27.11.1986
Sameinað þing: 22. fundur, 109. löggjafarþing.
Sjá dálk 1221 í B-deild Alþingistíðinda. (1056)

Greiðslur afurðastöðva til bænda

Landbúnaðarráðherra (Jón Helgason):

Herra forseti. Í mínum huga kemur ekki annað til greina en að staðið verði við og fram nái að ganga samþykkt ríkisstjórnarinnar frá því í mars 1985 um afurðalánin, að þau verði áfram á sama hátt og þá hafði verið. Ég greindi frá því hvernig að því hefur verið unnið. Mér heyrist hv. 5. þm. Austurl. undrast að viðskrh. skyldi koma þar við sögu, en ég hygg að það sé augljóst að í hans verkahring er að fjalla um málefni Seðlabankans og viðskiptabankanna og þá auðvitað sérstaklega ríkisviðskiptabankanna.

Ég mun svo ekki frekar ræða þetta því að ég held að þetta sé aðalatriðið. En ég gleymdi því áðan að bera til baka fullyrðingar um stórkostlegar vanefndir ríkissjóðs, er næmu á þriðja hundrað millj. kr., í greiðslu útflutningsbóta. Það eru tölur sem eru víðs fjarri raunveruleikanum.