02.12.1986
Sameinað þing: 24. fundur, 109. löggjafarþing.
Sjá dálk 1294 í B-deild Alþingistíðinda. (1133)

195. mál, leiguhúsnæði

Halldór Blöndal:

Herra forseti. Ég var mikill baráttumaður fyrir því á sínum tíma að inn í 33. gr. húsnæðislaganna væri tekin heimild til þess að þeir sem vildu leigja öldruðum, öryrkjum eða námsmönnum íbúðir við hóflegum kjörum fengju inni í verkamannabústöðunum og hef m.a. rökstutt það með því hversu langt á eftir við erum í sambandi við stúdentagarðana. Mér eru afskaplega vel ljós vandkvæði margra úr þessum hópum því að auðvitað verða húsnæðismálin erfið þeim sem litlar tekjur hafa og hafa ekkert annað til ráðstöfunar en sjálfsaflafé sitt eða örorkubætur, ellilífeyri og þar fram eftir götunum. Ég hef þess vegna verið mikill hvatamaður þess að þessir hópar sitji fyrir og hef beitt mér fyrir því. Það veldur mér á hinn bóginn afskaplega miklum vonbrigðum, ekki aðeins við þessar umræður heldur yfirleitt þegar þessi mál ber á góma, þegar verið er að flytja á þinginu yfirborðstillögur, blekkingartillögur, í þá veru að þjóðfélagið hafi efni á því að láta öllum þegnum sínum í té, þeim sem það vilja, fjármagn með þeim sérstöku kjörum sem þar er gert ráð fyrir án þess að það þýði hærri skatta.

Hér er enn ein yfirborðstillagan. Þessi yfirborðstillaga hljómar þannig hjá Alþfl. að sveitarfélögin eigi að leggja fram 20% hverrar íbúðar í kaupleiguíbúðum og að þessi 20% eigi síðan að vera vaxtalaus svo lengi sem viðkomandi sýnist, en ef hann kýs að breyta íbúðinni úr leiguíbúð í kaupleiguíbúð skuli sá hinn sami geta fengið 600 þús. að láni til allt að 30 ára. Hér er þetta sama dæmi sett upp og nú þannig að ríkissjóður eigi að leggja fram 250 millj. Það er að vísu haft þannig að námsmennirnir mega vera með og aldraðir mega vera með og öryrkjarnir mega vera með, en bara í bland. Jafnframt segir hér, með leyfi hæstv. forseta: „Og svo loks þeir sem vilja fremur leigja en glíma við afborganir og vexti.“

Hvað er átt við með þessum orðum að „glíma við afborganir og vexti“? Felst í þessum orðum að húsaleigan eigi að duga fyrir afborgunum og vöxtum? Ég spyr. Það er ekki erfiðara að glíma við afborganir og vexti en húsaleigu ef það er sama fjárhæðin. Það skiptir ekki máli hvort útgjöldin heita afborganir og vextir eða hvort húsaleigan heitir bara húsaleiga ef um það er að ræða að viðkomandi eigi að greiða sömu fjárhæðina á hverju ári. Það getur komið mismunandi niður. Það getur verið að gjalddagi afborgana og vaxta sé einu sinni á ári en húsaleigan kannske mánaðarlega. En þegar upp er staðið þá er þetta sama fjárhæðin. Það sem verið er að gefa í skyn með þessum orðum er það að Kvennalistinn vilji koma mönnum undan því að standa undir afborgunum og vöxtum.

Svo spyr ég líka, og það er gott að fá um það upplýsingar: Hvernig hugsar Kvennalistinn sér þessar 250 millj.? Hvað á að gefa mikið á hverja íbúð fyrir sig og hver eiga almennt að vera stærðarmörk þessara íbúða? Ekki kemur það fram. Hér er talað um það: „Ætla má að slíkt „eyrnamerkt“ fé verði mönnum hvatning til að hefjast handa við byggingu leiguhúsnæðis“ . Það væri ekki dónalegt ef menn gætu fengið að byggja hér leiguhúsnæði, fengju peningana sumpart gefins úr ríkissjóði og eftirstöðvarnar yrðu lánaðar til 43 ára með 1% vöxtum. Hver heldur hv. þm. að greiðslubyrðin af 1 milljón sé til 40 ára með 1% vöxtum? Ég spyr. Hvað heldur hv. þm. að greiðslubyrðin sé mikil af 1 milljón á ári með 1% vöxtum til 40 ára? (KÁ: Það má reikna það út.) Það má reikna það út, já. En ég gerði ráð fyrir að þm. hefði gert sér grein fyrir því hversu mikil greiðslubyrðin væri áður en hann legði til að þessi kjör yrðu boðin þeim mönnum sem eins og hann segir sjálfur „vilja fremur leigja en glíma við afborganir og vexti“.

