20.10.1986
Efri deild: 4. fundur, 109. löggjafarþing.
Sjá dálk 174 í B-deild Alþingistíðinda. (104)

3. mál, frídagur sjómanna

Árni Johnsen:

Virðulegi forseti. Ekki ætla ég að elta mjög ólar við hv. þm. Eið Guðnason í geðillskukasti hans í dag. En það er einkennilegt þegar menn tala um smekkleysi að vera með slíkar dylgjur sem hann algjörlega að ástæðulausu. Ef Eiður Guðnason heldur að menn þori ekki að ræða mál og hugmyndir sem varða heill sjómanna og annarra í þessu landi án þess að spyrja hann leyfis er kannske kominn tími til að hann fari að átta sig á því að það gengur ekki upp.

Hugmyndir um lögbundinn frídag sjómanna eru ekkert Eiðs Guðnasonar. Þetta er gömul hugmynd sem hefur margoft komið fram. Og þótt fréttamaður hjá Morgunblaði hafi samband við mig er það ekki vegna þess að ég sé gamall fréttamaður á Morgunblaði heldur vegna þess að ég fjallaði um þetta mál í umræðum þegar Eiður Guðnason reifaði það í hv. deild á s.l. vori. Það er undarlegt líka hvernig þessi hv. þm. þarf ætíð að vera að brigsla mönnum um kjánaskap og aulaskap ef hann er ekki einhvers staðar á „frontinum“. Þetta er ekki mál sem varðar Eið Guðnason. Þetta er mál sem varðar íslenska sjómenn og er í virðingarskyni við þá en ekki Eið Guðnason. Það kom fram í umræðunum s.l. vor að hv. þm: sagðist ekki hafa gert sér grein fyrir því að það yrði að gera greinarmun á farmönnum og fiskimönnum. Ef menn vissu hvað þeir væru að tala um og þekktu til sjávar alla þætti mundu þeir gera það.

Það er mikið atriði þegar mál sem þessi eru unnin að það sé samkomulag um þau og það sé unnið á faglegum grunni. Því miður stenst þetta frv. ekki eins og það er lagt fram, þ.e. það verður að taka tillit til þátta svo sem eins og þess að ekki er hægt að stöðva kaupskip eða menn telja að það sé ekki hægt. Ég tók undir þá tillögu, eins og allir sem tóku til máls og ég býst við að allir hafi gert þegar það hefur verið rætt, að það þarf að finna faglegan og réttan flöt á málinu. Ég hef ekki verið í neinu sýndarmennskukasti í þessu sambandi eins og hv. þm. Eiður Guðnason, og er honum þó alltítt í fleiri málum, heldur leitaði ég samráðs við þá sem helst varðar málið, Farmanna- og fiskimannasambandið og Sjómannasambandið, og bað um samvinnu til að koma málinu fram, ekki vegna þess að ég einn ætlaði að koma því fram, enda hefur það hvergi nokkurs staðar staðið svo hægt sé að skilja þannig, en það hljóta fleiri og eiga fleiri og sem flestir að taka undir þetta mál án þess að vera að stilla sér upp í stafni eins og hv. þm. Eiður Guðnason hefur gert.

Það er leitt til þess að vita að kratar í þessari deild skuli tvinna sig þannig saman að vera að búa til einhverja sérstaka stöðu á kostnað sjómanna því þetta er mál sem varðar virðingu sjómanna en ekki einhvern misskilning krata.

Það er að vænta innan tíðar vonandi sameiginlegs álits Farmanna- og fiskimannasambands og Sjómannasambands um hvernig eigi að standa að framgangi þessa máls og ég er ekki í nokkrum vafa um að menn munu standa saman um að sigla því heilu í höfn án þess að valda einhverju grútarpusi, eins og hv. þm. gerði áðan. Það er væntanlegt slíkt álit innan tveggja vikna og þá mun ég eða aðrir sjá til þess að það álit verði þá kynnt á réttan hátt í deildinni. Hvað sem líður öðrum þáttum í þessu máli taldi ég skynsamlegt og eðlilegt að kalla þessa aðila til liðs og það þótti þeim einnig. Ég mun því taka þetta mál upp þegar ástæða er til og á þann hátt að sjónarmið sjómannasamtakanna komi fram í þessu máli og það sé hugsað til enda, en það er ekki gert í þessu frv. eins og það er.