26.11.1986
Neðri deild: 15. fundur, 109. löggjafarþing.
Sjá dálk 1177 í B-deild Alþingistíðinda. (1015)

158. mál, tekjuskattur og eignarskattur

Svavar Gestsson:

Herra forseti. Ég ræddi um þessi mál á síðasta fundi hv. deildar þegar fjallað var um frv. til laga um breytingu á lögum um tekju- og eignarskatt og hef í sjálfu sér ekki miklu við það að bæta sem ég sagði þá, þrátt fyrir þá ræðu sem hæstv. fjmrh. flutti hér. Það sem liggur fyrir af þeim gögnum sem ég kynnti og hann fór svo nánar yfir er það að skattbyrði þyngist á árinu 1987 á einstaklingum miðað við árið 1985, þyngist úr 3,9% af tekjum upp í 4,6% af tekjum. Þetta liggur fyrir í staðfestu skjali frá Þjóðhagsstofnun sem hæstv. fjmrh. gerði enga sérstaka athugasemd við.

Þá liggur það einnig fyrir í sama skjali að beinir skattar frá því að ríkisstjórnin tók við eða frá 1982 til 1987, en það er sá tími sem hæstv. ráðh. vill gjarnan miða við, lækka ef þetta frv. verður að veruleika um samtals 300 millj. kr. að raungildi. Þannig að ef þetta frv. hefði ekki verið flutt og yrði ekki samþykkt yrðu beinir skattar á árinu 1987 óbreyttir miðað við árið 1982.

Ég tel ekki ástæðu til þess að ræða þessi efnisatriði frekar. Ég vil vekja athygli á því að vísu að hæstv. fjmrh. kvartaði mjög undan því að stjórnarandstaðan hefði verið með kröfur um það að ofteknum sköttum s.l. sumar yrði skilað aftur. Ég hygg að sá maður sem setti fram harðastar kröfur og mest áberandi í þeim efnum hafi verið hv. 2. þm. Reykn. Það er sérkennileg aðferð sem hæstv. fjmrh. hefur yfirleitt þegar hann er að finna að við flokksbræður sína og flokkssystkini að skamma einhvern úr stjórnarandstöðunni. Þetta er gamalkunn aðferð sem hann hefur iðulega beitt og gerði. Hann húðskammaði í raun og veru hv. 2. þm. Reykn., að vísu undir dulnefnum, á síðasta fundi hv. deildar þegar fjallað var um þessi mál.

Hæstv. fjmrh. taldi að hér væri ekki um að ræða verulegar breytingar á skattakerfinu en hv. 2. þm. Reykn. taldi hins vegar ástæðu til að bæta um betur og sagði að hér væri um verulegar og tímabærar breytingar að ræða á skattakerfinu. Þannig að sá heilaþvottur sem hæstv. fjmrh. hefur beitt sér fyrir í þingflokki Sjálfstfl. hefur bersýnilega borið þann árangur að hv. 2. þm. Reykn. er ánægðari með þá litlu skattkerfisbreytingu sem hér er gerð tillaga um en hæstv. fjmrh. og er þá langt til jafnað.

Varðandi þessi mál að öðru leyti vil ég aðeins vekja athygli á því að síðan við ræddum þetta mál síðast hefur það gerst að það hafa farið af stað viðræður verkalýðshreyfingarinnar og atvinnurekenda. Aðilar vinnumarkaðarins hafa skrifað ríkisstjórninni út af tilteknum atriðum og m.a. hafa þessir aðilar verið að fjalla sérstaklega um skattamál. Alþýðusambandið fjallaði um skattamál sérstaklega á fundi sínum núna um síðustu helgi og þar er um að ræða alveg ákveðnar tillögur í skattamálum. Hæstv. fjmrh. hefur lýst því yfir í viðtölum við fjölmiðla að hann telji þetta athyglisverðar tillögur og að hann vilji í raun og veru gera sitt til þess að koma til móts við þær tillögur sem þar eru settar fram.

Með þessu móti er hæstv. fjmrh. auðvitað að segja það sem ég benti á á síðasta fundi deildarinnar að þetta frv. sem hér liggur fyrir, 158. mál Nd., er út af fyrir sig markleysa vegna þess að það eru önnur og stærri skattamál sem þarf að afgreiða hér næstu daga. Og ég endurtek það sem ég sagði síðast að ég mun fyrir mitt leyti beita mér fyrir því að hv. fjh.- og viðskn. fái þessar skattatillögur verkalýðshreyfingarinnar inn á sitt borð þannig að það sé hægt að taka á þessu máli í heild vegna þess að það er mikið stærra og þýðingarmeira mál en þetta klór sem í þessu frv. felst sem gerir sem sagt ráð fyrir þeirri stefnu, sem hæstv. ráðh. hefur fylgt, að skattar hækki frá því sem var a.m.k. í tíð forvera hans í fjmrn.

