03.12.1986
Efri deild: 16. fundur, 109. löggjafarþing.
Sjá dálk 1314 í B-deild Alþingistíðinda. (1151)

209. mál, sjómannadagur

Eiður Guðnason:

Virðulegi forseti. Ég ætlaði raunar ekki að kveðja mér hljóðs að nýju, en það er þó tvennt sem veldur því að mig langar til að segja nokkur orð til viðbótar.

Í fyrsta lagi ræddi ég stuttlega um það í minni fyrri ræðu að fyrra frv. um þetta efni hefði verið vísað til allshn. eða mig minnti að svo hefði verið gert. Það reyndist rétt við athugun. Hins vegar er mér kunnugt um að sjútvrh. leggur á það nokkra áherslu og með rökum að þessu máli verði vísað til sjútvn. vegna þess að hér er um að ræða hagsmunamal sem varðar bæði sjómenn og útvegsmenn. Ég fellst vissulega á þau rök. En ég mundi gera það óformlega að tillögu minni að allshn. sendi hv. sjútvn. til umsagnar það frv. sem þar liggur þannig að um þetta mál megi verða sem mest eining.

En önnur ástæða þess að ég kvaddi mér hljóðs var sú ræða sem hv. 3. þm. Suðurl. flutti úr þessum ræðustól áðan. Hann hefur þann ágæta hæfileika að geta komið mönnum á óvart með ýmsum hætti. Hann gat ekki á sér setið, hv. 3. þm. Suðurl., um leið og hann fagnaði þessu frv. sjútvrh., að senda okkur tóninn sem flutt höfðum hitt frv. Fannst mér það nánast óþarfi og m.a. þess vegna fann ég mig knúinn til að standa hér upp.

Í sumar var greint frá því allítarlega í Morgunblaðinu að hv. þm. Árni Johnsen hefði fengið þá formann Farmanna- og fiskimannasambandsins, Guðjón Kristjánsson, og Óskar Vigfússon, formann Sjómannasambandsins, til að vinna álitsgerð um lögbindingu sjómannadagsins. Síðan sagði í Morgunblaðinu:

„Með þetta álit til hliðsjónar hyggst Árni Johnsen alþm. flytja till. á þingi í haust ásamt fleirum um lögbindingu þessa dags sem frídags fyrir sjómenn.“

Í annarri grein síðar sagði sami hv. þm., og vitna ég til Morgunblaðsins, ekki ómerkari heimildar: „Þingmenn Sjálfstfl. eru samþykkir því að sjómannadagurinn verði lögbundinn og þar með er kominn hryggur í málið, en ég mun vinna að því að málið verði flutt á næsta þingi að öllu óbreyttu og ekki verra að eiga Eið Guðnason vísan liðsmann þegar á hólminn er komið.“

Ég veit ekki hvað þessi hryggur er alltaf að þvælast fyrir hv. þm. Árna Johnsen. Hann var að tala um þennan hrygg áðan.

En hvernig er þetta mál vaxið? Styðja þm. Sjálfstfl. þetta mál allir óskipt? Sumir þeirra gera það. Ég heyrði ekki að hv. 5. þm. Norðurl. e. Björn Dagbjartsson styddi þetta mál. Hann hafði. a.m.k. marga fyrirvara á því og flutti satt að segja mjög einkennilega ræðu að mér fannst. Raunar kom hún kannske ekki á óvart vegna þess að ég þykist hafa tekið eftir því að í hvert einasta skipti sem hæstv. sjútvrh. hreyfir einhverju máli hér hefur hv. 5. þm. Norðurl. e. ævinlega á því aðra skoðun, hvert svo sem málið er. Ég hygg mig hafa fylgst með þessu nokkuð lengi.

En er það hryggurinn í málinu að það er ágreiningur um þetta milli þm. Sjálfstfl. eins og kom berlega fram áðan, því miður?

Það var hv. 3. þm. Suðurl. ekki til mikils sóma það hnútukast sem hann var hér með áðan. Það setur svo sem ekki meiri hrygg í málið. Og kannske eru sum mál sem hv. þm. flytur hálfgerðir hryggleysingjar ef betur er að gáð. Ég held a.m.k. að það sé ekki mikið kjöt á óllum þeim beinum sem rekur frá honum inn á hið háa Alþingi.

Ég endurtek, virðulegi forseti, að ég held að það sé eðlilegt og fyrir því hafa verið flutt hér rök að um þetta mál verði fjallað í hv. sjútvn., það sé að ýmsu leyti eðlilegra en að hafa þessi tvö frv. í sitt hvorri nefnd, og að allshn. sendi sjútvn. málið til meðferðar og það fái þá meðferð. Og þar sem flestir hv. þm., að undanteknum hv. 5. þm. Norðurl. e., hafa tekið vel í það mál að lögbinda frídag sjómanna sýnist mér ekkert því til fyrirstöðu að þetta mál ætti að geta fengið afgreiðslu hér áður en þinghaldi lýkur fyrir jól.