27.11.1986
Sameinað þing: 22. fundur, 109. löggjafarþing.
Sjá dálk 1208 í B-deild Alþingistíðinda. (1038)

180. mál, stefnumótun í umhverfismálum

Skúli Alexandersson:

Herra forseti. Ég tek undir það sem hefur komið fram hjá hv. þm. að sjálfsagt er ekki neinn skoðanaágreiningur í sambandi við þessi mál hér á hv. Alþingi. Trúlega er þetta þannig, eins og hv. 7. landsk. nefndi hér áðan, að það stafar fyrst og fremst af ósamkomulagi og samstöðuleysi innan ríkisstjórnarinnar að málin liggja ekki fyrir til samþykktar.

Við gerum okkur sjálfsagt fleiri grein fyrir því en þær Kvennalistakonur að þessi mál eru í hrærigraut og það hefur verið staðfest með ræðum þm. Á svipaðan máta tel ég að það sem verið er að reyna að gera í þessum málum sé meira og minna handahófskennt.

Frummælandi nefndi hér í upphafi ræðu sinnar tvö slys, tvö stórkostleg mengunarslys sem urðu á síðasta sumri, þ.e. Chernobyl-slysið og slys í sambandi við kafbát í Suður-Atlantshafi. Kafbátsslysið er kannske ekki orðið mengunarslys enn þá en það var nú það slysið sem kom mér hingað upp í ræðustól núna til að minna á þann þátt sem blasir við okkur Íslendingum ef kjarnorkuslys á sér stað í hafinu í námunda við okkur og hvernig við erum búin undir það að gera okkur grein fyrir því hvort slíkt sé nokkuð að ske. Við vorum illa undir það búin að hefja mælingar í sambandi við Chernobyl-slysið. Það leið þó nokkuð langur tími þar til úr því varð skorið hvort mengun hefði komið yfir landið. Og ég geri ráð fyrir að við séum enn þá verr búin undir það að gera okkur grein fyrir hvernig ástandið er umhverfis landið. Það yrði mjög illbætanlegt slys ef við fengjum yfir okkur svipaða mengun eins og átti sér stað í norðurhluta Skandinavíu í sambandi við Chernobylslysið. En hvers lags óskaplegt slys mundi eiga sér stað ef hér yrði kjarnorkumengun í sjónum umhverfis landið? Það hefur verið upplýst að á undanförnum árum munu hafa orðið hliðstæð slys við kafbátsslysið norður af Bermuda. Líkast til liggja sex rússneskir kafbátar einhvers staðar á botninum og nokkrir bandarískir. Fyrir skömmu varð slys í bandarískum kafbáti en sem betur fer bjargaðist sá kafbátur í land.

Hver er undirbúningur og hverjir eru möguleikar okkar til þess að fylgjast með hvernig ástandið umhverfis landið er í þessum efnum? Ég held að svo nauðsynlegt sem það er að fylgjast með gróðureyðingunni og frárennslinu og öllum þeim öðrum mengunarvöldum sem eru hér hjá okkur og ekki er nógu vel framfylgt að fylgjast með sé þessi þáttur sá mikilsverðasti af öllum, að við komum upp öflugu mælingakerfi umhverfis landið þannig að við getum fylgst með og vitað hvernig ástandið er.

Það er ekki aðeins að við eigum það á hættu að vígvélar stórveldanna og annarra sem hafa komist yfir kjarnorkuvopn geti skaðað lífsgrundvöll íslensku þjóðarinnar, það stafar einnig hætta frá næstu nágrannalöndum okkar. Í Skotlandi er verið að byggja kjarnorkustöð og þar mun einnig vera úrvinnsla kjarnorkuúrgangs. Þessir staðir geta vitaskuld báðir orðið mengunarvaldar við Íslandsstrendur.

Ég held að ekki sé nóg með það að við séum illa undir það búin og búum við lélega löggjöf til að stjórna þessum málum, heldur erum við líka, jafnvel í stórum þáttum eins og þessum, mjög illa undir það búin og vanmegnug að takast á við það ef slys verður hér við strendur landsins, á svipaðan máta og enn þá verr búin en í sambandi við það að loftslys verði eins og varð í sumar í Chernobyl.

Ég vil hvetja til þess, svo að menn séu ekki að flytja þessi mál hvert fyrir sig, kannske hver flokkur að láta bera á sér í sambandi við það að leita lausnar á þeim og að málin verði tekin föstum tökum, hvetja til þess, eins og nefnt var í ræðustól áðan, að þingið taki sig á og ef ríkisstjórnin getur ekki leitt þetta mál til farsælla lykta taki þingið skarið af og hafi forustu í þessu máli.