03.12.1986
Neðri deild: 16. fundur, 109. löggjafarþing.
Sjá dálk 1320 í B-deild Alþingistíðinda. (1161)

211. mál, kjarasamningar opinberra starfsmanna

Fjármálaráðherra (Þorsteinn Pálsson):

Herra forseti. Ég mæli hér fyrir frv. til laga um kjarasamninga opinberra starfsmanna, það er 211. mál á þskj. 226.

Frá því á árinu 1976, þegar sett voru sérstök lög um kjarasamninga Bandalags starfsmanna ríkis og bæja, hafa verið í gildi tvenn lög um kjarasamninga opinberra starfsmanna. Önnur þeirra eru framangreind lög, nr. 29/1976. Skv. þeim lögum fer Bandalag starfsmanna ríkis og bæja með umboð til þess að gera aðalkjarasamning við fjmrn. fyrir hönd aðildarfélaga sinna en þau annast hins vegar gerð sérkjarasamninga. Að því er tekur til starfsmanna sveitarfélaga fara einstök félög þeirra með umboð til gerðar aðalkjarasamnings og sérkjarasamnings við viðkomandi sveitarstjórnir. Skv. lögum þessum hefur Bandalag starfsmanna ríkis og bæja rétt til að gera allsherjarverkfall í þeim tilgangi að knýja á um gerð aðalkjarasamnings. Verkfallsréttur þessi er þó takmarkaður á ýmsan hátt og aðdragandi verkfalls með öðrum hætti en á almennum vinnumarkaði. Hin lögin, er að þessu lúta, eru lög um kjarasamninga opinberra starfsmanna frá 1973 en þau eru með síðari breytingum, sbr. lög nr. 62/1985. Þau lög gilda nú um Launamálaráð ríkisstarfsmanna innan Bandalags háskólamanna og Bandalag kennarafélaga, en það fékk fyrr á þessu ári viðurkenningu til samningsgerðar sem heildarsamtök skv. þeim lögum. Auk þess gerir Læknafélag Íslands kjarasamninga fyrir sjúkrahúslækna á grundvelli þeirra laga. Meginmunur þessara tvennra laga liggur í því að í þeim síðarnefndu er ekki heimild til verkfallsákvörðunar. Um þá starfsmenn sem undir þau lög falla gilda því lög nr. 33/1915, um verkfall opinberra starfsmanna.

Á undanförnum árum hefur æ gleggra komið í ljós að ýmsir annmarkar eru á núverandi skipan samningamála. M.a. hefur það komið fram í ágreiningi milli samningsaðila um túlkun á lögunum, bæði í verkfalli Bandalags starfsmanna ríkis og bæja í október 1984 og í málsmeðferð í málum Bandalags háskólamanna fyrir kjaradómi á síðasta ári. Enn fremur hefur það sýnt sig að núgildandi lög hafa ekki til að bera þann sveigjanleika sem nauðsynlegur er og hefur það m.a. leitt til klofnings og útgöngu einstakra félaga, bæði úr Bandalagi starfsmanna ríkis og bæja og Bandalagi háskólamanna.

Í allmörgum samningaviðræðum á undanförnum árum hefur Bandalag starfsmanna ríkis og bæja borið fram þá ósk að lögum um samningsrétt bandalagsins yrði breytt á þann veg að samningsréttur og verkfallsréttur flyttust til einstakra aðildarfélaga bandalagsins. Ekki var tekið undir þessar óskir af fjmrn. fyrr en í febrúar á þessu ári þegar fjmrn. lýsti sig reiðubúið til þess að vinna að breytingu á löggjöfinni í þá átt sem óskir bandalagsins hnigu en með vissum skilmálum varðandi takmörkun á umfangi og framkvæmd verkfalla.

Í viðræðum við hin bandalögin kom í ljós að þar var einnig vilji fyrir hendi til að vinna að hliðstæðum breytingum og var við gerð kjarasamninga við öll bandalögin á fyrri hluta ársins ákveðið að aðilar að hverjum samningi um sig skyldu undirbúa endurskoðun núgildandi laga um samningamál opinberra starfsmanna.

Á þessu stigi málsins hafði fjmrn. gert viðsemjendum sínum grein fyrir grundvallarviðhorfum sínum til breytinga á lögum um kjarasamninga. En þessi voru helstu atriðin sem þá komu fram:

Í fyrsta lagi að ein lög giltu fyrir alla ríkisstarfsmenn að þessu leyti, óháð félagsskipan og heildarsamtökum.

