20.10.1986
Efri deild: 4. fundur, 109. löggjafarþing.
Sjá dálk 179 í B-deild Alþingistíðinda. (110)

3. mál, frídagur sjómanna

Flm. (Eiður Guðnason):

Virðulegi forseti. Það hefur stundum verið haldið áfram hér og var síðast gert á miðvikudaginn var þó að klukkan væri orðin 5 eða 6 mínútur yfir 4 þannig að ég óska eftir því að látið verði á það reyna hvort ekki má ljúka málinu. En ég skal vera mjög stuttorður.

Ég þakka hv. 3. þm. Vesturl. Valdimar Indriðasyni og hv. 5. þm. Vesturl. Davíð Aðalsteinssyni jákvæðar undirtektir. Ég get því miður ekki þakkað hv. 3. þm. Suðurl. undirtektir hans því satt best að segja hef ég sjaldan orðið vitni að öðru eins orðbragði og hann viðhafði í þingsalnum áðan eða annarri eins vanstillingu eða gönuhlaupi skapsmunanna eins og við urðum vitni að áðan út af jafnlitlu tilefni.

Í fyrsta lagi kom fram hjá hv. síðasta ræðumanni, Karli Steinari Guðnasyni, að hann hefði rætt þetta mál við formann Sjómannasambandsins. Í öðru lagi hef ég frá því greint að ég hef rætt þetta mál við formann Farmanna- og fiskimannasambandsins. Þeir höfðu ekkert við þetta að athuga. En það kom jafnframt fram að það var ekkert byrjað að starfa að þeirri grg. sem hv. þm. Árni Johnsen var að guma af í Morgunblaðinu í sumar.

Það er sjálfsagt rétt, sem hv. þm. Davíð Aðalsteinsson benti á, að það má gera þetta frv. fyllra að mörgu leyti. Þá verður þetta mjög flókin löggjöf. Það má gera það, en ég held að það sé röng stefna. Það var minnt á áðan að lögin um 1. maí eru aðeins fimm orð held ég. „1. maí skal vera almennur frídagur.“ Og þetta er hugsað í sömu veru. Þetta er staðfesting og stefnuyfirlýsing um að frídagur sjómanna skuli vera fyrsti sunnudagur í júní að jafnaði. Auðvitað getur reynst nauðsynlegt að setja einhver ákvæði í reglugerð, það má vel vera, en ég held að löggjöfin eigi að vera í þessa veru.

Varðandi yfirlýsingu hv. 5. þm. Vesturl. um fánadag á sjómannadag er það alveg rétt, en það ákvæði á heima að ég hygg í forsetaúrskurði um fánadaga þar sem taldir eru upp allir fánadagar. Ég held að ekki orki tvímælis að það á ekki að tína inn í einstök lög ákvæði um fánadaga heldur eiga þau öll að vera á sama stað. En þetta er minni háttar atriði.

Ég þakka sem sagt tveimur fyrrgreindum hv. þm. þeirra góðu undirtektir. Auðvitað er það höfuðatriði að þetta mál nái fram að ganga en ekki hver flytur frv. eins og ég sagði áðan.