04.12.1986
Sameinað þing: 25. fundur, 109. löggjafarþing.
Sjá dálk 1356 í B-deild Alþingistíðinda. (1192)

Afstaða til stöðvunar kjarnorkuvígbúnaðar

Guðrún Agnarsdóttir:

Herra forseti. Það kom fram í máli hæstv. utanrrh. að hann hefur tekið sér einskorað vald til að móta stefnu Íslendinga í utanríkismálum og segist hafa síðan tilkynnt bæði hv. utanrmn. og einnig Alþingi um niðurstöður ákvarðana sinna. Hann hefur undirstrikað að það er utanrrh. einn sem mótar stefnu Íslendinga en ekki Alþingi Íslendinga, hvorki nefndir þess né Alþingi sjálft, heldur fær það síðan að vita um ákvarðanir ráðherra.

Hv. 4. þm. Norðurl. e. talaði um óhöpp. Ég álít að hér sé ekki um óhöpp að ræða. Tímaleysi er ekki haldbær afsökun í þessu máli því að þetta mál hefur legið fyrir Alþingi á hverju ári s.l. þrjú ár. Ef þm. og heilu þingflokkarnir eru svo seinir að hugsa að það tekur þá þrjú ár að velta fyrir sér í raun jafneinföldu máli og þetta er, þá held ég að hæstv. forseti þurfi að taka það til alvarlegrar athugunar.

Varðandi tímaleysið vil ég vekja athygli á því að þann 4. nóv. s.l. mælti ég fyrir þáltill. okkar þingkvenna Kvennalistans um frystingu kjarnorkuvopna sem er samhljóða þeirri till. sem hér er til umræðu. Þann 11. nóv. fór síðan fram atkvæðagreiðsla í þriðju nefnd allsherjarþings Sameinuðu þjóðanna. Það gafst því tími til að taka afstöðu hér í þinginu. Síðan fór fram atkvæðagreiðsla í sjálfu allsherjarþinginu í gær um þetta sama mál þannig að það hefur gefist tími síðan 4. nóv. að fjalla um þetta mál á þingi.

Það sem vantar hér er ekki tími. Það vantar pólitískan vilja. Og þingsköpin eru, eins og áður hefur verið getið um í umræðunum, notuð til þess að beita þeim pólitíska vilja sem kúgar vilja Alþingis og leyfir honum ekki að koma í ljós. Það er skoðanaofbeldi og það er svokallað meirihlutalýðræði en ekki hið virka lýðræði sem hér ætti að ríkja.