Í öðru lagi að samningsréttur verði í höndum einstakra stéttarfélaga í stað bandalaga stéttarfélaganna.

Í þriðja lagi að verkfallsréttur fylgi samningsrétti en með svipuðum takmörkunum og verið hafa í framkvæmd hjá Bandalagi starfsmanna ríkis og bæja.

Í fjórða lagi að starfsmenn stjórnarráðs og lögreglumenn hefðu ekki verkfallsrétt og vinnuskylda í verkfalli hvíldi einnig á starfsmönnum við nauðsynlegustu öryggis- og heilsugæslu.

Í fimmta lagi að kjaradeilunefnd yrði lögð niður og verkefni hennar leyst með öðrum hætti.

I sjötta lagi að skylda sáttasemjara til að leggja fram sáttatillögu yrði afnumin.

Áður en gengið yrði að því verki að semja lagafrv. í samræmi við þessi atriði taldi fjmrn. rétt að kanna viðhorf þeirra stétta sem ráðgert var að ekki hefðu verkfallsrétt. Voru þau mál rædd í tengslum við sérkjarasamninga við Landssamband lögreglumanna og Tollvarðafélag Íslands. Lauk þeim viðræðum með samkomulagi við þessa aðila um flutning frv. um breytingu á lögum um lögreglumenn er banni þeim verkfall. Það frv. hefur nú verið lagt fram og í grg. þess koma fram þau viðhorf sem liggja til grundvallar og verða því ekki rakin hér frekar.

Meginrökin fyrir sérstökum lögum um samningsrétt opinberra starfsmanna felast annars vegar í sérstöðu þeirra hvað ráðningarkjör varðar og hins vegar í sérstöðu ríkisins sem vinnuveitanda og þeim skyldum sem ríkið hefur lögum samkvæmt á ýmsum sviðum og ekki má verða háð verkfalli hvort sinnt verður eða ekki.

Eftir fyrstu fundi í nefndum með hverju bandalagi um sig þar sem kynntar voru fyrstu hugmyndir um breytingar á núgildandi kjarasamningalögum ákváðu bandalögin að ganga sameiginlega til þessara viðræðna og undirbúningsvinnu. Skipuðu þessir aðilar sameiginlega viðræðunefnd sem skilaði af sér 24. nóv. s.l. frv. þessu og samkomulagi allra þessara aðila, fjmrn. og fulltrúa Sambands ísl. sveitarfélaga um að vinna því brautargengi.

Í grg. með frv. er gerð ítarleg grein fyrir breyttum og nýjum efnisatriðum og skulu þau ekki rakin hér í einstökum atriðum. En rétt er þó að draga saman þau meginatriði sem greina frv. þetta frá núgildandi lögum og skýra þau viðhorf sem þar liggja að baki.

Í núgildandi lögum er umboð til að gera samninga annars vegar bundið við Bandalag starfsmanna ríkis og bæja og hins vegar við þau heildarsamtök sem fjmrh. veitir viðurkenningu skv. lögum um kjarasamninga opinberra starfsmanna. Umboð til að gera aðalkjarasamning er með þessum hætti takmarkað við fáa aðila og umboð til að gera sérkjarasamninga er í höndum þeirra félaga sem geta og vilja vera aðilar að þessum heildarsamtökum.

Í fyrirliggjandi frv. er umboð til samningsgerðar ekki bundið með þessum hætti en gert ráð fyrir að hvert það stéttarfélag starfsmanna ríkis eða sveitarfélaga sem uppfyllir tiltekin almenn skilyrði geti orðið samningsaðili óháð því hvort það er innan heildarsamtaka eða ekki. Gildandi lög eru fyrst og fremst miðuð við ríkið og starfsmenn þess en um samninga starfsmanna sveitarfélaga hafa gilt ákvæði reglugerðar sem sett hefur verið með þeim lögum. Ákvæði fyrirliggjandi frv. eru miðuð við að þau geti tekið til sveitarfélaga og starfsmanna þeirra með sama hætti og til ríkisins og starfsmanna þess.

Heimild til verkfalls, sem skv. gildandi lögum nær einungis til Bandalags starfsmanna ríkis og bæja, færi skv. frv. til einstakra stéttarfélaga. Takmarkanir á verkfallsrétti og ákvæði um aðdraganda verkfallsboðunar eru á ýmsan hátt hliðstæð því sem nú gildir um Bandalag starfsmanna ríkis og bæja. Frávikin eru fyrst og fremst fólgin í því er varðar sáttasemjara og sáttatillögu við boðun verkfalls annars vegar og hins vegar með hvaða hætti undanþágur frá verkfalli eru ákveðnar.

