03.12.1986
Efri deild: 16. fundur, 109. löggjafarþing.
Sjá dálk 1305 í B-deild Alþingistíðinda. (1144)

209. mál, sjómannadagur

Sjávarútvegsráðherra (Halldór Ásgrímsson):

Virðulegur forseti. Ég mæli fyrir frv. til l. um sjómannadag, en sjómannadagurinn, fyrsti sunnudagur í júní, hefur verið haldinn hátíðlegur í nær 50 ár, í fyrsta skipti 6. júní 1938.

Ekki er ástæða til að rekja sögu þessa merka dags hér, hún er öllum kunn, en tilgangur dagsins var frá upphafi að halda árlega hátíð sjómönnum til heiðurs, minnast látinna sjómanna, einkum þeirra sem létust af slysförum á sjó. Þessum merkjum hefur síðan verið haldið á loft og dagurinn hefur frá upphafi verið almennur hátíðisdagur í útgerðarstöðum um land allt.

Samt sem áður hefur það verið svo að dagurinn hefur ekki verið allsherjarfrídagur sjómanna. Framan af lögðu sjómannastéttin og forustumenn hennar ekki megináherslu á að sjómannadagurinn yrði almennur frídagur sjómanna, enda gekk lífið oftast mest út á það að afla sér og sínum viðurværis.

Með batnandi hag og ríkari stéttarvitund hefur þessari hugmynd vaxið mikið fylgi. Í kjarasamningum margra sjómannafélaga hafa verið sett ákvæði um þetta efni, þó með allvíðtækum fyrirvörum. Félögin hafa og gert samþykktir um þetta mál og beint áskorunum til stjórnvalda þar um.

Nú þegar u.þ.b. hálf öld er liðin frá því að sjómannadagurinn var fyrst haldinn þykir ástæða til þess að flestra dómi að koma fastari skipan á frí sjómanna þennan dag.

Ég skal ekki rekja frv. þetta í löngu máli, enda hafa mál þessi komið til umræðu í hv. Ed. Ég get hins vegar tekið það fram að ég hef lengi verið þeirrar skoðunar að sjómannadagurinn ætti að vera allsherjarfrídagur sjómanna með sem minnstum undanþágum. Það er hins vegar ljóst að ekki verður hjá því komist að nokkrar undanþágur séu gerðar.

Það hefur orðið nokkur bið á því að þetta frv. yrði flutt, einkum vegna þess að menn hafa viljað leitast við að ná sem bestri samstöðu um málið. Það sem hefur staðið í vegi fyrir því að slík samstaða hafi getað náðst eru aðallega þrjú atriði.

Í fyrsta lagi verður að líta til þess að sjómannadagurinn er dagur allra sjómanna, ekki eingöngu fiskimanna, einnig þeirra sem vinna á farskipum, varðskipum, hafrannsóknaskipum. Oft er erfitt að stöðva öll þessi skip í landi einn ákveðinn dag.

Í öðru lagi fylgir frídegi röskun á úthaldi skipa, bæði sem selja á erlendum markaði og vissulega einnig þeirra sem landa innanlands. Í því sambandi er rétt að geta þess að það hafa ýmsir haldið því fram að sjómannadagurinn gæti orðið þess valdandi í sumum byggðarlögum að allt of mikill afli bærist á land rétt fyrir frídaginn. Það eru vissulega dæmi þess að slíkt gerist þar sem sjómannadagurinn er haldinn af fiskimönnum undantekningarlaust eins og gert er í nokkrum landshlutum.

1. gr. frv. fjallar um hvenær dagurinn skuli haldinn, þ.e. fyrsta sunnudag í júnímánuði ár hvert, með þó þeirri undantekningu að beri hvítasunnudag upp á fyrsta sunnudag í júní skuli sjómannadagurinn haldinn næsta sunnudag á eftir. Það var svo þegar kosið var til sveitarstjórna á s.l. ári að sjómannadeginum var víðast hvar frestað vegna þess. Þó var það ekki alls staðar. Ég ætla ekki að fara út í ástæður þess að það var gert, en það varð þess valdandi að allmikil óánægja var með að eitthvert hringl skyldi koma á það að dagurinn væri haldinn hátíðlegur á eðlilegum tíma. Þar sem hann var haldinn hátíðlegur þann dag sem ætlast var til virtist það ganga vel, a.m.k. var það svo þar sem ég var staddur þann dag og var ekki að heyra á sjómönnum þar að neitt væri því til fyrirstöðu að hann væri haldinn sömu helgi og kosningarnar fóru fram þótt það sé vissulega betra að slíkt rekist ekki á.

