03.12.1986
Efri deild: 16. fundur, 109. löggjafarþing.
Sjá dálk 1304 í B-deild Alþingistíðinda. (1142)

207. mál, Iðnlánasjóður

Iðnaðarráðherra (Albert Guðmundsson):

Hæstv. forseti. Ég mæli fyrir frv. til l. um breytingu á lögum nr. 68 frá 10. okt. 1967, um iðnlánasjóð, með síðari breytingum. Það er 207. mál á þskj. 222.

Aðdragandi máls þessa er að með lögum nr. 55 frá 36. maí 1984, um breytingu á fyrrnefndum lögum nr. 68 frá 1967, um Iðnlánasjóð, var iðnlánasjóðsgjaldið hækkað um 0,05%, í 0,25% af aðstöðugjaldsstofni. Jafnframt var kveðið svo á um að 2/7 hlutum af gjaldinu skyldi ráðstafað óskiptum til Útflutnings miðstöðvar iðnaðarins.

Með lögum nr. 38 frá 5. maí 1986 var ákveðið að stofna Útflutningsráð Íslands. Útflutningsráð yfirtók 1. okt. s.l. starfsemi Útflutningsmiðstöðvar iðnaðarins. Í 6. gr. laga nr. 38 frá 1986, um Útflutningsráð, var mælt svo fyrir að hið nýstofnaða útflutningsráð skyldi njóta hlutdeildar þeirrar í iðnlánasjóðsgjaldi sem áður rann til Útflutningsmiðstöðvar iðnaðarins. Með frv. þessu er því verið að samræma lögin um Iðnlánasjóð lögum um Útflutningsráð Íslands.

Í frv. er jafnframt lagt til að lögin þannig breytt verði endurútgefin í heild. Ekki er vanþörf á því, enda hefur lögunum verið breytt níu sinnum frá árinu 1967. Reyndar var ætlunin að endurútgefa lögin vorið 1984, en frá því var horfið þar sem líkur þóttu til að heildarlög um sjóði atvinnuveganna yrðu samþykkt. Svo varð þó ekki og er því lagt til að lögin verði nú endurútgefin í heild sinni.

Að lokinni 1. umr., virðulegi forseti, legg ég til að málinu verði vísað til hv. iðnn. og 2. umr.