20.10.1986
Efri deild: 4. fundur, 109. löggjafarþing.
Sjá dálk 175 í B-deild Alþingistíðinda. (105)

3. mál, frídagur sjómanna

Davíð Aðalsteinsson:

Hæstvirtur forseti. Ég sé ekkert athugavert við það þó að menn endurflytji mál á hv. Alþingi. Ég held að það sé venjan. Sannleikurinn er sá að þetta mál kom fram mjög seint á sínum tíma, þess hefur verið getið, og fullkomlega er eðlilegt að endurflytja mál. Hins vegar er það annað að undirbúning hefði að mínum dómi átt að vanda meira við flutning málsins nú. Það var vitnað til hæstv. ráðherra áðan. Hv. 5. landsk. þm. gerði það, 1. flm. þessa frv. til laga um frídag sjómanna, þar sem að því var vikið að þetta væri til umfjöllunar. Nú hefur því verið lýst yfir af hálfu stjórnarinnar með birtingu skjals um þau mál sem flutt verða að frv. verður flutt um frídag sjómanna. Ef ég man rétt gat hæstv. ráðherra um það á sínum tíma, þegar málið var til umfjöllunar hér í þinginu, að óumflýjanlegt væri að hafa gott og náið samráð við hagsmunaaðila. Nú veit ég ekkert um það. Það kann vel að vera að hv. flm. og ekki síst 1. flm. hafi gert það þannig að hagsmunaaðilar séu fullkomlega sáttir við þetta mál eins og það er hér fram sett. Grunur minn er þó sá að það sé nokkuð til í því sem hv. þm. Árni Johnsen sagði í þeim efnum að hagsmunir aðila fari ekki að öllu leyti saman, þ.e. fiskimanna og ýmissa annarra sem sjóinn stunda og þá ekki síst farmanna, og hvað með Landhelgisgæsluna, hvað með Hafrannsóknastofnun? svo dæmi sé tekið.

Eins og frv. er sett fram er fyrsti sunnudagur í júnímánuði skv. 1. gr. frv. alveg fortakslaust almennur frídagur íslenskra sjómanna. Í grg. með frv. segja hv. flm. að það sé öllum ljóst að ekki sé unnt að skipa öllum íslenskum farskipum að sigla til hafnar þann dag. M.ö.o.: ég held að það sé óhjákvæmilegt að hafa í slíku lagafrv. undantekningarákvæði sem lúta að þessu. Ég held að það sé allsendis útilokað annað, enda er það í raun viðurkennt í grg. Því hefði ég kosið, af því að málið var til meðferðar á milli þinga, að hv. flm. hefðu athugað það. En að sjálfsögðu verður þetta mál til meðferðar í nefnd og munu þessi atriði vafalaust verða athuguð eins og önnur.

Til viðbótar við þetta, þ.e. undantekningarákvæði varðandi aðra en fiskimenn, hygg ég að óhjákvæmilegt sé að hafa ákvæði inni í slíkum lögum um það hvenær skip skuli vera komið til hafnar fyrir frídag sjómanna og þá jafnframt hvenær skip megi í fyrsta lagi láta úr höfn. Ég held að það sé nauðsynlegt að hafa slíka lagasetningu nokkuð skýra. Það kann að vera að hægt sé að koma þeim hlutum fyrir í reglugerð, ég skal ekkert fullyrða um það, en hefði þó talið snyrtilegra að hafa slíkt ákvæði í lögunum sjálfum.

Það væri líklega eðlilegra að í frv. væru ákvæði um hvernig yrði farið með ágreiningsefni ef upp kæmu. Slík ágreiningsefni gætu komið upp og þá er hæpið að óvissa sé um hvernig skuli með fara.

Ég vil taka fram áður en ég hef lengra mál hér að ég er heils hugar fylgjandi því að frídagur sjómanna verði lögskipaður. Ég vil ekki að neinn fari í grafgötur um hug minn til málsins að því leyti þó ég sé að víkja hér að einstökum atriðum sem ég tel að þurfi að vera fyllri við slíka lagasmíð. Umræður um löghelgun fánadags, um að frídagur sjómanna, ef lögskipaður verður, verði jafnframt lögskipaður fánadagur, hafa orðið í tengslum við umræðu um frídag sjómanna. Nú kann að vera álitaefni hvort slíkur fánadagur yrði löghelgaður í lögum um frídag sjómanna eða að það kæmi undir forsetaúrskurð um fánadaga og fleira eins og aðrir fánadagar. Ég skal engan dóm leggja á það.

Virðulegi forseti. Ég vildi í þessari umræðu benda á að þetta frv. þarf að vera ítarlegra. Það þarf að kveða nánar á um framkvæmd frídags sjómanna og það þarf og ekki síður að taka fram ýmis undantekningarákvæði svo að ekki myndist réttaróvissa og að menn viti þann rétt sem þeir eiga á grundvelli slíkra laga.