Skv. núgildandi lögum ber sáttasemjara að leggja fram sáttatillögu ef verkfall er boðað. Allsherjaratkvæðagreiðsla fer fram um tillöguna og ráða úrslit hennar því hvort til verkfalls kemur eða ekki. Í frv. er ekki gert ráð fyrir skyldu sáttasemjara til að leggja fram sáttatillögu. Um aðild hans að kjaradeilu mun því fara eftir lögum nr. 33/1978, um sáttastörf í vinnudeilum.

Í gildandi lögum hefur sérstök nefnd, kjaradeilunefnd, það hlutverk að ákveða hverjir skuli vinna þrátt fyrir verkfall í þeim tilgangi að tryggð sé nauðsynleg öryggis- og heilsugæsla. Fyrirkomulag þetta og starfsemi kjaradeilunefndar hefur sætt harðri gagnrýni í síðustu verkföllum. Í stað þessa fyrirkomulags gerir frv. ráð fyrir því að annars vegar verði birtur tæmandi listi yfir þau störf sem undanþegin eru verkfalli og hins vegar að undanþágur verði veittar til að koma í veg fyrir neyðarástand.

Slíkar undanþágur yrðu háðar samþykki tveggja fulltrúa sem deiluaðilar skipa.

Í þeim lögum sem um Bandalag háskólamanna og Bandalag kennarafélaga gilda er hlutverk sáttasemjara það að koma á viðræðum milli aðila og kanna möguleika á samkomulagi. Takist það ekki innan tiltekinna tímamarka er málinu vísað til Kjaradóms. Ákvæði þessi falla nú niður og þar með hlutverk Kjaradóms í kjaradeilum félaga opinberra starfsmanna. Gildissvið laganna er sama og þeirra laga sem það leysir af hólmi, þ.e. opinberir starfsmenn ríkisins og sveitarfélaga með þeim undantekningum sem í lögunum greinir. Lögin taka hins vegar ekki til starfsmanna sem ráðnir eru skv. samningum almennra verkalýðsfélaga en um þá samninga gilda þeirra eigin samningar, svo og lög nr. 19/1979 um laun í veikindum og rétt til uppsagnarfrests og aðild að lífeyrissjóðum viðkomandi stéttarfélags. Þeir sem heyra undir reglugerð um veikindarétt starfsmanna og eiga aðild að Lífeyrissjóði starfsmanna ríkisins munu lúta þeim reglum sem frv. þetta mælir fyrir um. Samningsumboð fyrir hönd starfsmanna verður skv. frv. hjá öllum þeim félögum sem nú eru með samninga og að auki er gert ráð fyrir að ný félög geti fengið þann rétt uppfylli þau tiltekin skilyrði. Þar er um að tefla fagfélög eða stofnanafélög af ákveðinni stærð eða að öðrum kosti almennt félag annarra starfsmanna hjá sama vinnuveitanda. Ekki er gert ráð fyrir að fleiri en eitt félag semji um sömu störf sem háð eru lögformlegum skilyrðum. Undantekning frá þessu er þó núverandi félög á meðan félagsskipan helst óbreytt.

Ákvæði laganna um verkföll eru um margt hliðstæð gildandi ákvæðum um verkfall Bandalags starfsmanna ríkis og bæja. Í 29. gr. laga um réttindi og skyldur starfsmanna ríkisins eru talin upp ýmis störf sem eru undanþegin verkfalli. Gera þau ráð fyrir því að flutt verði sérstakt frv. um breytingu á þeim lögum þess efnis að inn í þá upptalningu starfa, sem nú er fyrir, bætist þeir starfsmenn stjórnarráðsins sem ekki er þar þegar að finna, svo og starfsmenn ríkissaksóknara og ríkislögmannsembættis. Meginrök fyrir sérákvæðum um starfsmenn stjórnarráðsins eru þau að ekki sé eðlilegt né rétt að æðstu stjórnsýslustofnanir ríkisins sé unnt að lama með verkfallsaðgerðum. Í núgildandi lögum var tekið tillit til þessa með þeim hætti að verkfallsheimild náði ekki til deildarstjóra og skrifstofustjóra, auk þess sem félagar í Bandalagi háskólamanna höfðu ekki verkfallsrétt. Þá var starfsfólk forsætisráðuneytis, utanríkisráðuneytis og launadeildar fjármálaráðuneytis einnig undanskilið. Heimild til verkfalls var því takmörkuð við tiltölulega lítinn hóp starfsmanna. Óbreytt fyrirkomulag að þessu leyti getur ekki talist heppilegt, hvorki fyrir stjórnarráðið eða starfsmenn þess. Þá þykir rétt að undanskilja starfsmenn embætta ríkissaksóknara og ríkislögmanns þar sem þau embætti kunna að fá mál tengd verkfallinu til lagalegrar umfjöllunar. Fulltrúar heildarsamtaka Bandalags starfsmanna ríkis og bæja eru ekki meðmæltir breytingu þessari en telja hana þó ekki frágangssök.

