02.12.1986
Sameinað þing: 23. fundur, 109. löggjafarþing.
Sjá dálk 1264 í B-deild Alþingistíðinda. (1094)

165. mál, herflugvöllur á Norðurlandi

Stefán Guðmundsson:

Hv. þm. Hjörleifur Guttormsson. Maður er ýmsu vanur úr þessari austanátt. Það kom ekki fram í mínu máli, hv. þm. Hjörleifur Guttormsson, að það væru hernaðaryfirvöld sem ættu að ráða gerð flugvalla á Íslandi eða staðsetningu þeirra. Og ég var ekki að ræða um gerð hernaðarflugvalla eða hernaðarmannvirkja hér á landi. Hins vegar hef ég skilning á því að það eru ýmsar breytingar að gerast nú. M.a. munu ein fimm flugfélög, sem núna fljúga á milli Evrópu og Ameríku og hafa tekið í notkun tveggja hreyfla flugvélar, þurfa þess frekar að varaflugvöllur verði byggður á Íslandi. Ég gæti sagt miklu meira um þetta mál, en því miður er tíminn farinn frá okkur. En ég held að við ættum að reyna að halda okkur við jörðina í þessum umræðum.