03.12.1986
Neðri deild: 16. fundur, 109. löggjafarþing.
Sjá dálk 1347 í B-deild Alþingistíðinda. (1176)

172. mál, jarðhitaréttindi

Iðnaðarráðherra (Albert Guðmundsson):

Hæstv. forseti. Ég vil á þessu stigi taka undir á ný með hv. 5. þm. Austurl. að hér er um gríðarlega stórt mál að ræða. Ég vil að sjálfsögðu stuðla að því að öll mál sem lögð eru fyrir Alþingi fái þinglega afgreiðslu. Ég tek líka undir að það er nauðsynlegt í svona stóru máli að þar myndist breið samvinna og ég óska eftir samvinnu í þessu máli sem og í mörgum öðrum sem við getum átt samleið í.

Ég vil undirstrika og staðfesta að ég vefengi ekki rétt Alþingis til að setja lög um hvað sem er. Það er bara eitt sem ég óttast, að tími vinnist ekki til að koma þessu máli fram á þessu þingi. En ég skal ekki útiloka það. Það væri ekki hreinskilni af mér að taka ákveðið undir að það væri hægt að koma málinu fram á þessu þingi. Það get ég ekki gert af því að ég trúi ekki á það sjálfur. Að sjálfsögðu ber mér skylda til sem ráðherra að veita hv. þm. og þingnefnd allar upplýsingar um þá vinnu sem á sér stað í ráðuneytinu og ég mun beita mér fyrir því að svo verði gert.

Eitt af því sem mér er minnisstæðast úr þeim samtölum sem við höfum átt um þessi mál í undirbúningi að frv. í ráðuneytinu er t.d. hvernig á að tryggja rétt landeiganda þar sem vitað er að hiti er í jörðu gegn landeiganda sem kannske á land við hliðina á því landi og í seinna tilfellinu er enginn jarðhiti í landinu- hvernig á að tryggja að hann hafi ekki rétt til að bora á ská og eigna sér hita náungans. T.d. þetta er ekkert auðvelt mál. Það eru mörg svona mál sem eru í athugun. En ég tek yfirleitt undir allt það sem kom fram hjá hv. 5. þm. Austurl. og mun kanna það nú þegar hvort ég get ekki látið

hann hafa einhver þau gögn og helst öll sem fyrir liggja í könnunum í ráðuneytinu og varða þetta mál.

Umræðu (atkvæðagreiðslu) frestað.