02.12.1986
Sameinað þing: 23. fundur, 109. löggjafarþing.
Sjá dálk 1279 í B-deild Alþingistíðinda. (1118)

206. mál, fjárveitingar til Alþýðuskólans á Eiðum

Fyrirspyrjandi (Hjörleifur Guttormsson):

Herra forseti. Á þskj. 221 hef ég leyft mér að bera fram fsp. til hæstv. menntmrh. um fjárveitingar til Alþýðuskólans á Eiðum. Spurt er:

„1. Hvert er mat menntmrn. á fjárþörf til stofnframkvæmda og viðhalds bygginga við Alþýðuskólann á Eiðum á árinu 1987?

2. Hvaða tillögur hefur ráðuneytið gert um þessi efni vegna fjárlagaundirbúnings 1987?"

Þetta er fsp. Tilefni hennar er að í fjárlagafrv. er ekki að finna neina sundurliðun á fjárveitingum til viðhalds héraðsskóla eða stofnframkvæmda við héraðsskóla nema tilgreint er að 8 millj. kr. skuli verja til Héraðsskólans í Reykholti vegna áframhaldandi byggingarframkvæmda mötuneytishúss. Síðan segir, með leyfi forseta:

"Fjvn. Alþingis mun gera tillögu um skiptingu framlags milli einstakra héraðsskóla.“

Ég grennslaðist fyrir um það hjá Fjárlaga- og hagsýslustofnun hvaða tillögur hefðu farið þar í gegn um þessi efni. Þar kom aðeins fram það sem varðar rekstur skólans, en ekkert varðandi viðhald eða stofnkostnað þannig að ég sé ekki á hverju fjvn. á að byggja tillögur sínar um skiptingu. En hæstv. ráðh. getur væntanlega greint okkur frá hvernig að þessum málum er staðið af hálfu menntmrn.

Alþýðuskólinn á Eiðum er einn af elstu héraðsskólum í landinu og raunar eldri sem skólastofnun, afar þýðingarmikil í menntakerfinu á Austurlandi. Ég skoðaði aðstæður skólans á síðasta hausti eða síðsumars og mér varð þá ljóst að þar vantar geysilega mikið á að haldið sé í horfinu með eðlilegum hætti varðandi viðhald mannvirkja og aðstæður aðrar sem eðlilegt er að búa nemendum þar á heimavist og einnig kennsluaðstöðu og aðstöðu fyrir kennara. Þar skortir mikið á og satt að segja ýmislegt í hálfgerðri niðurníðslu vegna fjárskorts en alls ekki áhugaleysis heimamanna því að þar hefur verið festa í skólastarfi og skólastjórn um langt árabil.

Það er líka ástæða til að geta þess, því að oft er talað um héraðsskólana sem deyjandi stofnanir, að Alþýðuskólinn á Eiðum er það ekki. Þar er setinn hver bekkur og fullskipaður skóli þannig að það er langt frá því að þar sé um einhverja deyjandi grein að ræða. Þess vegna skiptir mjög miklu að eðlilega sé staðið að uppbyggingu og viðhaldi stofnunarinnar varðandi aðbúnað allan.