04.12.1986
Sameinað þing: 25. fundur, 109. löggjafarþing.
Sjá dálk 1355 í B-deild Alþingistíðinda. (1191)

Afstaða til stöðvunar kjarnorkuvígbúnaðar

Utanríkisráðherra (Matthías Á. Mathiesen):

Herra forseti. Vegna þessara umræðna og vísan til 15. gr. þingskapa vil ég leyfa mér að taka fram eftirfarandi:

Utanrmn. hefur fengið vitneskju um óbreytta afstöðu utanrrh. vegna umræddrar atkvæðagreiðslu. Alþingi hefur fengið upplýsingar um forsendur atkvæðagreiðslunnar, sbr. svar mitt við fsp. hv. varaþm. Kristínar Ástgeirsdóttur. Að sjálfsögðu getur utanrrh. breytt um afstöðu, en forsendur voru ekki til þess að hans dómi eins og kom fram í svarinu sem ég gaf.

Utanrmn. hefur fengið vitneskju jafnóðum og utanrrn. hefur borist vitneskja um atkvæðagreiðslu á allsherjarþinginu. Það er hins vegar ljóst að afgreiðsla mála þar gekk mun hraðar fyrir sig en oft áður.