03.12.1986
Neðri deild: 16. fundur, 109. löggjafarþing.
Sjá dálk 1342 í B-deild Alþingistíðinda. (1173)

172. mál, jarðhitaréttindi

Flm. (Hjörleifur Guttormsson):

Herra forseti. Ég mæli fyrir frv. til l., sem er að finna á þskj. 182, um jarðhitaréttindi. Flm. ásamt mér eru aðrir hv. þm. Alþb. hér í deildinni.

Frv. þetta er gamall kunningi. Það hefur verið flutt áður í þingdeildinni, fyrst sem stjfrv. seint á starfsferli ríkisstjórnar dr. Gunnars Thoroddsens, og þá með vissum fyrirvörum af hálfu sjálfstæðismanna sem stóðu að þeirri ríkisstjórn, en síðan sem þmfrv. og var í fyrra vísað til hv. iðnn. sem fjallaði nokkuð um málið en afgreiddi það ekki frá sér.

Efnislega fjallar þetta frv. um það að lýst verði sem almannaeign jarðhita sem liggur dýpra en 100 m undir yfirborði landareigna, eins og fram kemur í 6. gr. frv., en landeigendur geti ráðið yfir jarðhita sem er grynnra eða á yfirborði. Skv. frv. er tekið tillit til þess sem gerst hefur í þessum málum. Þannig er veittur ákveðinn aðlögunartími skv. 8. gr. fyrir þá sem borað hafa eftir jarðhita og byrjað hagnýtingu hans með réttri heimild fyrir 1. jan. 1987. Það er skv. 11. gr. gert ráð fyrir því að sveitarfélag sem á land á jarðhitasvæði við gildistöku laga þessara skuli hafa forgangsrétt til að fá leyfi skv. 9. gr. til jarðhitarannsókna og svokallað jarðhitaleyfi skv. 10. gr. frv.

Hér er um stórmál að ræða, stefnumörkun í máli sem oft hefur borið á góma á hv. Alþingi, og er það rakið í grg. með frv. þessu, en það mun hafa verið 1956 sem máli þessu fyrst var hreyft hér og þá af hv. þáv. þm. Ólafi Jóhannessyni. Ég hef rakið það fyrr hér í umræðum um þetta mál að þingskörungar eins og Ólafur Jóhannesson og Bjarni Benediktsson höfðu áhuga á að fá lögfesta almenna stefnu í þessum efnum svipað og fram kemur í þessu frv. og tóku ekki undir þau sjónarmið, sem heyrðust frá sumum andmælendum og heyrast enn, að stefnumörkun af þessu tagi stangist á við 67. gr. stjórnarskrárinnar varðandi eignarrétt. Allt er þetta rakið í ítarlegri grg. með þessu frv. og færð rök fyrir því, m.a. með tilvitnun í þá hv. þm. og lagaprófessora sem ég nefndi áðan, að lagasetning af þessu tagi brjóti ekki í bága við stjórnarskrá lýðveldisins.

Það er einnig bent á að löggjöf svipuð þessu og stefnumótun hefur verið gerð í löndum sem ráða yfir jarðhita, þar á meðal í Bandaríkjunum og Nýja-Sjálandi og ýmsum fleiri ríkjum, og það er minnt á dóma sem fallið hafa um þessi efni þar sem mál af svipuðu tagi hafa gengið undir dóma í vestrænum löndum og sem staðfest hafa þau viðhorf, sem hér endurspeglast, að með löggjöf sé unnt að kveða á um yfirráðarétt yfir auðlind eins og jarðhita.

Ég minni á það hér, herra forseti, að þegar þetta mál var flutt á tveimur fyrri þingum kom fram hjá fyrrv. hæstv. iðnrh. Sverri Hermannssyni að hann teldi vera nauðsynjamál að marka stefnu um eignarrétt yfir jarðhita og í iðnrn. hefði verið unnið áframhaldandi að þessu máli og það væri að vænta tillagna af hálfu stjórnvalda, ríkisstjórnarinnar, um þessi efni. Það hefur hins vegar ekkert komið inn í þingið og ég hef ekki séð að boðað sé neitt frv. um þetta efni af hálfu ríkisstjórnarinnar, en vegna þess að hæstv. núv. iðnrh. er hér viðstaddur umræðuna og hæstv. fyrrv. iðnrh. er hér einnig þætti mér vænt um ef það kæmi fram hver séu viðhorf núverandi stjórnvalda til þessara mála og hvort ekki megi vænta þess að hæstv. iðnrh. stuðli að því að mál þetta megi fá þinglega afgreiðslu og þá málsmeðferð í hv. iðnn., sem ég legg til að fái mál þetta enn og aftur til meðferðar, að unnt sé að taka á því og afgreiða frv. um þetta efni hér í þinginu.

Ég minni einnig á að þm. Alþfl. hafa flutt um þetta efni frv. á fyrri þingum og ég held að það sé enginn ágreiningur á milli okkar í þeim efnum. Frv. það sem þm. Alþfl. í þessari deild lögðu fram á síðasta þingi varðaði að vísu takmarkaðra efni, þ.e. háhitann eingöngu, og byggði á frv. sem Magnús Kjartansson fyrrv. ráðherra lagði fram á sinni tíð, en þetta frv. tekur almennt til jarðhita og dregur almennar markalínur sem ég held að sé mjög æskilegt að dregnar verði í þessum efnum.

Það væri mjög æskilegt að tekist gæti breið samvinna í þinginu um þetta stóra mál milli stjórnar og stjórnarandstöðu. Þetta er ekki mál sem einn hugur ríkir um, a.m.k. ekki hjá núverandi stjórnarflokkum eftir því sem ég hef í þeim heyrt. Þar eru greindar meiningar um þetta mál. En nauðsynin á að höggva á þennan hnút er mikil með tilliti til þess að við reynum að nýta þessa auðlind okkar, jarðhitann, og stunda rannsóknir sem nauðsynlegar eru til farsællar hagnýtingar á þessari auðlind.

Herra forseti. Ég ætla ekki að taka meiri tíma í að mæla fyrir þessu máli, en vænti þess að um það geti tekist góð samvinna í hv. iðnn. deildarinnar