03.12.1986
Neðri deild: 16. fundur, 109. löggjafarþing.
Sjá dálk 1344 í B-deild Alþingistíðinda. (1174)

172. mál, jarðhitaréttindi

Iðnaðarráðherra (Albert Guðmundsson):

Hæstv. forseti. Hv. 5. þm. Austurl. hefur nú mælt fyrir frv. á þskj. 182, en það er frv. til l. um jarðhitaréttindi. Ég tek undir það með hv. 5. þm. Austurl. að þetta er stórt og mikið mál. En um eignarrétt og umráðarétt jarðhita gilda áþekkar reglur og um vatnsorku. Í 10. gr. vatnalaganna segir að um hveri og laugar skuli fara eftir 9. gr. með þeim takmörkunum sem nánar eru tilteknar. Samkvæmt þeim er landeiganda heimilt að hagnýta sér til orkuvinnslu slík minni háttar vötn, svo sem jarðvatn, regnvatn og leysinga, sem á landareignum safnast, lindir, dý og tjarnir sem eiga að hafa stöðugt rennsli ofanjarðar. Hér skal það ósagt látið hvort slíkt sé í reynd kostur svo að einhverju máli skipti, en í vatnalögunum er gert ráð fyrir því að því er best verður séð.

Ákvæði 9. gr. orkulaganna nr. 58 frá 1967 skiptir á hinn bóginn öllu meira máli um rétt landeiganda til hagnýtingar jarðhita, en þar segir:

„Landareign hverri fylgir réttur til umráða og hagnýtingar jarðhita úr landareigninni þó með þeim takmörkunum sem þessi lög tilgreina.“

Í 10. gr. er nánar kveðið á um heimildir landeiganda. Honum er heimilt að hagnýta sér jarðhita eins og honum þykir best henta til heimilisþarfa, framleiðslu og iðnaðar. Þá er kveðið á um rétt hans til mannvirkjagerðar í því skyni að hagnýta megi jarðhitann. Í lok greinarinnar segir að landeiganda sé heimilt að bora á landareign sinni eftir jarðhita og vinna hann til hvers konar nota. Hér er landeiganda veittur víðtækur réttur til hagnýtingar, þ.e. að því hversu langt niður þessi réttur nær. Sú kenning hefur verið orðuð að eignarráð nái svo langt niður sem nauðsynlegt er til þess að hann geti haft þau not af landi sínu sem heyra til venjulegrar hagnýtingar á eignarrétti yfir fasteignum, hvað sem það nú merkir.

Ólafur Jóhannesson prófessor, fyrrv. ráðherra, hefur bent á í Tímariti lögfræðinga 1956 að jarðhiti í náttúrlegum hverum eða laugum eða yfirborði jarðar fylgi landareign þeirri sem hann er í. Réttur landeiganda til jarðhitans er ekki takmarkaður við ákveðið dýpi, t.d. metratölu, heldur verður að meta það í hverju tilfelli með hliðsjón af réttmætri þörf landeiganda, almenningshagsmunum og vandkvæðum þeim sem eru á því að skipta jarðhita, sem djúpt liggur, milli margra eigenda.

Sú aðalregla er að framan greinir er í samræmi við það sem gildir um vatnaréttindi og námuréttindi að íslenskum lögum. Þótt jarðhiti undir yfirborði jarðar sé óneitanlega nokkurs annars eðlis en málmur eða málmblendingar sem liggja kyrrir í jörðu og hagnýting jarðhitans sé að sumu leyti frábrugðin nýtingu vatnsorku miðast þó við að svipuð sjónarmið geti gilt.

Réttindum landeigenda virðast litlar hömlur settar. Ef landeigandi hefur fjárhagslegt bolmagn til að hagnýta sér jarðhita djúpt í jörðu virðist tæplega hægt að banna honum það nema breyting á lögum komi til. Að sjálfsögðu yrði hagnýting að vera öðrum að meinalausu og sætti auðvitað þeim almennu takmörkunum sem lög gera ráð fyrir.