Ég vil ítreka það sem ég sagði um daginn að það er nauðsynlegt að taka á frádráttarmálunum í skattakerfinu. Ég hef, herra forseti, aflað mér upplýsinga um það hverju frádrættirnir nema í framtölum einstaklinga á árinu 1986 og það eru satt að segja býsna fróðlegar tölur. Það kemur fram að fram talinn frádráttur, kostnaður á móti ökutækjastyrkjum, er samtals yfir 1 milljarður kr., 1030 millj. kr. Vafalaust er það svo að í sumum tilvikum og mörgum er hér um það að ræða að menn hafa lagt raunverulega út kostnað við akstur. En við vitum að í fjölmörgum fyrirtækjum er ökutækjastyrkurinn notaður sem launauppbót. Og þegar þessi tala er komin upp í 1000 millj. kr., bara í ökutækjastyrk á árinu 1986, og þegar gera má ráð fyrir að hefði þessi tala verið skattlögð hefði hún gefið ríkinu 300-350 millj. fær þessi tala mann óneitanlega til að staldra við og spyrja: Er ekki óhjákvæmilegt að takmarka þetta þannig að það séu settar hömlur við því hvað menn geta í raun og veru talið mikið fram sem ökutækjastyrk og fengið það svo dregið frá kostnaðarmegin á skattaframtalinu sínu?

Það er einnig athyglisvert í þessum upplýsingum sem ég hef aflað mér að vaxtagjöld til frádráttar eru hvorki meira né minna en 21/2 milljarður kr., þ.e. heildarvaxtagjöld til frádráttar. Ef við skattleggjum það með svipuðum hætti og ég nefndi varðandi ökutækjastyrkinn er þar um að ræða tölu upp á eins og 800 millj. kr. eða svo. Ég held að þetta mál eigi líka að taka til sérstakrar endurskoðunar. Mér er kunnugt um að það var rætt í sambandi við húsnæðisframlög að ákveða upphæð húsnæðisframlaga með hliðsjón af tekjutapi ríkissjóðs vegna vaxtagjalda. Mér sýnist að þarna sé komin mjög veruleg tala, sennilega upp á 800 millj. kr. ef þetta væri skattlagt með venjulegum hætti.

Ég vil einnig vekja athygli á öðrum frádráttarliðum sem hafa komið inn í skattaframtölin á seinni árum, eins og t.d. frádráttarlið vegna fjárfestingar í atvinnurekstri. Það eru 913 einstaklingar sem draga frá vegna fjárfestingar í atvinnurekstri 37,9 millj. kr. Og arður af hlutabréfum skilar frádrætti upp á 58,9 millj. kr. Arður af stofnsjóði samvinnufélaga skilar aftur 2,8 millj. kr. Frádráttarliðirnir eru sem sagt samtals upp á marga milljarða kr. og það er bersýnilegt að ef menn ætla sér að taka á þessu skattakerfi og breyta því verður að fara yfir þessa frádráttarliði mjög rækilega. Þeir flækja líka myndina og ef á þeim væri tekið skapar það aukasvigrúm til að hækka skattfrelsismörkin mjög verulega.

Í framhaldi af þessu vil ég vekja athygli þingheims á því að þó að þetta ítarlegar upplýsingar liggi fyrir um frádrætti einstaklinga, lið fyrir lið, þar sem þetta er allt tölvutækt og tölvukeyrt liggja upplýsingar um frádráttarliði fyrirtækjanna ekki fyrir. Ég vil inna hæstv. fjmrh. eftir því hvort hann sé tilbúinn til að beita sér fyrir því að útvega þingnefndinni upplýsingar um frádráttarliði fyrirtækja - við höfum hér allar tölur um frádráttarliði einstaklinganna - og hvað þeir þýða í tekjutapi fyrir ríkissjóð. Upplýsingar um það liggja ekki fyrir. Hvað þýðir t.d. í tekjutapi fyrir ríkissjóð heimildin til að færa niður 5% útistandandi viðskiptaskulda í árslok? Hvað þýðir það fyrir ríkissjóð að heimilt er að draga frá tekjum sem samsvarar 10% af matsverði vörubirgða í árslok? Hvað þýða fyrningarákvæði skattalaganna í þessum efnum? Hversu mikil risnuútgjöld draga fyrirtæki frá í kostnaði við rekstur sinn hér á landi áður en talið er fram til skatts? Ég held að það væri mjög mikilvægt ef hæstv. fjmrh. vildi beita sér fyrir því að þessara upplýsinga um frádráttarliði fyrirtækjanna verði aflað þannig að hægt sé að átta sig á því hvað það er í raun og veru mikið sem fyrirtækin sleppa við að borga vegna þessara frádráttarákvæða skattalaganna.

Ég tel, herra forseti, að ég hafi nefnt þau atriði sem ástæða er til að fara yfir á þessu stigi málsins. Ég óskaði eftir upplýsingum um frádráttarliði fyrirtækjanna. Ég hef lýst því yfir að ég mun óska eftir því að hugmyndir Alþýðusambands Íslands og verkalýðshreyfingarinnar komi inn á borð þingnefndar þegar um þessi mál verður fjallað og ég hef bent á þær tölur sem Þjóðhagsstofnun sendi frá sér um raunverulegar skattabreytingar frá því að þessi ríkisstjórn tók við.

Mér sýnist augljóst mál að þetta frv. sem hér liggur fyrir muni í rauninni ekki breyta mjög miklu vegna þess að menn hljóti þegar næstu sólarhringa að staldra við mikið víðtækari skattalagabreytingar en hér eru gerðar tillögur um.