27.11.1986
Sameinað þing: 22. fundur, 109. löggjafarþing.
Sjá dálk 1221 í B-deild Alþingistíðinda. (1057)

Greiðslur afurðastöðva til bænda

Steingrímur J. Sigfússon:

Herra forseti. Ég þakka virðulegum forseta fyrir að leyfa mér að gera athugasemd sem er tilraun til að stilla kompásinn hjá hv. 11. landsk. þm. sem hefur eitthvað ruglast eða í það minnsta minni hans. Það er greinilega horfið úr huga þess ágæta þm. hvernig afstaða manna var til lagasetningarinnar á sínum tíma á vordögum 1985. Afstaða Alþb. í Nd. var sú að gera tillögu um að vísa málinu aftur til ríkisstjórnarinnar og fela henni að skipa nefnd hagsmunaaðila sem ynni nýtt og betra frv. í miklu nánara samstarfi við hagsmunaaðila, bændur og aðra, en gert var og leggja það fyrir þingið að nýju að hausti. Þessi till. var felld og eftir það tókum við ekki þátt í atkvæðagreiðslum að ég best fæ séð eftir þingtíðindum. Ég skora á hv. þm., trúi hann ekki orðum mínum heldur minni sínu, sem ég mundi ekki gera í hans sporum, að lesa þingtíðindin frá þessu ári, dálk 6633 t.d. Ætti þá þessi sjálfskipaði aðstoðarlandbrh. ríkisstjórnarinnar að fá fram hið sanna í málinu.