04.12.1986
Sameinað þing: 25. fundur, 109. löggjafarþing.
Sjá dálk 1350 í B-deild Alþingistíðinda. (1184)

Afstaða til stöðvunar kjarnorkuvígbúnaðar

Guðrún Agnarsdóttir:

Herra forseti. Ég hlýt að koma hér upp um þingsköp vegna þess máls sem hér er til umræðu og þeirrar umfjöllunar sem það hefur fengið. Ég vek athygli á því að hér er í raun og veru um að ræða stefnu Íslendinga í utanríkismálum og hvernig hún er mótuð. Það er álitamál og hefur verið ágreiningsmál á þessu þingi hvernig á að standa að þeirri stefnumótun, hvort hún á alfarið að vera í höndum eins manns eða hvort Alþingi Íslendinga á að eiga þar hlut að máli.

Í þessu tiltekna máli sem er atkvæðagreiðsla um frystingu kjarnorkuvopna eða stöðvun kjarnorkuvígbúnaðar hefur Kvennalistinn reynt að fá fram skoðun Alþingis á þessu tiltekna máli s.l. þrjú þing með því að flytja tillögu sem er samhljóða þeirri umræddu tillögu, Mexíkó og Svíþjóðar, um frystingu kjarnorkuvopna. Hún er hreinlega þýðing á þeirri tillögu. Þessi tillaga hefur ekki fengist úr utanrmn. nema að því leyti til sem hún var tekin inn í þá sögulegu þál. um afvopnunarmál sem var gerð hér á þinginu 1985 í maí. Flestir ætluðu að með því að taka þá tillögu inn í afvopnunartillöguna hefði verið gefin næg leiðbeining til utanrrh. um stefnu Íslendinga í þessu tiltekna máli þannig að hann treysti sér til þess að greiða þessari tillögu atkvæði sitt á vettvangi Sameinuðu þjóðanna. Það varð ekki.

Í svari hæstv. utanrrh. við fsp. hv. þm. Kristínar Ástgeirsdóttur kom fram að þessari atkvæðagreiðslu hefði ekki verið breytt, hún hefði verið hin sama og áður. Ég hef sjálf verið svo heppin að sitja þing Sameinuðu þjóðanna s.l. þrjár vikur og fylgjast með því hvernig atkvæði hafa fallið þar af hálfu Íslendinga. Ég veitti því athygli að mjög oft fylgir Ísland Norðurlöndunum að málum. Það er undantekning ef við gerum það ekki. Það er fremur regla að við gerum það. Öll Norðurlöndin hafa séð sér fært að skipta um skoðun í þessu máli og því finnst mér, vegna þess að hér er um að ræða stefnumótun Íslendinga í utanríkismálum, mikilvægt að spyrja hæstv. utanrrh. ef það er hægt undir málaliðnum um þingsköp: Getur utanrrh. ekki skipt um skoðun í máli ef mikilvægar forsendur liggja fyrir hendi?