02.12.1986
Sameinað þing: 23. fundur, 109. löggjafarþing.
Sjá dálk 1254 í B-deild Alþingistíðinda. (1078)

163. mál, úrbætur í ferðaþjónustu

Fyrirspyrjandi (Kristín Halldórsdóttir):

Herra forseti. Hinn 22. apríl s.l. var samþykkt á Alþingi ályktun þess efnis að fela samgrh. að láta gera úttekt á aðstöðu til ferðaþjónustu á helstu ferðamannastöðum í einstökum landshlutum. Úttektin skal ná til gistiaðstöðu, veitingaþjónustu, samgangna, leiðsögu og leiðamerkinga, eftirlits, aðgangs að áhugaverðum stöðum, upplýsingaþjónustu og hreinlætisaðstöðu. Á grundvelli þessarar úttektar skal síðan gera áætlun um úrbætur. Í lok ályktunarinnar segir síðan að verk þetta skuli unnið í samráði við ferðamálasamtök landshlutanna. Á þskj. 173 hef ég leyft mér að spyrja hæstv. samgrh. hvað líði framkvæmd þessarar samþykktar Alþingis. Nú sé ég að ég hefði átt að orða það einnig á umræddu þskj., sem er reyndar aðaláhyggjuefni mitt, hvernig fjármögnun þessa verkefnis skyldi háttað. En ég vænti að hæstv. samgrh. fyrirgefi að sú spurning var ekki orðuð sérstaklega á þskj. og veiti upplýsingar um þann þátt í svari sínu.