Oft hefur verið talað um að sett yrði sú lagaregla að hverri landareign fylgdi aðeins réttur til hagnýtingar jarðhita í jörðu og undir yfirborði jarðar í allt að 100 m dýpi. Miðað við dómvenju verður þó að ætla að slík ákvæði gætu staðist þrátt fyrir eignarréttarákvæði í 67. gr. stjórnarskrárinnar.

Í lögum um rétt landeiganda til eignarumráða á jarðhita eru settar margs konar almennar takmarkanir.

1. Skv. 10. gr. a-lið vatnalaga er landeiganda óheimilt að spilla hverum, laugum og ölkeldum í landi sínu eins og þar er nánar lýst. Í 46. gr. orkulaga er ákvæði sama efnis. Þá koma einnig til náttúruverndarlögin.

2. Skv. 10. gr. b-lið um skyldu til þess gegn greiðslu að láta í té vatn, land og efni úr landi til sundlaugar og sundskála til afnota í almenningsþarfir.

3. Í 13. gr. orkulaga er ráðstöfunarréttur á jarðhita takmarkaður á þann veg að bannað er að undanskilja landareign sinni jarðhitaréttindi nema með sérstöku leyfi ráðherra. Almennt bann af þessu tagi gildir ekki um vatnsréttindi. Hins vegar er í vatnalögum bannað að skilja tiltekin vatnsréttindi við landareign nema lagaheimild komi til, sbr. 15. gr.

4. Skv. 7. gr. orkulaga er áskilið leyfi ríkisvaldsins til ákveðinnar notkunar jarðhita svipað og gert er um vatnsnot almennt.

Leyfi Alþingis er áskilið til að reisa og reka orkuver stærra en 2000 kw og leyfi iðnrh. ef um er að ræða raforkuver 200-2000 kw. Þetta ákvæði á jafnt við um gufuaflsstöðvar og vatnsaflsstöðvar. Mér skilst að svo sé litið á að á löndum sem eru einungis afréttareign, á almenningum og öðrum eigendalausum svæðum geti allir hagnýtt sér jarðhitaorku innan þeirra marka sem landslög setja, sbr. líka vatnalög, orkulög og náttúruverndarlög.

Um þetta frv., sem hér er til umræðu, má því í stuttu máli segja, eins og kom fram hjá hv. frummælanda, að þetta er gamall kunningi sem alþm. þekkja. Frv. sem ganga í þessa átt hafa verið flutt á Alþingi aftur og aftur og ekki náð fram að ganga. Ekki hefur heldur orðið úr því að samþykkja frv. sem hafa gengið út á það að lýsa þjóðareign landsvæði sem eignarheimildir einstaklinga eða annarra lögaðila finnast ekki fyrir. Þetta skyldi einnig taka til jarðhita og vatnsréttinda. Í því sambandi er vitnað í dóm Hæstaréttar frá 28. des. 1981, en þar kemur fram að ríkið krafðist viðurkenningar á beinum eignarrétti sínum á Landmannaafrétti. Niðurstaða meiri hluta Hæstaréttar varð sú að ríkið hafi ekki fært fram lagastoð sem einkaeignarréttur til landsvæðis þessa verður reistur á og eigi verður slík krafa byggð á almennum lagarökum og lagaviðhorfum. Í dómum meiri hluta segir enn fremur eftirfarandi:

„Hins vegar verður að telja að handhafar ríkisvaldsins, sem til þess eru bærir, geti í skjóli valdheimilda sinna sett reglur um meðferð og nýtingu landsvæðis þess, sem hér er um að ræða.“

Alþingi hefur ekki sett slíkar reglur. Það hefur ekki reynst pólitískur vilji til slíks og ég efast um að það sé reiðubúið til slíks á þessu stigi málsins.

M.a. með hliðsjón af því sem ég hef nú rakið stendur nú yfir í iðnrn. sérstök könnun á þessum málum. Í sambandi við samningu frv. um vatns- og jarðhitaréttindi hafa komið upp nýjar hugmyndir um hvernig hugsanlega mætti ráða fram úr þessum málum. Það er ekki enn fullséð að það muni takast, en ég held þó að það sé ómaksins virði að beðið sé eftir því hvernig til tekst. Vona ég að hv. flm. þessa frv. sé mér sammála um það.