02.12.1986
Sameinað þing: 23. fundur, 109. löggjafarþing.
Sjá dálk 1274 í B-deild Alþingistíðinda. (1112)

188. mál, sjúkranuddarar

Fyrirspyrjandi (Guðrún Helgadóttir):

Herra forseti. Í maí 1985 voru undirrituð lög um starfsheiti og starfsréttindi heilbrigðisstétta. Skv. þeim var síðan gefin út reglugerð um menntun, réttindi og skyldur sjúkranuddara. Sú reglugerð var undirrituð 6. jan. 1986, um svipað leyti og ýmsar aðrar slíkar reglugerðir.

Síðan gerðist það að stjórn Félags ísl. sjúkraþjálfara ritar ráðherra bréf 21. júlí 1986 og mótmælir harðlega þessari reglugerð og telur að þar hafi verið farið inn á þeirra eigið starfssvið. Nokkrum dögum seinna gefur núv. hæstv. heilbrrh. út reglugerð um afnám þessarar umræddu reglugerðar. Og þá stóðu sjúkranuddarar sem sagt aftur í sömu sporum og áður en reglugerð þeirra var samin.

Ekki voru allir sammála um að þessi reglugerð hefði á nokkurn hátt stangast á við lög um starfsheiti og starfsréttindi heilbrigðisstétta eða komið inn á svið annarra starfsstétta. M.a. ritar Guðjón Magnússon aðstoðarlandlæknir bréf í júní 1986 þar sem hann telur að við setningu reglugerðar þeirrar sem áður var minnst á hafi verið staðið að verki eins og lög mæla fyrir um og að umsögn landlæknis um drög að reglugerð hafi verið send ráðuneytinu.

Síðan hefur það gerst að hæstv. ráðherra hefur skipað nefnd til að reyna að leysa þessi mál og sú nefnd hefur skilað af sér til hæstv. ráðherra. En það mál lítur nú ekki vel út þar sem menn virðast ekki geta komið sér saman um hvernig að þessum málum skuli staðið.

Ég hef því leyft mér, herra forseti, og skal ekki lengja mál mitt, að leggja fram fsp. á þskj. 199, tvær fsp. sem hljóða svo, með leyfi forseta:

„1. Hvers vegna var reglugerð nr. 13/1986, um menntun, réttindi og skyldur sjúkranuddara, numin úr gildi?

2. Er ný reglugerð fyrirhuguð? Sé svo, hvenær er hennar að vænta?"