02.12.1986
Sameinað þing: 23. fundur, 109. löggjafarþing.
Sjá dálk 1278 í B-deild Alþingistíðinda. (1116)

189. mál, mat heimilisstarfa til starfsreynslu

Félagsmálaráðherra (Alexander Stefánsson):

Herra forseti. Sem svar við fsp. um þessa þál. vil ég geta þess að á ríkisstjórnarfundi á þessu ári var ákveðið að fela félmrh. að fylgja þessari þál. eftir, láta á það reyna á hvern hátt væri hægt að koma til móts við samþykkt Alþingis. Eins og hér hefur komið fram er þessi þál. tvíþætt, annars vegar að meta skuli til starfsreynslu heimilis- og umönnunarstörf sem unnin eru launalaust þegar um hliðstæð störf er að ræða og hins vegar felur Alþingi ríkisstjórn að láta athuga með hvaða hætti megi meta slíka reynslu þegar um óskyld eða sérhæfð störf er að tefla.

Það sem gert var í sambandi við þetta mál var það að félmrh. fól ákveðnum aðila, Gerði Steinþórsdóttur cand. mag., að gera úttekt á stöðu þessara mála og gera tillögur um hvernig meta skuli til starfsreynslu heimilis- og umönnunarstörf. Gerður Steinþórsdóttir lauk þessu verkefni í september s.l. og skilaði um það skýrslu sem félmrh. lagði fyrir ríkisstjórn. Ríkisstjórnin samþykkti að þessi skýrsla yrði óbreytt eins og hún kom frá hendi þess aðila sem vann hana til birtingar á hv. Alþingi þannig að hv. þm. gætu fjallað um hana og hún yrði þá tekin til meðferðar á þingi síðar til umræðu.

Ríkisstjórnin hefur ekki tekið efnislega afstöðu til skýrslunnar, en í þessari skýrslu, eins og hv. þm. geta séð, eru í fyrsta lagi lagðar fram ákveðnar tillögur skýrsluhöfundar um hvernig að þessu skyldi staðið og rakið á hvern hátt hún byggir það upp. Enn fremur tekur hún til meðferðar ágrip af gangi þessa máls á hv. Alþingi og rekur heimilis- og umönnunarstörf í framhaldi af því. Hún tekur einnig til meðferðar núgildandi ákvæði í kjarasamningum ýmissa aðila sem hafa fjallað um þessi mál. Víða eru þessi mál að einhverju leyti metin þannig að starf heimavinnandi fólks er metið, en þó á ófullnægjandi hátt.

Eins og kemur fram í áliti skýrslunnar, sem ég geri ekki ráð fyrir að ræða hér því að eins og kom fram hjá hv. fyrirspyrjanda er það algjör tilviljun að skýrslan skyldi birtast á sama degi og þessi fsp. er tekin til umræðu, eru þar þrjár tillögur sem hún leggur fram.

Í fyrsta lagi tillaga 1, um að metin skuli til starfsreynslu heimilis- og umönnunarstörf þegar um hliðstæð störf er að ræða. Slíkur starfsaldur getur þó mest orðið sex ár, enda teljist eigi starfsaldur vegna launaðra starfa á sama tíma. Þegar um óskyld eða sérhæfð störf er að tefla skulu heimilis- og umönnunarstörf metin á sama hátt, þó mest til fjögurra ára starfsaldurs.

Síðan er tillaga 2. Metin skuli á sama hátt óskyld eða sérhæfð störf ef um er að tefla heimilis- og umönnunarstörf metin til hálfs í starfsaldri. Slíkur starfsaldur getur þó mest orðið sex ár, enda teljist eigi starfsaldur vegna launaðra starfa á sama tíma.

Og tillaga 3. Slíkur starfsaldur getur þó mest orðið sex ár, enda teljist eigi starfsaldur vegna launaðra starfa á sama tíma. Þegar um óskyld eða sérhæfð störf er að tefla skulu heimilis- og umönnunarstörf í minnst þrjú ár metin til starfsaldurs. Slíkur áunninn starfsaldur getur mest orðið fjögur ár.

Ég vil taka fram að auðvitað gengur tillaga 1 lengst og er að sjálfsögðu veigamest í þessu, en ég vil þó geta þess að það má alls ekki líta á þessar tillögur sem tillögur ríkisstjórnarinnar sem slíkar. Ég mun í umræðum í ríkisstjórn um málið beita mér fyrir því að þessi starfsaldurstími verði lengri, þ.e. það verði metið hærra en þarna kemur fram. En ég vil, herra forseti, aðeins segja að svar mitt við fsp. er það að hér er fyrsta skrefið tekið í þessu máli og síðan mun það tekið til umræðu síðar á þinginu.