03.12.1986
Neðri deild: 16. fundur, 109. löggjafarþing.
Sjá dálk 1346 í B-deild Alþingistíðinda. (1175)

172. mál, jarðhitaréttindi

Flm. (Hjörleifur Guttormsson):

Herra forseti. Ég þakka hæstv. iðnrh. fyrir innlegg hans í þessa umræðu. Það er gagnlegt að heyra sjónarmið framkvæmdarvaldsins og þeirra sem með viðkomandi málaflokk fara í Stjórnarráði Íslands. Ég heyrði ekki á máli ráðherrans að hann vefengdi út af fyrir sig að það væri fullur réttur Alþingis að setja lög um þetta efni án þess að það bryti í nokkru í bága við stjórnarskrá lýðveldisins og ég lýsi ánægju minni með að ekkert kom fram í máli ráðherrans það er ég heyrði sem drægi það í efa.

Hæstv. ráðh. vitnaði í hæstaréttardóm varðandi eignar- og yfirráðarétt á afréttarlandi eða landi norðan Tungnaár, dóm sem féll 1981, og ef ég man rétt er þar beinlínis hvatt til þess að Alþingi setji lög og reglur um meðferð á slíkum landareignum og landsvæðum svo að það stendur í rauninni upp á Alþingi að gera hreint fyrir sínum dyrum varðandi þessi mikilsverðu mál, jarðhitaréttindi, en einnig raunar vatnsréttindi, en um orku fallvatna hef ég ásamt fleiri hv. þm. ítrekað flutt frv. inn í þingið síðustu árin.

Ég heyrði að hæstv. ráðh. greindi frá að verið væri eitthvað að fjalla um þessi mál í ráðuneyti hans og þar væru á kreiki nýjar hugmyndir sem ráðherrann hins vegar ekki greindi okkur nánar frá í hverju væru fólgnar, einhver ný tök þessara mála, og bað um skilning á því að um þær hugmyndir yrði fjallað og tekinn tími til þess. Mér finnst þetta mál hafa dregist þegar verulega úr hömlu og það þurfi að vinda að því bráðan bug að vinna sig fram úr því. Það verður ekki gert með því að að þessum málum verði unnið án tengsla við Alþingi og umræðu um þessi mál hér í þinginu í kyrrþey uppi í stjórnarráði. Það væri þá lágmark að þær hugmyndir yrðu kynntar í hv. iðnn. þingsins. Ég spyr hæstv. ráðh. að því hvort hann vilji stuðla að því fyrir sitt leyti að þau gögn, sem fyrir liggja og varða þær hugmyndir sem ráðherrann vék að, verði fram reidd í sambandi við meðferð þessa máls í hv. iðnn. Það held ég að væri gott framhald á þessari umræðu og mundi kannske verða til þess að þoka henni svolítið áfram þó að ég kysi vissulega að menn reyndu að setja lög nú þegar á þessu þingi um þessi mál. Ég er ekki að segja að þær tillögur sem liggja fyrir í þessu frv. séu þær einu sem ég gæti hugsað mér í þessum efnum. Það mætti hugsa sér tillögur sem kannske næðu ekki að fullu þeirri stefnumörkun sem hér er um að ræða en tryggðu samt eðlileg yfirráð almannavaldsins yfir þessari mikilsverðu auðlind.

Ég vænti þess að hæstv. ráðh. tjái sig um það efni hvort hann sé reiðubúinn að veita hv. iðnn. þessarar deildar aðgang að þeim tillögum sem hafa verið til umræðu í ráðuneyti hans þannig að iðnn. geti fjallað um það með hliðsjón af þeim hugmyndum.