02.12.1986
Sameinað þing: 23. fundur, 109. löggjafarþing.
Sjá dálk 1253 í B-deild Alþingistíðinda. (1076)

29. mál, alþingiskosningar og þinghald

Fyrirspyrjandi (Eiður Guðnason):

Herra forseti. Ég þakka hæstv. forsrh. fyrir svör hans. Ég lagði áherslu á í rökstuðningi mínum með fsp. að kosið yrði fyrir 23. apríl. Raunar má segja að það skipti ekki höfuðmáli þó kosið sé þá helgi sem er næst þessum degi og er kannske ástæðulaust að gera stórmál úr því og þess eru ýmis dæmi, en að alls ekki verði kosið síðar. Það finnst mér skipta hér höfuðmáli.

Hv. 5. þm. Austurl. gerði að umtalsefni ófærð og snjóa. Það er auðvitað rétt, það geta komið hret. Það getur komið ófærð hér í næstum öllum mánuðum ársins. Það verður heldur ekki séð að veðurfar hafi staðið flokkunum fyrir þrifum, hvorki á Austurlandi, Vestfjörðum eða Vesturlandi, um að efna til prófkjörs hjá sínum flokksmönnum. Menn gleyma því að það eru svolítið aðrar aðstæður í þjóðfélaginu núna og það er hægt að framlengja kosningar um einn dag ef þurfa þykir vegna ófærðar. Það eru engin óyfirstíganleg vandamál sem þar er við að etja. Menn nota þetta sem tylliástæðu miklu frekar en annað.

En ég þakka hæstv. forsrh. fyrir svör hans og legg áherslu á að þar sem ekki eru mjög margir vinnudagar þingsins í rauninni eftir og hæstv. ríkisstjórn hefur óskað eftir því að a.m.k. 100 lagafrumvörp, ef ég man rétt, verði afgreidd, þá er nú ekki seinna vænna en að fara að gera sér ítarlega grein fyrir því og nákvæmlega hvernig menn ætla að vinna hér það sem lifir þingtímans. Það eru ekki svo margir vinnudagar. Þá er best að leggja hin óraunhæfu áform um lagafrumvörpin 100 á hilluna og snúa sér að því að gera raunhæfar áætlanir um hvernig haga skuli vinnunni í þinginu það sem eftir er af þessu kjörtímabili.