02.12.1986
Sameinað þing: 23. fundur, 109. löggjafarþing.
Sjá dálk 1265 í B-deild Alþingistíðinda. (1099)

175. mál, skortur á hjúkrunarfræðingum og sjúkraliðum

Fyrirspyrjandi (Kristín Ástgeirsdóttir):

Herra forseti. Á undanförnum mánuðum hafa borist slæm tíðindi frá sjúkrahúsum landsins, einkum héðan af höfuðborgarsvæðinu. Samkvæmt frétt sem birtist í Alþýðublaðinu nú í byrjun nóvember er barnaspítali Hringsins nú rekinn þannig að börn koma inn að morgni og eru send heim að kvöldi og hluta spítalans er lokað um helgar. Rúmum hefur verið fækkað á deildum og þess eru dæmi að deildir hafi ekki verið opnaðar eftir lokun af ýmsum ástæðum og jafnframt berast þau tíðindi að hjúkrunarfræðinga og sjúkraliða vanti til starfa á ýmsar deildir sjúkrahúsanna og að á flestum deildum sé gífurlegt vinnuálag á starfsfólkinu vegna undirmönnunar. Háskólamenntaðir hjúkrunarfræðingar sögðu upp störfum sínum frá og með 1. okt. og hjúkrunarfræðingar innan BSRB hugðu á uppsagnir, en samkvæmt nýjustu fréttum hafa þeir nú frestað þeim vegna væntanlegra laga um kjarasamninga opinberra starfsmanna.

Ástæður þessarar óánægju, sem kemur fram í þessum aðgerðum hjúkrunarfræðinganna, eru fyrst og fremst lág laun, mikið vinnuálag og mikil ábyrgð sem ekki er metin til launa. Samkvæmt þeim upplýsingum sem ég fékk hjá Hjúkrunarfélagi Íslands eru um 77% hjúkrunarfræðinga innan þess félags við hjúkrunarstörf, en 23% sinna öðrum störfum eða eru á eftirlaunaaldri. Ég veit ekki hvernig þetta hlutfall er miðað við aðrar sérmenntaðar stéttir, en staðan er nú þannig samkvæmt mínum upplýsingum að 195 íslenskir hjúkrunarfræðingar starfa erlendis, 100 eru komnir á eftirlaun en 1925 eru í starfi, en tugir ef ekki hundruð hjúkrunarfræðinga, því miður hef ég ekki nákvæma tölu, eru í öðrum störfum, þar á meðal sem heimavinnandi húsmæður.

Hjúkrunarfræðingar eru ein þeirra kvennastétta sem orðið hafa illilega fyrir barðinu á launastefnu ríkisstjórnarinnar og eru orðnar langþreyttar á lélegum kjörum, en þeir gjalda sem síst skyldu, sjúklingar sem þurfa á hjúkrun að halda.

Í ljósi þeirra upplýsinga sem ég hef hér rakið leyfi ég mér, herra forseti, að leggja eftirfarandi spurningar fyrir hæstv. heilbrrh. á þskj. 185:

„1. Hve marga hjúkrunarfræðinga og sjúkraliða vantar til starfa?

2. Hvar er skorturinn mestur?

3. Hversu margir hjúkrunarfræðingar og sjúkraliðar eru í a) fullu starfi, b) hlutastarfi?

4. Hversu mikla yfirvinnu vinna hjúkrunarfræðingar og sjúkraliðar að jafnaði á mánuði hverjum?"