20.10.1986
Efri deild: 4. fundur, 109. löggjafarþing.
Sjá dálk 177 í B-deild Alþingistíðinda. (106)

3. mál, frídagur sjómanna

Valdimar Indriðason:

Virðulegi forseti. Á þessum deildarfundi fer umræðan að minna mjög á að það styttist í kosningar. Það er þannig haldið hér á málum að það virðast vera ýmsar sviptingar á milli manna í þessum efnum og er allt gott um það.

Ég kem hér upp til að lýsa stuðningi mínum við að frídagur sjómanna verði tekinn upp og hann lögbundinn. Ég gerði það einnig þegar þetta frv. var lagt fram á síðasta ári og mun standa að því máli. Auðvitað gerum við okkur öll ljóst að þarna er við ákveðið vandamál að etja. Það hefur ekki hvarflað að neinum held ég að lögskipa þann frídag fyrir kaupskip og aðra sem eru í langsiglingum. Við getum ekki ákveðið sérstakan frídag fyrir skip sem eru í langsiglingum. Ég held að rétt sé að undirstrika það. Það verður ekki hægt að gera í framkvæmd nema þá á einhvern annan veg. Hins vegar komumst við ekki hjá því að það verða að vera einhverjar undanþágur. Það væri vandaminnst að koma þessu í framkvæmd með fiskimenn eingöngu. Það væri hægast. Það er spurning hvort á að halda sig við 1. júní eða annan dag. Væri rétt að kanna það betur. Ég veit að flm. og aðrir eru tilbúnir að ræða það.

En auðvitað verða að koma umsagnir um þetta og viðtöl við aðila í allshn., sem þessu máli var vísað til, og þar munu engin sjónarmið sett til hliðar heldur fá aðilar tíma til að tjá sig um þessi mál almennt og hvað þeir vilja leggja til. En ég held að við séum öll hér í deildinni, hvernig sem að verður staðið, sammála því að sjómenn fái sinn frídag lögskipaðan. Þeir eiga það skilið, þó fyrr hefði verið.Það þarf að taka á þessu máli á þann veg að þetta verði framkvæmt. Það er oft búið að tala um þetta, en skeður ekki neitt. Þess vegna er ég mjög fylgjandi því að við reynum að fylgja þessu máli eftir og tryggjum að íslenskir sjómenn geti fengið í sem ríkustum mæli sinn eigin lögbundinn frídag. Þess vegna er ég meðmæltur því að þetta mál verði lagt inn í nefndina og við könnum eins og mögulegt er hvernig slíkt má framkvæmast.