26.11.1986
Neðri deild: 15. fundur, 109. löggjafarþing.
Sjá dálk 1191 í B-deild Alþingistíðinda. (1019)

158. mál, tekjuskattur og eignarskattur

Jón Baldvin Hannibalsson:

Herra forseti. Ég hef þegar talað tvisvar í þessum umræðum og kem því hér upp aðeins til þess að bera af mér sakir sem fluttar voru í þeirri „Blöndælu“ um skattamál sem við heyrðum hér áðan.

Fyrsta ásökunin var sú að Alþfl. hefði þá fyrst flutt till. um lækkun tekjuskatta þegar hann var kominn í stjórnarandstöðu. Þá sögufölsun vil ég leiðrétta. Það var eitt fyrsta verk viðreisnarstjórnar að lækka tekjuskatta mjög verulega bæði út frá sjónarmiðum skattbyrði sem og sem hlutfall ríkistekna.

Annað ásökunarefnið varðaði ýmsar vafasamar stjórnarathafnir ríkisstjórnar Ólafs Jóhannessonar frá árinu 1978-79. Um þá ríkisstjórn hef ég það eitt að segja að ég tel hana hafa verið pólitískt umferðarslys og ber á henni enga ábyrgð.

Þriðja ásökunarefnið var að það stæði upp á formann Alþfl. að útskýra með hvaða hætti hann vildi afla tekna og hafa ríkissjóð í jafnvægi til þess að standa undir útgjöldum þeim sem þm. Alþfl. aðrir kynnu að hafa flutt. Í því efni vísa ég hv. þm. Halldóri Blöndal til þess að kynna sér rækilega 75 brtt. okkar Alþýðuflokksmanna við seinustu fjárlög þar sem það dæmi er allt skilmerkilega útreiknað.

Í fjórða lagi var það ásökun um að ég hefði á sínum tíma gert athugasemdir við að skattfrelsismörk í eignarskatti væru hækkuð, með vísan til till. sem við höfum flutt. Þær till. snerust um það einmitt þvert á móti að við gerðum þar ráð fyrir því að skattfrelsismörk í stigbreytilegum eignarskatti í þremur þrepum væru hækkuð mjög verulega að því er varðar skuldlausa eign upp að vissu tekjumarki, þetta var allt saman miðað við verðlagsforsendur á árinu 1986, sem hefði leitt til þess að skattbyrði í eignarskatti venjulegrar fjölskyldu hefði lækkað og þá miðað við þær verðlagsforsendur um 76 millj. þegar við tökum tillit til þess að heildarálagning var, ef ég man rétt, eitthvað aðeins innan við milljarð.

Þetta eru svona þær helstu athugasemdir sem ég vildi gera við „Blöndælu“ að svo stöddu.