03.12.1986
Efri deild: 16. fundur, 109. löggjafarþing.
Sjá dálk 1310 í B-deild Alþingistíðinda. (1147)

209. mál, sjómannadagur

Skúli Alexandersson:

Virðulegi forseti. Ég fagna því að hér skuli vera komið fram stjfrv. um lögbindingu á frídegi sjómanna, sjómannadeginum, og lýsi stuðningi mínum við frv. að meginefni til eins og ég gerði um það frv. sem var hér til umræðu fyrir skömmu og var reyndar lagt fram á síðasta ári líka og flutt af sömu þm.

Það er reyndar skrýtið að ekki skuli hafa komið fram fyrr á hv. Alþingi tillögur um að gera þennan dag að skyldufrídegi. Það er að verða hálf öld síðan þessi dagur var upphaflega hátíðlegur haldinn, 6. júní 1938. Ég er þess vegna ekki neitt hissa á áhuga ráðherra á að koma þessu máli inn á þing núna og fá þennan dag samþykktan sem frídag.

Það er ýmislegt í frv. sem kannske orkar tvímælis. Ég vil þá nefna fyrst í sambandi við 1. gr. að þar er lagt til að sjómannadagurinn verði fyrsti sunnudagur í júní eins og jafnan hefur verið ef ekki er hvítasunna og það skuli bundið að önnur helgin í júní skuli vera frídagurinn þegar hvítasunnu ber upp á fyrsta sunnudaginn. Í fyrra bar kosningadag upp á laugardaginn fyrir sjómannadag og af því urðu nokkur vandræði sums staðar. Þetta getur gerst oftar. Hefur þó reyndar verið reiknað út að það séu ekki líkur fyrir því að þetta verði algengt. Ég tel þess vegna að það sé ekki neinn vafi á að það eigi að halda sig við fyrsta sunnudag í júní, en mér finnst vera nokkru meiri vafi á því hvort það eigi að fresta sjómannadeginum. Ég hef tilfinningu fyrir því að það séu meiri rök fyrir því að færa hann framar, færa hann til síðustu helgarinnar í maí. Það er reyndar kjördagur til sveitarstjórnarkosninga, en líkurnar fyrir því að þetta falli saman, að hvítasunna sé fyrsta sunnudaginn og kjördagur síðustu helgi í maí, eru ekki miklar. Ég hef ekki látið líta á þetta, en mér finnst einhvern veginn að það liggi ekki í hlutarins eðli að þetta falli oft saman.

Ég tel að þessi breyting væri æskileg vegna þess að eins og hér hefur komið fram er sjómannadagurinn mjög mikill hátíðisdagur víða um land. Hann er sannkallaður þjóðhátíðardagur. Eins og hv. 5. þm. Norðurl. e. var að lýsa hér eru þá stórhátíðir í Vestmannaeyjum, Neskaupstað og víðar. Í flestum sjávarþorpum landsins eru þetta mjög miklir hátíðisdagar. Ef frídagurinn er færður aftur, sem yrði fjórða hvert ár eða svo, aftur að annarri helgi í júní, erum við komin ansi nálægt þjóðhátíðardeginum 17. júní. Ég hef reynslu fyrir því og veit það að þegar sjómannadagurinn er haldinn á seinni helginni skemmir þetta fyrir báðum þessum hátíðum. Það verður minna úr sjómannadeginum og það verða líka minni hátíðahöld 17. júní. Ég tel að það muni ekki breyta miklu tíðarfarslega hvort sjómannadagurinn er haldinn síðustu helgina í maí. Sumir munu kannske óttast að það séu heldur meiri líkur fyrir verra veðri í lok maí en fyrri hluta júní, en þar er varla mikill munur á.

Þessari skoðun minni vildi ég skjóta inn í umræðuna núna, leyfa þm. að heyra mína skoðun á þessu máli, en ég mun halda þessari skoðun fram að einhverju leyti í nefnd þó að ég geri ekki þetta að tilefni til brtt. við málið ef ekki verður samkomulag um það í nefnd milli hagsmunaaðila.

