04.12.1986
Sameinað þing: 25. fundur, 109. löggjafarþing.
Sjá dálk 1359 í B-deild Alþingistíðinda. (1200)

Vísun mála til nefnda

Ólafur Þ. Þórðarson:

Herra forseti. Ég tel að það sé nokkuð mikil nauðsyn á því að sambærileg mál fari til sömu nefndar hér í þinginu. Nú háttar svo til að félmn. Sþ. er frekar ung nefnd í þinginu og tekur að mestu leyti við verkefnum frá allshn. Það er mikil nauðsyn að þess sé gætt að það sé samræmi í því hvaða tillögum er vísað til allshn. og hvaða tillögum er vísað til félmn.

Það hefur nú gerst að til allshn. hefur verið vísað till. til þál. um úrbætur í umhverfismálum og náttúruvernd þar sem 1. flm. er Hjörleifur Guttormsson, en á þessum fundi var vísað til félmn. till. til þál. um stefnumótun í umhverfismálum þar sem 1. flm. var Gunnar G. Schram. Mér sýnist að það sé ekki við hæfi að umfjöllun um hliðstæð mál eigi sér stað samtímis í tveimur nefndum þingsins og vænti þess að forseti beiti sér fyrir því að það verði undantekning frá reglunni en ekki regla í það minnsta og helst hefði ég talið að það þyrfti að fjalla um þessar tillögur í sömu nefnd.