02.12.1986
Sameinað þing: 23. fundur, 109. löggjafarþing.
Sjá dálk 1271 í B-deild Alþingistíðinda. (1108)

176. mál, lokun deilda á sjúkrahúsum

Heilbrigðis- og tryggingamálaráðherra (Ragnhildur Helgadóttir):

Herra forseti. Ég vil freista þess að svara 3. lið fsp. í tilefni af þeim athugasemdum sem fram hafa komið, en ,þessi spurning var um til hvaða aðgerða ráðuneytið hygðist grípa.

Þetta mál hefur verið mjög mikið rætt og það er ekki skortur á nefndum í þessu sambandi heldur er það fyrst og fremst spurning um fjármagn og einnig samkomulag manna um viss skipulagsatriði.

Hjúkrunarfræðingar hafa sjálfir einkum bent á hækkun launa og aukaþóknun fyrir fullt starf, sveigjanlegri vinnutíma og fleiri dagvistarrými. Þessa þætti alla hef ég rætt við hlutaðeigandi aðila og geri mér vonir um að úr rætist. S.l. vetur reyndi ég það ráð sem nokkurn árangur bar þegar læknar áttu í hlut fyrir mörgum árum og svipað stóð á um fjarvistir þeirra frá landinu. Ég skrifaði 180 hjúkrunarfræðingum sem dveljast erlendis og spurðist fyrir um það hvort þeir vildu koma heim til starfa ef þeir fengju einhverja fyrirgreiðslu við heimflutning sinn. Sex hafa þegar komið til starfa og það eru að berast bréf enn með fyrirspurnum um í hverju slík aðstoð væri fólgin og við höfum yfirleitt beint þessum svörum til viðkomandi sjúkrastofnana. Það koma þá hugmyndir um það frá hjúkrunarfræðingum sem erlendis dvelja við hvaða stofnanir þeir vildu gjarnan starfa og við hvers konar verkefni. Svo virðist sem þarna hafi aðeins orðið hreyfing á og þetta litla bréf, þó að þarna hafi ekki margt skilað sér enn, sé samt enn þá að vekja viðbrögð því að menn gera það ekki svona í einni handarvendingu að flytja sig með fjölskyldu sína heim.

Hvað viðkemur sjúkraliðum hafa tveir skólar bæst við sem bjóða upp á sjúkraliðanám, en meðal óska sjúkraliða í sambandi við þeirra málefni var það að athugað yrði um endurskoðun á námi þeirra, fyrirkomulagi, hvort hægt væri að opna þeirra námsleiðir betur en verið hefur og jafnvel endurskoða allt innihald þess náms.

Nefnd hefur starfað í þessu og lokið störfum og tillaga hennar er í stuttu máli sú að sjúkraliðanámið færist smátt og smátt alfarið inn í fjölbrautaskólana en að Sjúkraliðaskólanum verði áfram haldið sem ársskóla, um nokkurra ára bil a.m.k., fyrir almennt sjúkraliðanám. Auk þess bjóði hann upp á sérnám í vissum greinum, námskeið upp undir hálft ár eða svo sem veittu þá réttindi til vissra kjarabóta. Þetta eru atriði sem sjúkraliðar hafa lagt mikla áherslu á. Þeir skólar sem bæst hafa við eru Fjölbrautaskólinn í Keflavík og nú í haust Fjölbrautaskólinn á Sauðárkróki. Þetta þýðir að fólk sem getur farið í þetta nám þegar það er ungt í heimabyggð sinni kemur þá frekar til þessa starfs en ef það þyrfti að bíða þangað til að loknu venjulegu framhaldsnámi og fara þá til Reykjavíkur til að læra þessi störf. Ég geri mér þess vegna vonir um að mun fleiri sjúkraliðar brautskráist á næstu árum heldur en hingað til. Þessi atriði vildi ég sérstaklega nefna.

Svo eru aðrar aðgerðir sem eru til þess fallnar að létta á sjúkrahúsum, m.a. sú þjónusta sem fólgin er í heimahjúkrun, því að auðvitað dregur úr skorti á slíku starfsfólki á sjúkrahúsum ef dregið er úr aðsókn á hjúkrunardeildirnar. Þess vegna var flutt um það frv. s.l. vor og samþykkt hér á hv. Alþingi að sjúkrasamlögin greiddu fyrir heimahjúkrun, en það hefur ekki verið heimilt hingað til. Hingað til hefur heimahjúkrunin verið skipulögð af heilsugæslustöðvunum en lagabreytingin þýðir að þá getur fólk snúið sér til hjúkrunarfræðings. hjúkrunarfræðingur, sem e.t.v. sinnir heimili sínu að langmestu leyti og er ekki í föstu starfi neins staðar annars staðar, tekur að sér nokkra sjúklinga sem hann hjúkrar heima fyrir. Ég held að um allt land geti þessi breyting orðið til að draga úr þörfinni á stofnununum sem við ræddum um. En auðvitað eru þetta allt saman hliðarráðstafanir. Það sem vitanlega skiptir máli og mér dettur ekki í hug að loka augunum fyrir eru kjaramál þessara stétta eins og annarra.