Áður hefur verið getið þeirra ákvæða sem ætlað er að gilda um lögreglumenn ríkisins en til þeirra teljast einnig tollverðir. Í undirbúningi að þessari löggjöf um kjarasamninga opinberra starfsmanna hafa fulltrúar Bandalags starfsmanna ríkis og bæja ítrekað andstöðu sína gegn þessari breytingu og lagt til að lögreglumenn og tollverðir yrðu undanskildir verkfalli með sama hætti og þær starfsstéttir sem sinna öðrum öryggisgæslustörfum eða heilbrigðisþjónustu. Ríkisstjórnin telur á hinn bóginn óhjákvæmilegt að tryggja fullkomna löggæslu í landinu hvernig sem á stendur. Og um þetta atriði er ekki ágreiningur við viðkomandi stéttarfélög.

Í frv. eru ákvæði þess efnis að þeim sem starfa við nauðsynlegustu öryggisgæslu og heilbrigðisþjónustu skuli ekki heimilt að taka þátt í verkfalli. Efnislega er hér um hliðstætt ákvæði og nú er í lögum um Bandalag starfsmanna ríkis og bæja að ræða. En í stað þess að í þeim lögum var sérstakri nefnd, kjaradeilunefnd, falið að úrskurða hverjir skyldu starfa á grundvelli þess er hér farin sú leið að birtur verður árlega listi um þessi störf. Tilgangurinn með þessari breytingu er sá að losna við þær deilur sem snerust um störf þeirrar nefndar í síðasta verkfalli og ætla má að erfitt sé að útiloka að upp blossi á ný ef slík nefnd er að störfum þegar verkfall er skollið á.

Fylgiskjal með frv. er listi um þau störf hjá ríki og nokkrum hluta sveitarfélaga sem aðilar eru sammála um að eigi að skipa slíka skrá. Skrám þessum er síðan ætlað að vera fyrirmynd að hliðstæðum listum yfir starfsmenn annarra stofnana sem ekki hefur unnist tími til að fullgera nú. Vegna þessa frv. ber nauðsyn til að gera breytingu á lögum um réttindi og skyldur ríkisstarfsmanna og að setja lög um Kjaradóm en lagaákvæði um hann eru í öðrum þeim lögum sem úr gildi falla ef það frv. sem hér er mælt fyrir verður að lögum. Lagfrv. um þessi efni verða lögð fram hér á Alþingi innan tíðar.

Herra forseti. Ég hef í máli mínu rakið aðdraganda og helstu atriði þess frv. sem hér liggur fyrir. Mál þetta er brýnt. Miklu skiptir að samskipti og samningar um kaup og kjör milli ríkis og sveitarfélaga og starfsmanna þeirra geti farið fram með eðlilegum hætti og skv. leikreglum sem báðir aðilar viðurkenna. En svo er ekki eins og nú standa sakir. Með hliðsjón af því að samningstímabil núgildandi samninga er senn á enda er brýnt að hið háa Alþingi afgreiði mál þetta hið fyrsta og áður en gert verður þinghlé vegna jóla. Ég mælist því til þess við hv. þingdeild að hún fyrir sitt leyti greiði fyrir afgreiðslu málsins.

Að samningu þessa frv. unnu með fjmrn. öll heildarsamtök opinberra starfsmanna en innan þeirra eru næstum allir þeir starfsmenn sem lögin munu taka til, ef samþykkt verða. Fulltrúar þessara aðila hafa lagt fram mikið starf og sýnt mikinn samstarfsvilja í þeim tilgangi að tryggja málinu brautargengi. Fullkomin samstaða er milli þeirra og fjmrn. um frv. þetta og ágreiningur um einstök atriði var lagður til hliðar í stað þess að láta hann spilla öðrum málum brýnni og mikilvægari sem full samstaða er um.

Herra forseti. Ég legg til að málinu verði að lokinni þessari umræðu vísað til 2. umr. og hv. fjh. og viðskn.