02.12.1986
Sameinað þing: 24. fundur, 109. löggjafarþing.
Sjá dálk 1302 í B-deild Alþingistíðinda. (1138)

195. mál, leiguhúsnæði

Stefán Valgeirsson:

Herra forseti. Ég get tekið undir að það var stigið stórt skref í sambandi við breytinguna á húsnæðislöggjöfinni og veitti ekkert af. Ég vil segja að þetta form, sem Kvennalistakonur hafa valið sér um að flytja þáltill. um þetta málefni, er alveg í fullu gildi og hv. þm. fá enn þá betra tækifæri til að skiptast á skoðunum um slíkt form. Ég er hissa á jafnreyndum þm. og hv. þm. Halldóri Blöndal að hann skuli vera að reka hornin í þessa aðferð til þess að fá umræðu um þetta mál hér á hv. Alþingi.

Hitt get ég ekki verið honum sammála um, að það sé sjálfsagt fyrst og fremst að hugsa um þá sem betur mega sín í þessu þjóðfélagi og hafa möguleika á að eignast sjálfir íbúð, að hinir sitji eftir. Það er gott og blessað að vilja byggja stúdentagarða og það er rétt að í vissum tilvikum er þar um vandamál að ræða. En það er enn þá meira vandamál annars staðar í þjóðfélaginu að þessu leyti og þess vegna þurfum við að líta þangað. Það er málið. Ég vona bara að menn velti því fyrir sér og reyni að kryfja það til mergjar hvar þörfin er mest. Hefur hv. þm. kynnt sér það bæði hér í Reykjavík og í okkar kjördæmi hvaða húsnæði sumir verða að láta sér lynda og hafa ekki um aðra möguleika að ræða? Er það okkur til hróss að vera með bundið fyrir bæði augun eða líta í aðra átt þegar við vitum það sanna í þessu efni? Nei, eins og ég sagði í fyrri ræðu minni, þá er það til skammar, hvorki meira né minna, bæði fyrir okkur sem hér erum og sum bæjarfélögin, hvernig er búið að þessu gamla fólki og einstæðum mæðrum og barnmörgu fólki. Við getum auðvitað breytt til og reynt að borga þessu láglaunafólki það hátt kaup að það geti eignast íbúðir. Það er önnur leiðin. (HBI: Getur það ekki með verkamannabústöðum? Er þetta ekki að mæla á móti því?) Það er alveg spurning í mörgum tilvikum að það sé hægt. Og slíkar íbúðir liggja ekki á lausu, það veit hv. þm.

Ég ætla ekki að tefja þessa umræðu. Ég vil bara láta þá skoðun í ljósi hér og nú að það á fyrst og fremst að hugsa um það fólk sem er í neyðinni. Það verður að sitja fyrir hinum sem eru betur staddir.