26.11.1986
Neðri deild: 15. fundur, 109. löggjafarþing.
Sjá dálk 1190 í B-deild Alþingistíðinda. (1018)

158. mál, tekjuskattur og eignarskattur

Kristín Halldórsdóttir:

Herra forseti. Í umræðum um þetta frv. á síðasta fundi deildarinnar kom fram að Kvennalistinn hefði aðrar hugmyndir um það hvernig áður boðuð 300 millj. kr. tekjuskattslækkun ríkissjóðs gæti dreifst á skattgreiðendur, hverjum hún skuli nýtast best og á hvern hátt, og ég boðaði brtt. Kvennalistans við þetta frv. Þær brtt. hafa nú birst hér á borðum þm. og því ætla ég að skýra þær með örfáum orðum. Þær er að finna á þskj. 210 og eru fluttar af hv. þm. Kristínu Ástgeirsdóttur ásamt mér.

Í 1. lið á þessu þskj. er um það að ræða að 2. tölul. b-liðs 30. gr. falli brott. En sá liður fjallar um undanþágu vegna arðs af hlutabréfum. Brtt, okkar þýðir því einfaldlega að arður af hlutabréfum yrði skattlagður til fulls. Þar með væri afnumið það óréttlæti að hluti þjóðarinnar hefur nú möguleika á að njóta verulega mikilla skattfrjálsra tekna.

Ég gerði tilraun til þess að fá það nokkuð nákvæmlega upp gefið hvað þetta mundi hafa mikinn tekjuauka í för með sér fyrir ríkissjóð. Það reyndist töluverðum erfiðleikum háð en gróflega áætlað gætu það verið 15-20 millj. kr. Þetta er í rauninni aðeins eitt dæmi um þær undanþágur sem sjálfsagt er að afnema þótt við gerum ekki till. um fleira í þeim dúr í þetta sinn.

2. liður brtt. felur það í sér að hækkun skattþrepa verði í samræmi við tekjubreytingu á milli ára en ekki umfram það. Enn fremur að skattprósentan í efsta þrepi skattstigans lækki ekki frá því sem nú er.

Í 3. lið leggjum við svo til að barnabætur hækki um 42% í stað 15% eins og hefði orðið ef miðað hefði verið við tekjubreytingu milli ára. Ríkisstjórnin leggur hins vegar til 20% hækkun. Ef þessar till. okkar fást samþykktar verða barnabætur með fyrsta barni 15 000 kr. á ári í stað 12 250 kr. samkvæmt frv. ríkisstjórnarinnar og 22 500 kr. með hverju barni umfram eitt í stað 18 350 kr. samkvæmt frv. Barnabætur með börnum einstæðra foreldra verða þá 30 000 kr. með hverju barni í stað 24 500 kr. samkvæmt frv. og bætur með börnum yngri en 7 ára í lok tekjuársins 15 000 kr. umfram í stað 12 250 kr. samkvæmt frv.

Í 4. lið er svo gerð till. um breytingu á 6. gr. frv. um sérstakan barnabótaauka og næmi hann óskertur samkvæmt till. Kvennalistans 30 000 kr. í stað 24 500 kr. samkvæmt frv. ríkisstjórnarinnar.

Mér finnst rétt að undirstrika það rækilega að till. Kvennalistans breyta ekki heildardæminu. Það er ekki innifalin í þessu sú breyting sem yrði á tekjum ríkissjóðs, sú breyting sem fælist í 1. lið brtt. okkar. Lækkun tekjuskattstekna ríkissjóðs verður eftir sem áður 300 millj. kr. Þetta er aðeins spurning um það hverjum sú lækkun á að nýtast og á hvern hátt.

Herra forseti. Ég sé ekki ástæðu til að hafa fleiri orð um þessar till. en vísa þeim hér með til umfjöllunar hv. fjh.- og viðskn.