Í 2. gr. kemur fram að ákvæði þessara laga taki ekki til sjómanna á íslenskum farskipum sem sigla milli Íslands og annarra landa. Þó eru ákvæði um að ef farskip hefur eigi látið úr höfn fyrir kl. 24 á föstudegi fyrir sjómannadag skuli það eigi láta úr höfn fyrr en kl. 12 á mánudagsmorgni. Síðan eru ákvæði um strandferðaskip og sanddæluskip.

Í 3. gr. eru ákvæði um Landhelgisgæsluna og í 4. gr. um Hafrannsóknastofnun, en í 5. gr. eru undantekningar frá þessari almennu reglu sem þar koma fram.

Þar kemur í fyrsta lagi fram sú skylda varðandi öll fiskiskip að þau skulu liggja í höfn á sjómannadegi, eigi koma síðar til hafnar en kl. 12 á laugardegi fyrir sjómannadag og ekki láta úr höfn fyrr en kl. 12 á mánudagsmorgni næsta dag á eftir. Síðan kemur fram að ákvæði 1. mgr. í 5. gr. séu frávíkjanleg ef um er að ræða skip sem ætla að sigla með afla sinn á erlendan markað eða aðrir mikilvægir hagsmunir eru í húfi, enda hafi samkomulag tekist um slíkt milli útgerðarmanns og meiri hluta skipshafnar. Slíkt samkomulag þarf að liggja fyrir fjórum vikum fyrir sjómannadag og skal það tilkynnt viðkomandi sjómannafélagi.

Það liggur fyrir að svo er á ýmsum stöðum, sérstaklega háttar þannig til t.d. í Reykjavík og á Akureyri, að það hefur verið góð samstaða um það, eftir því sem mér er tjáð, milli útgerðar og sjómanna að hluti af skipunum sé úti á sjómannadag. Eftir því sem forráðamenn þeirra útgerðarfélaga hafa tjáð mér telja þeir að slíkt samkomulag ætti að geta verið milli sjómanna og útgerðar þegar þannig háttar til.

Auðvitað er það einnig svo á ýmsum öðrum stöðum á landinu þótt menn hafi látið sig hafa það að taka á móti miklum afla rétt fyrir sjómannadaginn. Þannig er t.d. að því er varðar humarvertíðina sem þá er að byrja. Mikið berst að landi fyrir helgina í þeim verstöðvum sem humar er aðallega landað í svo að ég nefni dæmi. Auðvitað hefur þetta í för með sér röskun á vinnslu á viðkomandi stöðum og það tekur nokkurn tíma að koma róðrum skipanna í eðlilegt horf eftir þann tíma. Slík vandamál hafa menn hins vegar getað yfirstigið með góðu samkomulagi í viðkomandi verstöðvum og engin ástæða að ætla annað en að svo geti orðið áfram.

Það má segja að um þetta mál eru enn skiptar skoðanir milli sjómanna og útvegsmanna. Sjómenn telja að engar undantekningar eigi að vera í þessum lögum. Það eigi að vera skylda að öll fiskiskip skuli vera í höfn á sjómannadag undantekningarlaust. Það hefur hins vegar enginn látið sér detta í hug að stöðva farskipin þennan dag og ég býst ekki við að slíkar skoðanir séu uppi. Hins vegar telja útvegsmenn að of langt sé gengið í þessu efni og má segja að hér sé um nokkra málamiðlun að ræða milli þeirra sjónarmiða sem hafa komið fram.

Ég vænti þess að þegar fjallað verður um frv. þetta í nefnd fái þm. tækifæri til að kynna sér betur þessi sjónarmið. Ef menn sjá einhverja betri leið til málamiðlunar milli þessara andstæðu sjónarmiða er ekkert að því að gera þar einhverja breytingu á. Hitt er svo annað mál að ég efast um að hún finnist. Menn hafa t.d. talað um að atkvæðagreiðsla eigi að fara fram um borð í skipum. Ég á ekki von á því að slíkt sé á nokkurn hátt nauðsynlegt. Venjulega standa menn vel saman um borð í slíkum skipum og það er yfirleitt mikill meiri hluti fyrir ákvörðunum sem teknar eru um borð í íslenskum fiskiskipum þegar málin hafa verið rædd. Ég held því að það sé ekki rétt að atkvæðagreiðsla þurfi að fara fram um borð. Hins vegar er óeðlilegt að einn og einn maður geti stöðvað meirihlutavilja áhafnar ef þeir telja að hagsmunum sínum sé betur borgið með öðrum hætti.

Ég vil að lokum leggja til að frv. þessu verði vísað til 2. umr. og hv, sjútvn.