26.11.1986
Neðri deild: 15. fundur, 109. löggjafarþing.
Sjá dálk 1192 í B-deild Alþingistíðinda. (1020)

158. mál, tekjuskattur og eignarskattur

Fjármálaráðherra (Þorsteinn Pálsson):

Herra forseti. Vegna ummæla þeirra fóstbræðra hv. 3. þm. Reykv. og hv. 5. þm. Reykv. vil ég gera örfáar athugasemdir og draga fram skýrar staðreyndir um breytingar á skattbyrði.

Það liggur fyrir í þeim gögnum sem vitnað hefur verið til frá Þjóðhagsstofnun að skattbyrði hefur lækkað á tíma þessarar ríkisstjórnar úr 6,1% af þjóðarframleiðslu niður í 4,6%. Skattbyrðin er þannig fjórðungi léttari en hún var þegar þessi ríkisstjórn kom til valda. Þetta er augljóst, liggur fyrir skjalfest. Auðvitað er það svo, eins og áður hefur komið fram í þessum umræðum, að hlutfall skattbyrði miðað við þjóðarframleiðslu er ekki hárnákvæmur mælikvarði vegna þess að verðbólga og breytingar á kaupmætti, sem ekki eru fyrirséðar, geta haft áhrif þar á. Þess vegna m.a. varð skattbyrðin lægri 1985 en að var stefnt með setningu fjárlaga og þess vegna má líka finna dæmi úr tíð fyrri ríkisstjórnar þar sem skattbyrðin var verulega hærri en 6,1%. En það er ekki sanngjarnt að vitna endilega til þess sem hæst var á tímum þeirrar ríkisstjórnar. Hér um liggja fyrir skýrar tölur. Það liggur líka fyrir að ef stuðst hefði verið við skattalög óbreytt með öllu frá því sem var í tíð fyrri ríkisstjórnar, þá væru tekjur ríkissjóðs nú 2700 millj. kr. hærri en þær eru. Skattalækkanir í heild hafa þannig numið 2700 millj. kr. Þar af um 1100 millj. kr. í tekjuskatti og barnabætur væru 350 millj. kr. lægri ef enn væri stuðst við þau skattalög og þær skattareglur sem í gildi voru í tíð fyrri ríkisstjórnar. Það liggur líka fyrir að hjón með tvö börn verða að meðaltali skattfrjáls hafi þau 70-80 000 kr. í tekjur á mánuði á þessu ári eftir að það frv. hefur verið samþykkt sem hér er til umræðu. Því verður auðvitað ekki á móti mælt að með þessu hafa verið stigin veruleg skref í þá veru að afnema tekjuskatt af almennum launatekjum þegar þessar staðreyndir liggja fyrir.

Hv. 3. þm. Reykv. innti eftir því hvort fjmrn. mundi láta af hendi upplýsingar um frádráttarliði atvinnufyrirtækja í störfum nefndarinnar. Að sjálfsögðu verður nefndinni séð fyrir þeim upplýsingum sem handhægar eru og fyrir liggja um þau efni. En ég vil mótmæla því að hækkun skatta á atvinnufyrirtæki muni endilega þýða að tekjur ríkissjóðs aukist að sama skapi. Það á sama við um atvinnufyrirtæki og einstaklinga í þessu efni. Óhóflega háir skattar lama framtak manna til nýrrar atvinnustarfsemi, til þess að takast á við ný verkefni í atvinnufyrirtækjum. Óhóflega háir skattar á einstaklinga lama vilja manna til þess að vinna og afla tekna. Þannig að það er auðvitað ekki endalaust hægt að hækka tekjur ríkisins með því að hækka tekjuskatta. Það er mikill misskilningur.

Hv. 5. þm. Reykv., formaður Alþfl., hélt hér mjög kynduga ræðu. Það er nú einhvern veginn svo að það er fátt sem upp kemur í þjóðfélaginu sem Alþfl. telur ekki að hann hafi verið upphafsmaður að og fundið upp. Nú hefur formaður Alþfl. lýst því yfir að í raun og sannleika hafi það verið Alþfl. sem hafi fundið upp hugmyndafræði Reagans Bandaríkjaforseta og keyrir þá um þverbak í þeim málflutningi. En það var athyglisvert að formaður Alþfl., hv. 5. þm. Reykv., sagði að Alþfl. hefði fundið upp þær skattaumræður og skattahugmyndir, sem nú eru mest til umræðu, snemma á síðasta áratug. Í bráðskemmtilegum sjónvarpsþætti í gærkvöldi lýsti hann því yfir, varðandi setu Alþfl. í ríkisstjórn Ólafs Jóhannessonar 1978-79, að Alþfl. hafi þá fyrst hlaupið út úr þeirri ríkisstjórn þegar gengið var gegn meginhugmyndum Alþfl. Þá fyrst hefði Alþfl. hlaupið út. Hann hefði setið í þeirri ríkisstjórn meðan farið var að meginhugmyndum Alþfl. En nú hefur verið á það minnt hér í þessari umræðu að það var fyrsta verk þeirrar ríkisstjórnar að leggja skatta á með afturvirkum hætti, ekki að lækka tekjuskatta heldur að hækka þá með afturvirkum hætti. En Alþfl. gekk ekki frá því stjórnarsamstarfi af þeim sökum. Nei, það var meira en heilu ári seinna að gengið var fyrst gegn meginhugmyndum Alþfl.

Hvernig eiga menn að treysta þeim mönnum, sem tala með þeim hætti.sem hv. 5. þm. Reykv. gerir hér, þegar reynslan sýnir hvernig þeir hafa staðið að verki þegar þeir hafa farið með ábyrgð á stjórn landsmála? Auðvitað treysta menn ekki svona málflutningi þegar reynslan sýnir allt annað. Hvernig eiga menn að treysta því þegar Alþfl. talar um það að nú eigi að stórlækka skatta þegar önnur hver ræða, sem flutt er hér á vegum Alþfl., gengur út á það að stórauka ríkisútgjöld.

Það var gott að formaður Alþfl., hv. 5. þm. Reykv., skyldi minna hv. 2. þm. Norðurl. e. á tillögur Alþfl. við afgreiðslu fjárlaga á síðasta ári. Það var býsna gott að hann skyldi gera það í þessu sambandi. En eins og rakið hefur verið og nokkrum sinnum minnt á, þá fólu þessar tillögur í sér að halli á ríkissjóði hefði aukist um 500 millj. kr., að þegar allt var dregið saman þá höfðu ríkisútgjöldin aukist um 500 millj. kr. Það átti að auka tekjur ríkissjóðs með því að breyta söluskattskerfinu. Um hátt í 3000 millj . kr. átti að auka tekjur ríkissjóðs með breyttu söluskattskerfi. Svo kemur formaður Alþfl. hér upp og segir: Virðisaukaskattsfrv. er ómögulegt vegna þess að það á að taka inn allt of miklar tekjur með þessu frv. Sjálfur hefur hann lagt til að taka inn tæplega 3000 millj. kr. í auknum tekjum með því að breyta söluskattskerfinu.

Hvernig á nú að treysta mönnum sem hlaupa svona til og frá þegar þeir skipta um frá einni ræðu til annarrar? Auðvitað verður það ekki gert.