02.12.1986
Sameinað þing: 23. fundur, 109. löggjafarþing.
Sjá dálk 1260 í B-deild Alþingistíðinda. (1086)

165. mál, herflugvöllur á Norðurlandi

Utanríkisráðherra (Matthías Á. Mathiesen):

Herra forseti. Hv. 4. þm. Norðurl. e. hefur á þskj . 175 lagt fram fsp. tvær sem hann gerði grein fyrir og ég mun nú svara. - Svarið við fyrri spurningunni: Í aprílmánuði s.l. svaraði ég fsp. um áhuga Atlantshafsbandalagsins á alþjóðlegum flugvelli við Sauðárkrók með því að staðfesta að flotastjórn Atlantshafsbandalagsins á Atlantshafi hafi lýst áhuga á að kannaður verði möguleiki þess að byggður verði varaflugvöllur fyrir Keflavíkurflugvöll án þess að ákveðin staðsetning væri höfð í huga. Jafnframt lýsti ég yfir að engar formlegar viðræður hefðu þá farið fram milli Íslendinga og fulltrúa Atlantshafsbandalagsins um málið.

Vegna fyrirliggjandi fsp. Steingríms J. Sigfússonar, 4. þm. Norðurl. e., get ég staðfest að fyrstu formlegu viðræður íslenskra stjórnvalda við flotastjórn Atlantshafsbandalagsins og varnarliðið munu fara fram í þessum mánuði. Að öðru leyti vísa ég til svars sem ég gaf um málið í aprílmánuði s.l. Þar er að finna m.a. þá skilgreiningu að varaflugvöllur er málefni sem heyrir undir samgrn.

Það er hins vegar hér verið að spyrja um viðræður á vegum Atlantshafsbandalagsins og því svara ég því sem að málinu snýr hvað það snertir.

Af hálfu samgrn. munu taka þátt í viðræðunum Ólafur Steinar Valdimarsson ráðuneytisstjóri og Pétur Einarsson flugmálastjóri, en af hálfu utanrrn. þeir Sverrir Haukur Gunnlaugsson, skrifstofustjóri varnarmálaskrifstofunnar, og Þorgeir Pálsson prófessor.

Sem svar við annarri fsp. vil ég aðeins víkja að því að hún er örhtið leiðandi. Ég vísa til þess sem ég hef áður sagt varðandi mannvirkjasjóðinn, en að öðru leyti svara ég þeirri fsp. neitandi.