27.11.1986
Sameinað þing: 22. fundur, 109. löggjafarþing.
Sjá dálk 1245 í B-deild Alþingistíðinda. (1068)

184. mál, varaflugvöllur á Akureyri

Garðar Sigurðsson:

Herra forseti. Hér tala miklir málafylgjumenn og þá vill nú stundum henda að það sé dálítið á kostnað nákvæmninnar. Ég kann illa við það, þegar verið er að tala um svona alvörumál, að menn séu að reyna að snúa pínulítið út úr, en það er einmitt háttur þeirra sem ákafast flytja sitt mál, þó skörulega sé gert. Það er ekki hægt að líkja því saman að lenda DC-8 þarna við misjöfn skilyrði eða þá fljúga inn á Akureyri á Fokker eða 727 sem er með miklu aflmeiri vél, sem getur farið næstum því beint upp í loftið. Svo er hægt að benda á það að vél getur líka bilað í flugtaki og það er tiltölulega oft sem það gerist.

Varðandi þessar tveggja hreyfla flugvélar, sem hv. flm. nefndi, þá veit ég nú ekki hverjar þær eru, kannske eru það Airbus 310 eða eitthvað svoleiðis, sem er líklegast. Það er nú svo að þeir sem hugsa sér að fljúga með tveggja hreyfla vélum yfir Atlantshafið þurfa öruggan varaflugvöll og ég held að það sé hæpið, þó þekki ég það ekki nægilega vel, en þá held ég að gert sé ráð fyrir því að það sé öruggara að vera með slíkar vélar á Sauðárkróki.

Í einni umsögn Flugleiða um þennan völl segir, með leyfi forseta, vegna þessa atriðis:

„Bendir félagið á að flug tveggja hreyfla þota yfir Atlantshafið auki þörfina fyrir slíkan völl á Íslandi og að veðurspár verði veittar fyrir hann.“

Þá kemur fram að Flugleiðir eru sammála niðurstöðu nefndarinnar frá 1980 um að Sauðárkrókur sé hagstæðasti kosturinn. Um þetta er eiginlega ekki rifist. Þetta eru menn almennt sammála um og þó að hv. ákafir flm. séu að vísa í einn sérfræðing eða kannske tvo sem þykir mjög vænt um Akureyri, eins og mér líka raunar, þá eru sérfræðingar, sem við höfum aðgang að í flugmálastjórn í sambandi við okkar vinnu við þetta mikla álit, sammála um það allir að heppilegra sé að hafa völlinn á Sauðárkróki.

Herra forseti. Hv. 1. flm. þessarar till. sagði réttilega að þetta væri alls ekki neitt kjördæmismál og ekki hin minnsta kjördæmislykt af málflutningnum. Þó mun það nú vera svo, ég hef að vísu ekki þskj. hér milli handanna, að flm. eru átta og allir úr Norðurl. e. Þetta er kannske tilviljun og kannske fagleg ráðstöfun, en kannske gæti maður fengið ofurlítinn grun um annað.