27.11.1986
Sameinað þing: 22. fundur, 109. löggjafarþing.
Sjá dálk 1211 í B-deild Alþingistíðinda. (1040)

180. mál, stefnumótun í umhverfismálum

Friðjón Þórðarson:

Herra forseti. Þessar umræður hafa verið fróðlegar, sagði hv. 2. þm. Norðurl. e., og má vel undir það taka. Ekki er þó sérstakt tilefni að mínum dómi til að setja upp einhvern undrunarsvip þó að sjö þm. Sjálfstfl. sameinist um að flytja þáltill. um stefnumótun í umhverfismálum. Það er kannske vonum seinna að þessi mál verði gerð að umræðuefni, svo sjálfsagt sem það er að hreyfa þessum málum og reyna að marka einhverja framtíðarstefnu í þeim. Hitt er annað mál að mönnum hefur e.t.v. ekki sýnst nákvæmlega eitt og hið sama hvernig að því ætti að standa. Sumir vilja þegar í stað stofna umhverfismálaráðuneyti með öllum þeim kostnaði og umsvifum sem því fylgja, aðrir vilja e.t.v. fara heldur vægar í sakirnar og mynda stjórnardeild í fyrstu. Og þá er ekki úr leið að víkja fyrst að því hvernig marka skuli stefnu í þessum mikilvægu málum.

Ég ætla ekki á þessu stigi að ræða þetta efnislega. En það vakti óneitanlega sérstaka undrun mína að hér skyldu taka til máls, hver á eftir öðrum, þrír hv. þm. Vesturl., góðir félagar mínir. Og mér þótti leitt að þeir töluðu allir svona heldur í nöldrunartón um málið. Hv. 5. þm. Vesturl. flutti langa tölu, síðan kom hv. 5. landsk. þm, og loks hv. 4. þm. Vesturl. (Gripið fram í: Og allt á sömu bókina lært.) Allt á sömu bókina lært, já, mér fannst töluvert mikið á sömu bókina lært hjá þessum þremenningum. M.a. lét hv. 4. þm. Vesturl. í það skína að hér væri einn flokkur að láta á sér bera í þessum vinsælu málum. Hv. 5. landsk. þm. sagði að það mætti nú, þó málið væri gott, sitthvað segja um þessi vinnubrögð. Hann sagði: Hvers vegna kusu þessir sjálfstæðismenn að fara þessa leið? - ef ég hef tekið rétt eftir. Og hann endaði með því að segja: Vinnubrögðin ber að harma. - Þessi ummæli öll vekja undrun mína.

En hitt vil ég láta koma fram, til þess að þingheimur vaði ekki í neinni villu um þetta efni, að allir þessir þrír menn eru ágætir í samvinnu og leggja góðum málum lið. Ég vil taka þetta sérstaklega fram svo það valdi engum misskilningi. Þessir menn eru vísir til þess að leggja þessu máli gott lið í nefnd, og í framtíðinni. Ég þekki þá það vel, að þetta eru allt saman dugandi menn og drengir góðir.