim málaflokki hefur verið býsna mikil og margt verið vel gert. Ég held að fáir hafi tíundað ýmislegt af því betur hér á Alþingi en ég þó ég hafi um leið bent á ákveðna skerðingu í þessum efnum. Ég vil þó vekja athygli á að samkvæmt þeirri skýrslu sem ég hef undir höndum og unnin er m.a. í tengslum við starfsmenn hæstv. fjmrh. í Fjárlaga- og hagsýslustofnun hefur aukning á framkvæmdum í þessum málaflokki síður en svo orðið meiri en í öðrum málaflokkum félagslegrar þjónustu. Ég bendi t.d. á það, sem kemur fram í þessari skýrslu, að þessi málaflokkur, málefni fatlaðra, hefur ekki orðið betur úti en það að orðið hefur miklu meiri aukning í málaflokkum eins og bæði dagvistarheimilum og elliheimilum á þessum tíma og þykir mönnum þó ekkert ofgert í þeim málum. Það kom mér einnig á óvart hvað þessi málaflokkur hafði í raun og veru orðið illa úti í þessari aukningu á síðustu árum þrátt fyrir það sem gert hefur verið.

Aðeins til skýringa á þessu segir hér í skýrslunni varðandi fimm síðustu árin, 1980-1985, sem ég tók alveg sérstaklega fyrir vegna Framkvæmdasjóðsins, því að þá kemur hann til sögunnar og fer að fjármagna framkvæmdirnar, að „á fjárlögum 1985 er til þjónustu og stofnana, sem voru til fyrir 1980, 138 millj. kr., en til nýrra stofnana og þjónustu, sem hafa orðið til á tímabilinu 1980-1985, 116 millj.“ Breytingin á þessum tíma varðandi nýjar stofnanir og nýja þjónustu er ekki nema 84%, því miður. Þó að við höfum talið okkur halda nokkuð vel á spöðunum í þessum efnum og orðið hafi gerbylting frá því sem var fyrir 1980, en þar er auðvitað breytingin mest.

Ég lýsi vonbrigðum mínum með það að ég gat ekki skilið hæstv. fjmrh. öðruvísi en svo að hann treysti sér ekki til þess að stuðla að því að hluti af þessu fé rynni í Framkvæmdasjóð fatlaðra heldur ætlaði ríkissjóði það eingöngu og treysti honum þá til þess, ef það getur ekki orðið með þessum hætti, að auka verulega við fjárlagaafgreiðsluna núna við framkvæmdafé Framkvæmdasjóðs fatlaðra á næsta ári því þar með getur hann bætt fyrir það sem hann treystir sér ekki til að gera nú.