02.12.1986
Sameinað þing: 23. fundur, 109. löggjafarþing.
Sjá dálk 1266 í B-deild Alþingistíðinda. (1100)

175. mál, skortur á hjúkrunarfræðingum og sjúkraliðum

Heilbrigðis- og tryggingamálaráðherra (Ragnhildur Helgadóttir):

Herra forseti. 1. liður fsp. hv. þm. hljóðar svo: „Hve marga hjúkrunarfræðinga og sjúkraliða vantar til starfa?" og 2. liðurinn hljóðar svo: „Hvar er skorturinn mestur?" Ég kýs að svara þessum tveimur fyrstu liðum fsp. saman.

Lauslega áætlað vantar í þær stöður sem leyfi er fyrir rúmlega 200 hjúkrunarfræðinga og öllu fleiri sjúkraliða. Þessar tölur eru breytilegar frá einum mánuði til annars.

Mikil hreyfing er á hjúkrunarfræðingum og sjúkraliðum í starfi. Þeir hverfa frá um tíma, en koma flestir til starfa á ný. Allmargir eru við nám um lengri eða skemmri tíma hér heima eða erlendis.

Þeir munu vera um 65 í lengra námi, en þá er átt við eins til tveggja ára framhaldsnám, og 25 á styttri námskeiðum. Þegar fjölmennir hópar hjúkrunarfræðinga fara í framhaldsnám hlýtur það auðvitað að hafa áhrif á þetta ástand. Núverandi stöðuleyfi fyrir þessar starfsstéttir segja þó ekki alla sögu því að allmargar sjúkrastofnanir og heilsugæslustöðvar hafa óskað eftir fleiri stöðuheimildum en þær hafa nú leyfi fyrir. Skortur á hjúkrunarfræðingum til starfa er meiri í stofnunum í Reykjavík en úti á landsbyggðinni og tiltölulega meiri á öldrunardeildum, geðdeildum og barnadeildum. Hins vegar er meiri skortur á sjúkraliðum til starfa úti um landið.

Við þetta má bæta að það er ekki einungis skortur á hjúkrunarfræðingum og sjúkraliðum í stofnunum hér í Reykjavíkurborg og víðar í þéttbýlinu heldur einnig á ófaglærðu aðhlynningarfólki. Ef tölur eru teknar miðað við núverandi ástand í stærstu sjúkrahúsunum eru stöðuheimildir fyrir hjúkrunarfræðinga við Landspítalann 340. Af þeim eru setnar 308, en 21 hjúkrunarfræðingur er í barneignarleyfi eða námsleyfi af þeim hópi. Stöðuheimildir fyrir sjúkraliða eru 157 en í starfi eru 174 sjúkraliðar. Stöðuheimildir fyrir hjúkrunarfræðinga í Borgarspítalanum eru 204 af þeim eru setnar 179 stöður, og fyrir sjúkraliða 168 stöðuheimildir, af þeim eru setnar 134 stöður. Í Landakotsspítala eru stöðuheimildir hjúkrunarfræðinga 110, af þeim eru setnar 108 stöður, og fyrir sjúkraliða eru heimildirnar 99, af þeim eru setnar 87. Í Fjórðungssjúkrahúsinu á Akureyri eru stöðuheimildir hjúkrunarfræðinga 79,5 og af þeim eru setnar um það bil 76 stöður. Stöðuheimildir fyrir sjúkraliða eru 88, en í þeim stöðum og öðrum störfum eru 95,5 sjúkraliðar. Ég tel þessar hlutfallstölur svolítið skrýtnar, en það er vegna þess að svo margt af þessu fólki vinnur hlutastörf. Þess vegna standa tölurnar ekki alltaf á heilli tölu. Við eftirgrennslan telja flest sjúkrahúsin úti á landi sig mun betur stödd nú hvað því viðvíkur að fylla þessar stöður en oft áður.

Ef ég vík að heilsugæslunni og þeim heilsugæslustöðvum sem heyra beint undir ráðuneytið eru stöðuheimildir fyrir hjúkrunarfræðinga 119. Segja má að allar þær heimildir séu notaðar. Á örfáa staði vantar hjúkrunarfræðing til starfa, en þá hefur stöðuheimildin verið notuð til annars þann tíma.

3. spurning hv. þm. var: „Hversu margir hjúkrunarfræðingar og sjúkraliðar eru í a) fullu starfi, b) hlutastarfi?"

Hjúkrunarfræðingar í fullu starfi eru um 680 og í hlutastarfi um 1000. Sjúkraliða hef ég ekki eins nákvæmt yfirlit yfir, en af þeim tölum sem ég hef eru þeir mun fleiri í hlutastarfi en í fullu starfi en þegar um er að ræða hjúkrunarfræðingana. Samkvæmt könnunum kemur í ljós að hjúkrunarfræðingar brautskráðir frá Háskólanum og þeir aðrir sem hafa farið í framhaldsnám eru fleiri í fullu starfi en aðrir.

4. spurning hv. fyrirspyrjanda var um hversu mikla yfirvinnu hjúkrunarfræðingar og sjúkraliðar ynnu að jafnaði á mánuði hverjum. Því er til að svara að hún er mjög misjöfn í stofnunum og má segja að það haldist í hendur við það hvort skortur er þar á þeim til starfa og hversu margir hafa verið fastráðnir í fullt starf og með hátt starfshlutfall. Í sumum stofnunum er yfirvinnan sáralítil og þá mest samningsbundin yfirvinna, svo sem kaffitímar og annað, en annars staðar töluvert mikil. Hjá stærstu sjúkrahúsunum, Landspítalanum og Borgarspítalanum, er yfirvinna hjúkrunarfræðinga frá 25 til 35 stundir í mánuði, en hjá sjúkraliðum 26-43 stundir í mánuði. Sjúkraliðar eru fleiri í hlutastarfi og því eru yfirvinnustundir þeirra fleiri.

Ég vona að fsp. hv. þm. sé svarað, en þessar upplýsingar eru teknar saman af Ingibjörgu Magnúsdóttur deildarstjóra í heilbrrn.