02.12.1986
Sameinað þing: 23. fundur, 109. löggjafarþing.
Sjá dálk 1251 í B-deild Alþingistíðinda. (1073)

29. mál, alþingiskosningar og þinghald

Forsætisráðherra (Steingrímur Hermannsson):

Herra forseti. Eins og fram kom í orðum hv. fyrirspyrjanda lýkur fjögurra ára umboði þingmanna 23. apríl n.k. samkvæmt ákvæðum stjórnarskrárinnar og þá er eðlilegast að kjósa sem næst þeim degi. Ég tel því að laugardagurinn 25. apríl sé eðlilegur kosningadagur að öðru óbreyttu. Það er hins vegar rétt, sem kom fram hjá hv. þm., að það hafa verið uppi mismunandi skoðanir á þessu. Sumir vilja flýta allmjög kosningum, jafnvel til fyrri hluta aprílmánaðar eða til loka mars, en aðrir eru því mjög andsnúnir, m.a. vegna þess að þá er oft færð erfið um landsbyggðina. Sömuleiðis er rétt að kosningalög gera ráð fyrir kjördegi síðasta laugardag í júní og að mörgu leyti væri æskilegt að kosningar gætu flust yfir á reglulegan kjördag.

Ég vil hins vegar taka fram að þótt unnt muni vera að finna fordæmi og þótt lögfræðingar telji að ekkert þurfi að vera því til fyrirstöðu að fresta kosningum svo lengi er ég því algerlega mótfallinn og tel það ekki koma til greina. Ég vek hins vegar athygli á því að kosningalögin eru til meðferðar á hinu háa Alþingi og ég tel vafalaust að í þeirri meðferð muni kjördagurinn verða ræddur. Ég er því fylgjandi að kjördagurinn verði fluttur þar til í júní. Því sýnist mér að ef um það gæti orðið samstaða komi til greina að hafa kosningar á nýjum kjördegi skv. kosningalögum, sem yrði þá í júní, t.d. annan laugardag í júní.

En svar mitt við fsp. er þetta: Ég tel líklegast að kosningar verði 25. apríl, nema samstaða geti orðið um nýjan kjördag skv. kosningalögum og menn kjósi að kosningar flytjist á reglulegan kjördag sem vitanlega er æskilegt og hlýtur að verða fyrr eða síðar að því stefnt. Þinghald verður að sjálfsögðu skipulagt í samræmi við þetta. Þing yrði þá miðað við 25. apríl, skemur eftir áramótin en venja hefur verið. Ég tel eðlilegt að þing komi þá saman fyrr í janúar, t.d. mánudaginn 19. janúar. En það hefur ekki endanlega verið ákveðið af hálfu ríkisstjórnarinnar.