Ég tek undir það sem hv. 5. þm. Norðurl. e. sagði um klukkuna í texta frv. Það er einhver misgáningur þar. Það er talað um kl. 24 á föstudegi, kl. 12 á mánudagsmorgni, kl. 12 á laugardegi o.s.frv. Þetta verður sjálfsagt lagað í nefnd.

Í 4. gr. er fjallað um Hafrannsóknastofnunarflotann og hvernig sú stofnun skuli stjórna sínum skipum til þess að sjómenn hennar fái notið þessa frídags. Mér finnst ástæðulaust að þarna sé einhver undanþága. Ég held að það hljóti að vera hægt að skipuleggja starf Hafrannsóknastofnunarinnar þannig að það eigi ekki að þurfa að undanskilja sjómenn hennar þessum frídegi.

Í 5. gr. koma svo aðalundanþágurnar eða í lok 5. gr. Fyrri hluti greinarinnar er reyndar um það hvaða skip skuli liggja í höfn, en lok greinarinnar eru á þann veg að ákvæði 1. mgr. séu frávíkjanleg ef um er að ræða skip sem ætlað er að sigla með afla sinn á erlendan markað og að aðrir hagsmunir séu í húfi. En þetta er bundið því að ákveðið samkomulag eigi sér stað.

Mér finnst að þessi hluti greinarinnar sé algerlega óþarfur. Ég tel fráleitt að það sé verið að mismuna bæði þeim sem eru á skipunum og um leið ákveðnum rekstrarþáttum, þ.e. fiskvinnslunni. Það er verið að gera fiskvinnsluna hér heima að hluta til skylduga að hafa sín skip í landi, en þeir sem ætla að sigla og þjóna erlendum aðilum skulu vera undir aðrar reglur settir. Og að það sé ekki erfitt að skipuleggja hvernig afli berst að fiskvinnslustöðvum. Ja, hugsum okkur stóra fiskvinnslustöð í Reykjavík, t.d. Granda, eða Útgerðarfélag Akureyringa, að þeir góðu menn sem stjórna þar geti ekki í tæka tíð skipulagt siglingu skipa sinna til hafnar þannig að þau hrúgist ekki öll að landi á föstudegi. Það mundi ekki verða stórslys þó að lengdist frítími einnar eða tveggja skipshafna um einn eða tvo daga. Væri ekki hægt að kalla togarana inn aftur eftir helgina á mismunandi tímum? Hvernig er stjórnin í fiskvinnslunni ef ekki er hægt að gera hluti sem þessa? Og á að fara að mismuna sjómönnum á skipum út frá einhverjum hugmyndum þeirra sem stjórna fiskvinnslunni? Mér finnst það alveg fráleitt.

Frekar er verið að skapa vandamál með þessum undanþágum en að það sé verið að leysa þau vandamál sem skapast af því að þessi dagur verður lögbundinn. Ég tel að einmitt sem undanþáguminnst séu málin farsælast leyst. Það mun ábyggilega ganga jafnt yfir útgerðarmenn og fiskverkun ef það verður gert á þann veg. Allar undanþágur frá svona ákvæðum eru af hinu verra og skapa óánægju á milli aðila.

Þeim rökum að það skapist ákveðnar aðstæður þar sem mörg skip sjái um hráefnisöflunina var haldið fram líka þegar var verið að tala um að ekki mætti hafa helgarfrí. Þetta eru nákvæmlega sömu rökin og beitt var í umræðunum þegar var verið að semja um helgarfríin á bátaflotanum. Þá var sagt að það truflaði hráefnisöflun og annað eftir því.

Þetta frv. kemur nú til sjútvn. Ég veit að a.m.k. sumir hagsmunaaðilar telja það eðlilegri málsmeðferð en að það fari í félmn. eða allshn. Ég veit að við í sjútvn. munum leggja allan okkar metnað í að koma þessu máli sem fyrst frá okkur og vinna á þann veg að það verði öruggt að þetta mál fái afgreiðslu á þessu þingi.