02.12.1986
Sameinað þing: 23. fundur, 109. löggjafarþing.
Sjá dálk 1276 í B-deild Alþingistíðinda. (1114)

188. mál, sjúkranuddarar

Fyrirspyrjandi (Guðrún Helgadóttir):

Herra forseti. Ég þakka hæstv. ráðherra fyrir svörin. Ég get verið henni sammála um að það má ýmislegt segja um löggildingu starfsstétta. En ef verið er að, og eins og búið er að, löggilda einstök starfsheiti verður auðvitað eitt yfir alla að ganga. Ég vil t.d. nefna að læknaritarar hafa fengið löggildingu fyrir sínum starfa.

Eftir því sem mér hefur skilist eru sjúkranuddarar fyrstir manna til þess að viðurkenna að þeir hafa ekki menntun á borð við sjúkraþjálfa og gera sér fyllilega ljóst að þeir geta þar með ekki gegnt þeim störfum sem þeir síðarnefndu gegna. Og þeir eru jafnvel tilbúnir til að viðurkenna að e.t.v. hafi verið gengið of langt í umræddri reglugerð. Þeir hafa lagt til breytingar sem taka af allan vafa um að þeir eru ekki að fara inn á svið sjúkraþjálfara heldur hugsa þeir störf sín fyrst og fremst sem einn þátt sjúkraþjálfastarfa eða hugsa sér að vera svokölluð stoðstétt. Og þeir gera sér jafnframt fyllilega ljóst, eins og tillögur þeirra hafa sýnt, að þeir vinna auðvitað ekki nema skv. tilvísun frá lækni.

Þetta lyktar auðvitað allt ofurlítið af þeirri lagskiptingu sem mér sýnist verða ákveðnari með ári hverju innan heilbrigðisstéttanna og að mínu viti ber að reyna aðeins að spyrna fótum við. Auðvitað er sjálfsagt og eðlilegt að kunnátta manna sé virt til ýmissa starfa, en að sjúkranuddarar séu gagnleg stétt, sem geti leyst ýmsan vanda mannanna á tiltölulega auðveldan hátt, hlýtur að vera og er alveg ótvírætt eins og margir hafa sannreynt. Ekki veitir nú af að létta af heilbrigðiskerfinu því sem mögulegt er að lagfæra utan þess.

Mér er alveg ljóst að hæstv. ráðh. er svolítill vandi á höndum við að reyna að fá þetta fólk til að koma sér saman um hvernig að þessum málum verði staðið. Ég get ekki neitað því að mér finnst nokkur hroki í því fólginn, eins og kemur fram í ýmsum bréfaskriftum um þetta mál, að menntastofnanir neiti gjörsamlega að standa að samningu reglugerðar eða leggja nokkuð til hennar og get ég nefnt þar bæði háskólafólk og fólk úr fjölbrautaskólunum. Ég held að þarna sé hægt að koma sér saman um með einhverri lagni hvernig að þessum málum skuli staðið og ég tel að ekki sé hægt að halda sjúkranuddurum utan við alla löggildingu, eins og nú er, með tilliti til þess sem þegar er búið að löggilda af starfsstéttum innan heilbrigðiskerfisins.