02.12.1986
Sameinað þing: 23. fundur, 109. löggjafarþing.
Sjá dálk 1277 í B-deild Alþingistíðinda. (1115)

189. mál, mat heimilisstarfa til starfsreynslu

Fyrirspyrjandi (Sigríður Dúna Kristmundsdóttir):

Herra forseti. Þann 22. apríl s.l. samþykkti Alþingi till. til þál. þess efnis að meta skyldi heimilisstörf til starfsreynslu úti á vinnumarkaðnum. Þáltill., sem samþykkt var, hljóðar svo, með leyfi forseta:

„Alþingi ályktar að meta skuli til starfsreynslu heimilis- og umönnunarstörf sem unnin eru launalaust þegar um hliðstæð störf er að ræða. Jafnframt felur Alþingi ríkisstjórn að láta athuga með hvaða hætti megi meta slíka starfsreynslu þegar um óskyld eða sérhæfð störf er að tefla.“

Reyndar gengur þessi þál. miklu skemur í þá átt að meta heimilisstörf til starfsreynslu en við Kvennalistakonur vildum og ljóst var við samþykkt hennar að hún gerði lítið annað en að staðfesta það ástand sem þá ríkti í þessum málum.

Ályktunin eins og hún liggur nú fyrir er í raun tvíþætt. Annars vegar kveður hún á um að heimilisstörf skuli metin til starfsreynslu þegar um hliðstæð störf er að ræða, ekki þegar um öll störf er að ræða eins og upphaflega till. gerði ráð fyrir, og hins vegar að kanna skuli hvernig meta megi heimilisstörf þegar um óskyld störf er að ræða. Fyrra atriðið hefur þegar verið í framkvæmd víða um árabil, að vísu í einum hrærigraut. Því felur ályktun Alþingis í sér að framkvæmdarvaldið hlutist til um að greiða úr flækjunni og samræma þetta mat heimilisstarfa.

Síðara atriðið, könnunin á því hvernig meta megi starfsreynslu við heimilisstörf þegar um er að ræða óskyld störf, er öllu mikilvægara þar sem það er mun víðtækara, nær til miklu stærri hóps og felur í sér mun meiri viðurkenningu á heimilisstörfum.

Nú leikur mér hugur á að vita hvernig tekist hefur til með framkvæmd beggja þessara þátta till. og því spyr ég hæstv. félmrh. á þskj. 200 hvað líði framkvæmd þál. um mat heimilisstarfa til starfsreynslu sem samþykkt var á Alþingi 22. apríl s.l.

Svo merkilega hittist reyndar á að á þessum fundi sameinaðs Alþingis hefur verið dreift á borð hv. þm. prentaðri skýrslu frá hæstv. félmrh. um mat á heimilis- og umönnunarstörfum til starfsreynslu. Er þar komið, eftir því sem mér telst til, um 10 bls. skriflegt svar við fsp. minni þótt eigi hafi verið um beðið og er hér sannarlega vel að verki staðið hjá hæstv. ráðherra. Ég geri ráð fyrir að við fáum helstu niðurstöður þessarar skýrslu í svari hans á eftir.