Og ég spyr líka: Hvernig í veröldinni stendur á því að maður skuli upplifa það hér í hinu háa Alþingi dag eftir dag, viku eftir viku, ár eftir ár að fluttar séu um það tillögur að það eigi fyrst og fremst að koma til móts við það fólk sem ekki vill sjálft bera ábyrgð á því húsnæði sem það býr í, vill ekki sjálft sjá um viðhald og endurbætur á sínum húsum, prýða þau og fegra og hugsa um umhverfið? Hvernig stendur á því að þetta fólk er alltaf hornreka í þessum umræðum? Ég hélt satt að segja að Íslendingar almennt væru þeirrar skoðunar að hver og einn, ekki bara sumir, ætti rétt á því að fá húsnæði yfir sig með skikkanlegum kjörum. Ég hélt að nábýlið hér á landi, við erum ekki svo mörg í þessu landi, væri svo mikið að við hugsuðum hvert um annars hag og værum ekki að reyna að koma með sýndartillögur eða yfirboðstillögur af þessu tagi til að slá ryki í augu fólks. Þetta vil ég segja.

Og hvaða menn eru það sem eiga að fá að byggja þessa leiguhjalla? Hverjir eiga það að vera? Ég spyr enn: Er það hugsjón þm. að byggð verði sérstök hverfi, sérstakir bústaðir fyrir fólk sem ekki vill sjálft standa undir vöxtum og afborgunum af sínum lánum? Og hver eiga svo tekjumörkin að vera? Í þessari till. er eingöngu um það talað að það eigi að skattleggja alla borgarana um 250 millj. á ári í tíu ár til þess arna.

Nú get ég, herra forseti, spurt öðruvísi. Ef við mundum nú taka þessu vel og segja: Við skulum bæta við félagslega kerfið 250 millj. að gjöf til viðkomandi. Við skulum hugsa okkur að þetta sé hrein viðbót. Og við skulum líka segja að við ætlum að bæta við 80% sem talað er um í greininni til viðbótar til þess að dæmið gangi upp. Hvað erum við þá að tala um háar fjárhæðir? Við erum að tala um 1 milljarð 250 millj. kr. sem fjármagnað verði með þessum hætti.

Mig langar að spyrja hv. þm. Það hefur verið talað um fjármögnun húsnæðislána. Við tölum um að lífeyrissjóðirnir þurfi að fá 6,5% af því fé sem þeir leggja til húsnæðiskerfisins til þess að þeir geti staðið við sínar lífeyrisskuldbindingar. Svo erum við að tala um það núna að lána þetta til 40 ára með 1% vöxtum. Hvað heldur hv. þm. að meðlag ríkissjóðs á ári hverju fyrir utan 250 millj. verði að vera mikið til að standa undir hinum hlutanum sem er lánaður með 1% vöxtum til 40 ára? Hvað þarf það að vera stór hlutur?

Ég held að það sé alveg nauðsynlegt að þessi mál séu rædd út í hörgul. Mín skoðun er sú og ég vík ekki frá henni. Við eigum að finna lausn sem kemur öllum vel. Við eigum að hækka hin almennu lán. Ég sé að það er óhjákvæmilegt vegna þeirra yfirboða sem fram koma, þó að við eigum erfitt með það. Þó að við verðum að þrengja okkur til þess er ég reiðubúinn að vinna að því að við hækkum lánin fyrir alla og við reynum að sameinast um það, en reynum ekki að koma til móts við suma miklu meira en að fullu og miklu meira en sanngjarnt er en láta hina sem verr eru settir vera áfram í sömu sporunum.