02.12.1986
Sameinað þing: 23. fundur, 109. löggjafarþing.
Sjá dálk 1250 í B-deild Alþingistíðinda. (1072)

29. mál, alþingiskosningar og þinghald

Fyrirspyrjandi (Eiður Guðnason):

Herra forseti. Ég hef á þskj. 29 leyft mér að bera fram svohljóðandi fsp. til hæstv. forsrh.:

„1. Hvenær hyggst ríkisstjórnin boða til alþingiskosninga?

2. Hverjar eru tillögur ríkisstjórnarinnar um tilhögun þinghalds í vetur?"

Ég hygg, herra forseti, að ekki þurfi að fylgja þessari stuttu fsp. úr hlaði með mörgum orðum. Að því er fyrsta liðinn varðar er löngu lýðum ljóst að skiptar skoðanir eru með stjórnarflokkunum og sjálfsagt innan þeirra líka um hvenær skuli gengið til kosninga. Sú skoðun hefur komið fram hjá ýmsum þm. Sjálfstfl. að kjósa beri áður en kjörtímabil þingmanna rennur út, þ.e. fyrir 23. aprí1. Af hálfu ýmissa framsóknarmanna hefur þeim skoðunum m.a. verið lýst að kjósa beri síðar, jafnvel ekki fyrr en í júní. Skv. 57. gr. kosningalaga skal kjördagur vera síðasti laugardagur í júní, en margir munu á einu máli um að ekki sé sá dagur í alla staði heppilegur nú um stundir.

Af hálfu Alþfl. lýsi ég því afdráttarlaust yfir að við teljum að það beri að kjósa áður en kjörtímabili þingmanna lýkur, þ.e. fyrir 23. apríl. Enda þótt finna megi dæmi um að kosið hafi verið eftir að kjörtímabili lauk er slíkt að okkar mati afar óeðlilegt, óæskilegt og óheppilegt.

Að því er seinni lið fsp. varðar er brýnt að menn viti sem allra fyrst hvaða tillögur ríkisstjórnin hefur að gera um þinghaldið. Þetta er brýnt, til þess að unnt sé að skipuleggja vinnubrögðin hér á hinu háa Alþingi með sem hagkvæmustum hætti og að þingmenn viti með góðum fyrirvara hvernig þinghaldinu verði háttað þannig að menn geti sem best skipulagt tíma sinn og vinnu varðandi undirbúning kosninga og þau störf sem þarf að inna af höndum hér á hinu háa Alþingi.