03.12.1986
Efri deild: 16. fundur, 109. löggjafarþing.
Sjá dálk 1308 í B-deild Alþingistíðinda. (1145)

209. mál, sjómannadagur

Eiður Guðnason:

Virðulegi forseti. Fyrir nokkrum vikum mælti ég fyrir frv. til l. um sama efni og það frv. fjallar um sem er nú til umræðu. Það frv. var að vísu einfaldara í sniðum og ekki tekið tillit til allra þeirra tilvika sem um er fjallað í þessu frv.

Ég vil hins vegar í stuttu máli lýsa ánægju með að hæstv. sjútvrh. skuli hafa flutt þetta frv. Mér er fyllilega ljóst, eins og hann raunar rakti í sinni ræðu, að um þetta eru nokkuð skiptar skoðanir, kannske að einhverju leyti meðal sjómanna sjálfra um útfærsluna í smáatriðum, en einkum þó milli sjómanna og útvegsmanna sem telja hér of langt gengið, en sjómenn telja hins vegar of skammt gengið.

Mér hafa borist ýmsar athugasemdir sem sjómannasambandsþing, sem haldið var í október, gerði við frumvarpsdrög sem þá lágu fyrir og ég hygg að einhverjar þeirra athugasemda hafi þegar verið teknar til greina en aðrar ekki, en það gefst auðvitað tækifæri til að skoða þetta mál betur í nefnd. Það eru hér ýmis álitamál.

Ég bendi á að ef ég man rétt var fyrra frv. um sama efni vísað til allshn. Hins vegar hefur hæstv. sjútvrh. gert tillögu um að þessu máli verði vísað til sjútvn. Nú er það algert álitamál í rauninni hvar þetta mál á heima og ég hygg að það megi rökstyðja hvort fyrir sig, að allshn. fjalli um þetta eða sjútvn., en ég held að það hefði verið að vissu leyti æskilegt ef þessi frv. hefðu bæði hafnað í sömu nefnd þannig að það væri hægt að fjalla um þau samtímis.

Það sem skiptir meginmáli í þessu sambandi er að efnisatriði málsins nái fram að ganga, ekki hver er höfundur frv. eða hver leggur það fram. En ég túlka það svo að þar sem sjútvrh. hefur lagt fram stjfrv. um þetta efni muni lögfesting sjómannadagsins sem frídags ná fram að ganga. Sá var auðvitað tilgangur minn með flutningi frv. sem ég vék að áðan. Það er höfuðmál að þetta nái efnislega fram að ganga og vissulega væri það ekki verra ef Alþingi treysti sér til að afgreiða þetta núna fyrir jólin. Ég held að um þetta mál sé ekki verulegur ágreiningur í þinginu. Ég get a.m.k. ekki ímyndað mér það. Það kemur þá væntanlega í ljós. En ég fagna því sem sagt að þetta frv. skuli hafa komið hér fram.