27.11.1986
Sameinað þing: 22. fundur, 109. löggjafarþing.
Sjá dálk 1221 í B-deild Alþingistíðinda. (1058)

Greiðslur afurðastöðva til bænda

Egill Jónsson:

Herra forseti. Ég kannast við það sem kom fram í umræðunni áðan að framsóknarmenn horfðu ansi mikið til afurðastöðvanna þegar var verið að ganga frá framleiðsluráðslögunum. Ég minni á að afurðastöðvarnar hafa líka með framleiðsluráðslögunum fengið rétt til að vera samningsaðili um það verð sem þær eiga að greiða. Það var gagnlegt að það skyldi koma fram hjá hv. síðasta ræðumanni hver afstaða Alþýðubandalagsmanna var. Hún var einfaldlega sú að vísa málinu til ríkisstjórnarinnar, ekki var nú myndarlegar að málum staðið, í þeim tilgangi að það yrði síðar tekið til meðferðar. Þannig var þeirra afstaða og þeir treystu sér ekki til að koma með tillögur til breytinga, gerðu það að vísu í Ed., en að öðru leyti voru þeir á móti þessu máli eins og nál. bera með sér.